fbpx
Föstudagur 20.desember 2024
Fréttir

Aðalsteinn átti lambið: Sonur minn er enginn dýraníðingur

„Ég kærði alla vega ekki lambið fyrir að sparka í hann“ – Segir málið þvælu

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 4. október 2016 16:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þó að hann stæði á hálsinum á lambinu var það ekki að gera skepnunni neitt. Það var bara til að dýrið myndi ekki hlaupa í burtu á meðan hann var að jafna sig á því dýrið sparkaði í andlitið á honum,“ segir Aðalsteinn Heiðmann Hreinsson bóndi á Auðnum 1 í Öxnadal. Sonur hans hefur verið sakaður um dýraníð í göngum í Hörgársveit. Það er Aðalsteinn sjálfur sem á lambið og hann segist hafa lógað því núna á sunnudaginn.

Mbl.is greindi frá því í morgun að grunur léki á að dýraníð hafi átt sér stað í Hörgárdal í síðasta mánuði. Lambi hafi verið misþyrmt hrottalega við smalamennsku. Fram kemur í fréttinni að vitni hafi verið að níðinu.

Þegar hópurinn hafi allur verið kominn yfir hringveginn, skammt frá Þelamörk, hafi eitt örmagna lamb setið eftir. Í stað þess að bera lambið yfir veginn eða taka það upp í bíl hafi einn smalinn gengið í skrokk á lambinu, meðal annars stappað á hálsi þess. Viðstöddum hafi verið mjög brugðið.

Fargaði því sjálfur

Í fréttinni kom fram að síðar þann sama dag hafi lamað lamb fundist í Þverárrétt. Ekki sé hægt að sanna að um sama lamb hafi verið að ræða. Héraðsdýralæknir hafi viljað aflífa lambið og kryfja en því hafi eigandi lambsins neitað. Hann hafi fargað því sjálfur. Aðalsteinn segir við DV að það sé af og frá að um sama lamb hafi verið að ræða.

„Dýraníðingur myndi ekki fara að leggja það á sig að bera fimmtíukílóa lamb á öxlum sér.“

Ólafur Jónsson dýralæknir segir við RÚV að eigandi lambsins hafi aflífað það sjálfur og hent því svo í sérstakan gám fyrir dýrahræ. „Við vorum með samkomulag um að hann myndi aflífa lambið og að því yrði síðan komið til mín. Þegar ég fór svo að kalla eftir lambinu fékk ég það svar að hann hefði ákveðið að losa sig sjálfur við dýrið. Ég hafði enga lagastoð til að kalla eftir því, þar sem það var engin staðfesting um að eitt og sama lambið væri að ræða,“ segir Ólafur við RÚV.

Í fréttinni kom svo fram að umræddur smali fengi ekki greitt frá Hörgársveit fyrir smölunina, eins og áður hafði verið samið um. Þá hefur framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda fordæmt dýraníð. „Við höfum haft samband við viðkomandi dýralækni og fylgjumst með framvindu málsins.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Aðalsteinn stígur fram

DV náði tali af Aðalsteini Heiðmann Hreinssyni bónda. Hann kveðst vera eigandi lambsins. MAST hefur einnig verið í sambandi við annan bónda sem átti lamb sem varð að aflífa. Það lamb hefur verið tengt við meint dýraníð og hefur bóndinn fengið nokkur símtöl vegna málsins. DV ræddi við þann bónda sem sagði hans lamb ekki tengjast málinu á neinn hátt. Þá vildi hann ekki meina að dýraníð hefði átt sér stað. Aðalsteinn sjálfur kveðst vera eigandi lambsins.

„Svo ég segi þér nákvæmlega hvernig þetta var: Sonur minn var búinn að bera lambið á öxlum sér nokkur hundruð metra vegna þess að það hætti að ganga vegna þreytu. Hann tók það þá bara á axlirnar. Svo bara missir hann tak á einum fæti og lambið sparkar í andlitið á honum. Ósjálfrátt beygði sig áfram og lambið dettur fram af öxlunum og hann lét það bara detta. Það sem hann gerði síðan var að setja annan fótinn á hálsinn á því til að halda við það svo það myndi ekki sleppa á meðan hann væri að jafna sig í andlitinu. Þetta er allt og sumt sem gerðist með þetta blessaða lamb.“

Hvernig fer svona saga af stað ef þetta er ekki rétt?

„Ég veit það ekki. Það selur meira í fréttum að segja að það hafi verið tekið upp og hent niður í stað þess að segja að hann hafi verið búinn að bera það á öxlum sér nokkur hundruð metra. Það þykir ekki merkilegt. Dýraníðingur myndi ekki fara að leggja það á sig að bera fimmtíukílóa lamb á öxlum sér.“

„Þetta var bara feitur einlembingshrútur.“

Þurfti að lóga þessu lambi?

