Engar eignir fundust í búi Bjarka Gunnlaugssonar
Skiptum á gjaldþrotabúi Bjarka Bergmanns Gunnlaugssonar, fyrrverandi atvinnumanns í knattspyrnu, er lokið. Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur námu rétt tæpri 71 milljón króna, samkvæmt tilkynningu um skiptalokin sem birtist í Lögbirtingablaðinu í dag.
Bjarki var úrskurðaður gjaldþrota 15. júní 2015 en hann og tvíburabróðir hans Arnar hafa verið umsvifamiklir fjárfestar á síðustu árum. Þeir voru stórtækir í byggingarframkvæmdum hér á landi í aðdraganda hrunsins í gegnum eignarhlut þeirra í félaginu Hanza-hópurinn ehf. Stofnuðu þeir fjárfestingarfélagið PODA Investments, ásamt Birni Steinbekk, fyrrverandi framkvæmdastjóra tónlistarhátíðarinnar Sónar.
Sunnlenska fréttablaðið fjallaði í mars 2014 um kaup tvíburabræðranna á tveimur fjölbýlishúsum á Selfossi. Fasteignirnar, Eyrarvegur 48 og Fossvegur 8, voru áður í eigu Íbúðalánasjóðs og samkvæmt frétt blaðsins nam kaupverðið á sjötta hundrað milljóna króna. Ekki kom fram hvaða félag í eigu bræðranna keypti blokkirnar en þær eru í dag í eigu eins stærsta leigufélags landsins, Heimavalla. Áttu þeir stóran þátt í stofnun félagsins.