„Þetta er undir þeim væntingum sem við vorum með,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins við Stöð 2.
Fylgi Framsóknarflokksins er nú 10,4 prósent samkvæmt þeim atkvæðum sem talin hafa verið og fær flokkurinn samkvæmt því sjö þingmenn. Framsókn tapar miklu fylgi frá síðustu kosningum.
„Við fundum fyrir ágætum meðbyr síðustu dagana, bæði í gær og í dag en svona í meira samræmi við skoðanakannanirnar. Þannig að já, við auðvitað vonumst til þess að þetta lagist eitthvað en það er alveg ljóst að skoðanakannanirnar voru að segja rétt til um niðurstöðuna“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, við Stöð 2.