„Mér líður illa með þennan frest og traust mitt á kerfinu er orðið æði þunnt. Þetta er áframhaldandi ill meðferð og kúgun,“ sagði Erla Bolladóttir á blaðamannafundi síðdegis í dag. Þetta kemur fram á mbl.is en DV greindi frá því fyrr í dag að endurupptökunefnd vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála muni ekki birta niðurstöðu sína um hugsanlega endurupptöku málsins fyrr en á næsta ári. Erla sótti um endurupptöku á málinu árið 2014 og til stóð að nefndin myndi skila niðurstöðunni í þessum mánuði.
Í afrit af bréfi Endurupptökunefndar sem Erlu barst í gær kemur fram að nefndinni hafi borist fréttir af því að einstaklingur búi mögulega yfir upplýsingum um hvarf Geirfinns og er úrskurðinum því frestað á meðan settur ríkissaksóknari skoðar málið.
Á blaðamannafundinum í dag sagði Erla að hún hefði sóttum endurupptöku á þeim forsendum að frá upphafi rannssóknar hefðu lög verið brotin og í gegnum málsmeðferð alla, og að endurupptökunefnd ætti taka afstöðu til þess hvort taka eigi upp málið á þeim forsendum. Eftir margra mánaða bið hafi hún búist við að fá úrskurður nefndarinnar lægi nú fyrir.
Þá sagði hún stundum hallast að því að ástæðan fyrir þessum töfum á störfum nefndarinnar væri hræðsla. „Ég hef giskað á að þeir séu hræddir,að hæstaréttarlögmenn óttist að koma fram fyrir hæstaréttadómara með þetta.“