Töluverð aukning milli ára – Móðurfélagið skuldar tengdum félögum 7 milljarða – Engin óvissa um rekstrarhæfi
Rúmfatalagerinn hagnaðist um 532 milljónir króna á síðasta rekstrarári og jókst hagnaðurinn um 233 milljónir króna milli ára. Samkvæmt ársreikningi Rúmfatalagersins ehf. fyrir rekstrarárið frá 1. mars 2015 til loka febrúar 2016 námu heildareignir 2,2 milljörðum króna í lok rekstrarársins, eigið fé var jákvætt um rúmar 600 milljónir króna en skuldir námu 1,6 milljörðum króna, þar af ríflega 460 milljónir við tengd félög.
Ljóst er á þessu að tekist hefur að rétta verulega af rekstur Rúmfatalagersins sem árið 2013 tapaði 114 milljónum, auk þess sem eigið fé hans var neikvætt um rúmar 278 milljónir. Skuldastaða félagsins var þá reyndar um 1,7 milljarðar.
Annað sem breyst hefur verulega er upphæð ábyrgða sem Rúmfatalagerinn gekkst undir vegna tengdra félaga. Árið 2013 námu þær 15,3 milljörðum króna og gerði endurskoðunarfyrirtækið KPMG athugasemd við þá staðreynd í ársreikningnum – sagði að veruleg óvissa ríkti um áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins ef ábyrgðirnar féllu á félagið. Stjórnendur Rúmfatalagersins voru þó vissir um að ábyrgðirnar myndu ekki lenda á félaginu.
Þessi ábyrgð hefur lækkað verulega síðan þá. Í ársreikningi 2016 kemur fram að félagið hafi ábyrgst greiðslur vegna tengdra félaga sem nemi um 623 milljónum króna sem stjórnendur telja enn ólíklegt að lendi á félaginu.
Móðurfélag Rúmfatalagersins og fleiri fyrirtækja, til dæmis Ilvu, er Lagerinn Iceland ehf. Móðurfélagið hagnaðist um 2,6 milljarða króna á síðasta rekstrarári, þar sem mestu munaði um áhrif dótturfélaga upp á rúman milljarð. Heildareignir námu 5,6 milljörðum króna. Eigið fé þess var þó neikvætt um tæpa 1,4 milljarða króna og skuldir þess námu tæpum 7 milljörðum. Þrátt fyrir stöðu eigin fjár og skuldir segir í ársreikningum að skuldir Lagersins Iceland séu við tengd félög. „Mun móðurfélag þess halda áfram að styðja við rekstur félagsins og ríkir þar af leiðandi engin óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins.“
Aðaleigandinn er sem fyrr færeyski athafnamaðurinn, Jákup á Dul Jacobsen sem stofnaði meðal annars Rúmfatalagerinn á níunda áratug síðustu aldar. Hann hefur verið umsvifamikill í viðskiptalífinu undanfarin ár en árið 2013 var greint frá því að félag hans, L-Investments ehf., hefði farið í 31 milljarðs króna gjaldþrot þar sem aðeins fengust þrjár milljónir króna greiddar upp í kröfur í þrotabúið. L-Investments hét áður Lagerinn ehf. og kom fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem einn af stærstu skuldurum viðskiptabankanna. Skuldaði félagið Landsbankanum rúma 28,9 milljarða króna og Kaupþingi 1,6 milljarða. Þrátt fyrir skakkaföllin í hruninu virðist Jákup enn sterkefnaður og af afkomu Rúmfatalagersins að dæma er allt á réttri leið.