fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fréttir

„Mér er algjörlega nóg boðið“

Soffía ætlar að keyra 100 kílómetra á dag til að sækja póstinn sinn á Ísafirði

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 29. nóvember 2016 18:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er algjörlega búin að fá upp í kok af þessu ástandi. Hér eftir mun ég keyra sjálf til Ísafjarðar og sækja póstinn minn,“ segir Ásgerður Soffía Nönnudóttir, íbúi á Þingeyri. Um talsverðan spotta er að ræða því leiðin frá Þingeyri til Ísafjarðar er um 50 kílómetra löng og liggur yfir Gemlufallsheiði sem er stundum ófær. Soffía ætlar hins vegar að leggja þetta á sig vegna meintra bresta í þjónustu Íslandspósts við Þingeyri. Þrír pakkar til hennar hafa týnst á undanförnum mánuðum og hending er ef bréfpósturinn berst á rétt heimilisfang. Sömu sögu segir annar íbúi, Jón Reynir Sigurðsson. Í svari frá Íslandspósti kemur fram að nýr starfsmaður hafi nýlega tekið við þjónustunni og fylgst verði vel með málinu.

Skírnargjöf glataðist

Pósthúsinu á Þingeyri var lokað fyrir tveimur árum og þjónustan flutt til Ísafjarðar. Þar er pósturinn flokkaður og síðan hefur starfsmaður Íslandspósts keyrt með póstinn yfir til Þingeyrar. „Til að byrja með gekk þetta ágætlega en síðan öflugur starfsmaður hætti í sumar þá hefur þjónustan verið í fullkomnum ólestri. Starfsmannaveltan hefur verið gríðarleg og ég held að fimmti einstaklingurinn sé að sinna þessu verkefni núna,“ segir Soffía. Þrír pakkar sem hún átti von á að utan hafi týnst í meðförum Íslandspósts og það sé hending ef bréfpóstur berst til hennar.

„Ég panta reglulega frá Ali Express og á undanförnum mánuðum hafa þrír pakkar ekki skilað sér. Í kerfi póstsins er aftur á móti skráð að pakkarnir hafi skilað sér til Þingeyrar en þeir bárust aldrei. Sá síðasti barst til Þingeyrar 10. nóvember en ég hef ekki séð tangur né tetur af honum,“ segir Soffía. Annar pakki hafi verið skírnargjöf fyrir nýjasta barnabarn Soffíu sem var, eins og gefur að skilja, afar óheppilegt. Gjöfin átti að berast í sumar eða fyrir um fimm mánuðum. „Þegar ég hafði samband við Íslandspóst vegna þessara sendinga þá var mér sagt að það myndi taka þrjá mánuði að hafa upp á þessum pökkum. Ég hef ekkert heyrt í þeim síðan,“ segir Soffía.

Viðkvæmar persónuupplýsingar á víð og dreif

Þá hafi liðið heill mánuður í haust þar sem enginn bréfpóstur barst á heimili hennar. „Áttræður nágranni minn, sem býr tveim götum frá mér, hefur þrívegis komið með bréf sem áttu að berast mér. Það er ljóst að við í fjölskyldunni fáum aðeins brot af þeim persónulega pósti sem okkur á að berast. Í þessum pósti eru viðkvæmar persónuupplýsingar, eins og bankayfirlit og annað, sem maður kærir sig kannski ekki um að fari út um allt,“ segir Soffía og bætir við að hún treysti ekki Íslandspósti lengur. Að hennar sögn hefur hún margoft sent kvartanir til Íslandspósts á Ísafirði. „Það eru alltaf sömu svörin. Að þjónustan verði bætt og að þetta sé einstakt mál. Ég veit hins vegar að margir aðrir í þorpinu eru að upplifa það sama. Það er eins og Íslandspóstur haldi að fólk tali ekki saman,“ segir Soffía.

Pósturinn týndur í tvo mánuði

Annar Þingeyringur, Jón Reynir Sigurðsson, hafði sömu sögu að segja. Hann dvelur í Reykjavík nú um stundir og borgaði 6.900 krónur í september til þess að fá póstinn áframsendan suður. „Pósturinn minn var týndur í tvo mánuði. Ég frétti af pósti frá mér á sveitabæ í Arnarfirði og einnig á bæ í Dýrafirði. Þá var eitthvað af bréfunum sett inn um póstlúguna á húsinu mínu á Þingeyri. Ég hringdi í póstinn og sagði að ég væri að íhuga að fá mér bréfdúfur,“ sagði Jón Reynir. Síðustu misseri hafa bréf borist af og til en sjálfur er hann sannfærður um að allur pósturinn berist honum ekki.

Munur á Þingeyri og Flateyri

Þá segist Jón Reynir hafa átt von á pakka á haustmánuðum sem í voru varahlutir fyrir bílinn hans, sem var á þeim tímapunkti sundurrifinn á verkstæði í þorpinu. „Ég fékk bara fylgibréfið en sjálfur pakkinn fór til Flateyrar. Ég bað Íslandspóst um að redda þessu í hvelli, enda kostnaður og óþægindi sem fylgdu þessu fyrir mig og ekki við mig að sakast þótt starfsfólk Íslandspósts þekki ekki muninn á Þingeyri eða Flateyri. En það var ekki hægt að verða við því,“ segir Jón Reynir. Að hans mati hefur verið viðvarandi stjórnunarvandi hjá Íslandspósti á Ísafirði og starfsmannaveltan eftir því. „Þetta er almenningsfyrirtæki og reksturinn er alltaf að hnigna. Það er afar sorglegt,“ segir hann.

Íslandspóstur fylgist náið með

Í svari frá Íslandspósti kemur fram að fyrirtækið taki skyldur sínar mjög alvarlega og vilji eftir fremsta megni koma í veg fyrir að mál sem þessi komi upp. „Það er nýr starfsmaður sem sér um póstútburð á Þingeyri en hann hefur verið að læra inn á starfið. Búið er að fara yfir vinnuferlið með viðkomandi starfsmanni og eins um mikilvægi þess að lesa vel á póstinn áður en hann er borinn út eða afhentur. Fylgst verður náið með málinu í framhaldinu,“ segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn
Fréttir
Í gær

Líkfundur á Tenerife í tengslum við leitina að Jay Slater

Líkfundur á Tenerife í tengslum við leitina að Jay Slater
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump í fyrsta viðtalinu eftir árásina – „Ég á að vera dauður“

Trump í fyrsta viðtalinu eftir árásina – „Ég á að vera dauður“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Safnað fyrir fjölskyldu Viðars – „Setti mig og börnin okkar alltaf í fyrsta sæti“

Safnað fyrir fjölskyldu Viðars – „Setti mig og börnin okkar alltaf í fyrsta sæti“