fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Erlent starfsfólk Strætó bs. og Kynnisferða fær íslenskukennslu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 16. nóvember 2016 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bæði Strætó bs. og Kynnisferðir hafa gert samning við Retor Fræðslu um íslenskukennslu fyrir erlent starfsfólk fyrirtækjanna. Skólastjóri og stofnandi Retor Fræðslu er Aneta M. Matuszewska en hún er frá Póllandi. Aneta stofnaði Retor árið 2008 og síðan þá hefur fyrirtækið sérhæft sig í að veita innflytjendum íslenskukennslu á mismunandi stigum. Markmið Retor er að íslenska verði leiðandi tungumál á vinnustöðum á Íslandi.

Vilborg Magnúsdóttir, fræðslu- og forvarnarfulltrúi hjá Kynnisferðum, segir að íslenskukennsla sé einn þáttur í stefnu fyrirtækisins til að skapa starfsfólki þess gott vinnuumhverfi:

„Hjá Kynnisferðum eru tæplega 70 starfsmenn af erlendu bergi brotnir, bæði stjórnendur og vagnstjórar, sem eru ýmist fastráðnir eða í tímavinnu. Við leggjum áherslu á að skapa gott vinnuumhverfi fyrir okkar starfsfólk og er íslenskukennsla einn þáttur í þeirri viðleitni. Með íslenskukennslu stuðlum við að betri samskiptum og tengslum milli starfsfólks óháð þjóðerni. Það er innlegg í að efla jákvæð samskipti á vinnustað og hjálpa erlendu starfsfólki að aðlagast íslensku samfélagi.“

Starfsfólk Strætó bs. er um 300 talsins og þar af eru 57 erlendir. Margir eru þó búnir að dveljast lengi á Íslandi og hafa góð tök á tungumálinu, segir Rut Vilhjálmsdóttir, sérfræðingur á mannauðssviði fyrirtækisins:

„Það er markmið fyrirtækisins að allt starfsfólk geti tjáð sig á íslensku, það hefur í raun verið skilyrði fyrir ráðningu síðastliðin ár, þó með undantekningum vegna manneklu. Í slíkum tilfellum er þó gerð krafa hjá okkur um að einstaklingar tali góða ensku. Við höfum haldið íslenskunámskeið reglulega síðustu ár, markmið okkar nú er að gera íslenskukennslunni hærra undir höfði, enda hefur hún áhrif á aðlögun starfsmanna að vinnustaðnum og samfélaginu.“

Mikilvægt að viðhalda kunnáttunni og bæta við hana

Hjalti Ómarsson er framkvæmdastjóri Retor Fræðslu og segir hann samninginn við Strætó bs. og Kynnisferðir vera merkilegan áfanga í sögu fyrirtækisins:
„Þetta er fyrsti stóri samningurinn sem við gerum og við fögnum því að jafn stórir aðilar sem þessir séu tilbúnir að fara út í svona metnaðarfullt verkefni með okkur. Hér eru tvö stór fyrirtæki að ráðast í metnaðarfullt verkefni og við erum þakklát fyrir að fá að taka þetta að okkur, erum afar spennt fyrir verkefninu og hlökkum til að sýna góðan árangur.“

Aðspurður hvort það sé grundvallaratriði að fólk sem býr og starfar á Íslandi kunni íslensku segir Hjalti:
„Það er í sjálfu sér ekki grundvallaratriði frá sjónarhorni Íslendinga en það er hins vegar grundvallaratriði fyrir innflytjendur að öðlast lágmarks kunnáttu í íslensku og forsenda þess að tileinka sér ákveðin lífsgæði á Íslandi. Það voru innflytjendur sem stofnuðu Retor Fræðslu og okkar markmið er að kenna innflytjendum íslensku. Með því að gera íslensku að leiðandi tungumáli á vinnustöðum ætlum við að bæta gæði í samskiptum íslenskra starfsmanna og erlendra vinnufélaga en jafnframt að hækka þjónustustigið við viðskiptavini. Innflytjendur græða einnig mikið á að tileinka sér tungumálið. Til dæmis geta þeir farið að mæta á foreldrafundi í skólum og notið ýmissa annarra gæða sem eru sjálfsagður hluti af veruleika Íslendinga. Þegar svona stór fyrirtæki ráðast í verkefni af þessu tagi þá verða endurvörpunaráhrifin út í samfélagið afar mikil og jákvæð.“

Hjalti segir að meginmarkmiðið með verkefninu sé að fólk geti átt lágmarkssamskipti á íslensku:
„Að grunnsamskipti starfsfólks og viðskiptavina og milli starfsfólks innbyrðis fari fram á íslensku. Við teljum að það sé raunhæft. Það er ekki raunhæft að fólk læri og tali íslensku upp á tíu og Íslendingar þurfa að gera sér grein fyrir því að það er ekki alltaf hægt að ætlast til þess að fólk sé altalandi á íslensku. En með því að fara með svona verkefni inn á vinnustaði minnkum við líkurnar á því að til verði skipting milli innflytjenda og Íslendinga á vinnustöðum.“
Hjalti segir að það sé mjög persónubundið hvað fólk nær að tileinka sér góða íslenskukunnáttu. Þar skipti bakgrunnur og menntun alla jafna miklu máli en á því eru þó undantekningar, hann viti dæmi um fólk með litla skólamenntun sem hafi náð tiltölulega góðum tökum á íslensku á aðeins tólf mánuðum. „Þumalputtareglan er hins vegar sú að það þarf yfirleitt reglubundið íslenskunám í 18 til 36 mánuði til að ná góðum tökum á náminu og týna ekki niður kunnáttunni, því það er nauðsynlegt að viðhalda þekkingunni og bæta við hana svo manni fari ekki aftur.“

Að sögn Hjalta er kennslunni fylgt eftir með skipulögðum stuðningi vinnufélaga:
„Við ætlum að þjálfa upp mentora á vinnustöðunum, íslenskt starfsfólk sem verður erlendum vinnufélögum sínum til stuðnings og fylgir verkefninu eftir innanhúss.“

Bæði Rut og Vilborg hafa miklar væntingar til verkefnisins.
„Við bindum miklar vonir við samstarfið við Retor og við erum bjartsýn á árangurinn, sérstaklega í ljósi þeirra jákvæðu viðbragða sem við höfum fengið frá okkar starfsfólki. Við teljum að allir geti lært að tala íslensku en til þess þarf nærumhverfið, eins og samstarfsfélagar, að koma til móts við þá sem eru að læra með því til dæmis að grípa síður til enskunnar á vinnustaðnum. Það leggjum við okkur fram við,“ segir Vilborg hjá Kynnisferðum.

Rut hjá Strætó segir:
„Við erum mjög spennt fyrir verkefninu og höfum væntingar um að kennslan verði starfsmönnum ánægjuleg og gagnleg í starfi og lífi. Við viljum tengja kennsluna að vissu leyti við hagnýt atriði sem nýtast í starfinu en ekki síður í hversdagslífinu. Við vonumst til að verkefnið skili ávinningi hvað varðar samskipti og sameiginlegan skilning og ekki síður sem hluti af samfélagslegri ábyrgð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“