„Ég er búinn að lóga því og ekki út af þessu. Þetta var einlembingshrútur. Það sást ekkert á því fram í sláturhúsi. Ég get sagt það að ég átti lambið og það var ekkert að því. Þetta var bara feitur einlembingshrútur. Það fór með öllu mínu sláturfé núna á mánudaginn. Á sunnudaginn var það tekið hér á bænum.“

Í baksýn sjást Hraundrangar.
Býlið Auðnir í Öxnadal Í baksýn sjást Hraundrangar.

Mynd: Ja.is

Hvað finnst þér um tilkynningu MAST sem nú auglýsir eftir myndum og myndböndum af dýraníð sem sonur þinn er sakaður um að bera ábyrgð á?

„Þetta er forkastanlegt. Það er orðið þannig í þjóðfélaginu, það var í fréttum um daginn að fólk leysti lamb á Suðurlandi eða kind og þetta er alþekkt um allt land að menn eru að elta kindur og þá binda þeir eina svo þeir þurfi ekki að elta hana aftur og fara til að ná hinni,“ segir Aðalsteinn og bætir við:

„Svona má bara ekkert í dag fyrir vitleysingum í þjóðfélaginu. Þetta er ekkert grín að eiga við svona. Ef það er rétt að menn í Borgarfirði hætta að geta smalað um helgar vegna sumarbústaðaeigendur voru alltaf að klaga einhverja illa meðferð á fé, þetta bara gengur ekki svona upp.“

Þá segir Aðalsteinn enn fremur:

„Þeir skilja stundum ekki hlutina og mikla fyrir sér hlutina. Þó að hann stæði á hálsinum á lambinu var það ekki að gera skepnunni neitt. Það var bara til að jafna sig því dýrið sparkaði í andlitið á honum. Annars hefði hann bara haldið á lambinu inn fyrir réttarhliðið. Það er ekkert flóknara enn það. Ætli þeir hafi ekki viljað að hann héldi á lambinu í fanginu. Ég alla vega kærði ekki lambið fyrir að sparka í hann. Ég reyndar lógaði því greyinu.“

Af hverju var það?

„Maður setur yfirleitt ekki á einlembingshrúta. Þetta stóðst heldur ekki þær kröfur sem ég geri um byggingarlag. Þetta var ekki flóknara enn það. Þetta var stór og feitur einlembingshrútur.“

Þá vandar Aðalsteinn þeim sem tilkynntu um málið til MAST og fjölmiðla en eins og áður segir greindi mbl.is frá því að sjónarvottum hefði blöskrað aðfarirnar.

„Þeir aumingjar sem senda nafnlausar ábendingar á fjölmiðla, þeir skulu standa fyrir máli sínu, takk fyrir. Það eru mannleysur sem hringja í fjölmiðla eða stofnanir undir nafnleynd. Menn eiga að vera þær manneskjur að geta staðið við orð sín.

„Hann hefur ekki fengið hótanir enn þá.“

Lúkasarmálið

Aðalsteini verður tíðrætt um Lúkasarmálið fræga. Þar var piltur sakaður um hrottalegt dýraníð og hafa drepið hundinn Lúkas. Voru drengnum sendar morðhótanir. Seinna fannst hundurinn á lífi.

„Hann hefur ekki fengið hótanir ennþá,“ segir Aðalsteinn um son sinn. „Það á sjálfsagt eftir að koma ef allir fjölmiðlar eru að lepja upp þessar sögur.“

Aðalsteinn segir fráleitt að lesa sögusagnir um að lamaða lambið í Þverárrétt væri lambið hans. „Það lamb var bara með liðbólgur. Ég hjálpaði honum með það og við settum það lamb í sér kerru og hann fór með það heim og fékk dýralækni til að líta á það. Það varð að lóga því. Hann hringdi í mig í dag og sagði að það væri verið að flækja þarna saman lömbum,“ segir Aðalsteinn.

DV getur staðfest það. Sá bóndi sagði við DV að málið væri allt þvæla og stormur í vatnsglasi. „Það er einhver að reyna að ná sér niður á einhverjum. Þetta er sóðalegt,“ sagði bóndinn sem vildi ekki koma fram undir nafni og var nýfluttur í sveitina. „Ég vil ekki tengjast þessu rugli á neinn hátt. Þetta er sóðalegt hjá MAST.“

Er þinn strákur dýraníðingur?

„Nei, það er bara svoleiðis,“ svarar Aðalsteinn: Það er svo langt langt í frá að hann sé dýraníðingur. Það er ekki svoleiðis.“

Ef þetta er ekki rétt, hver telur þú að sé að koma þessu af stað?

„Ég hef bara ekki hugmynd um það. Ég hef ekki glóru af hverju fólk lætur svona. Þetta er þvæla og þetta þarf að leiðréttast. Það þykir ekki nógu gott. Sumum þykir það ekki nógu krassandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Í gær

Viðvörunarhljóð í Kringlunni og öllum gestum Hagkaupa vísað á dyr – Reyndist ástæðulaus ótti

Viðvörunarhljóð í Kringlunni og öllum gestum Hagkaupa vísað á dyr – Reyndist ástæðulaus ótti
Fréttir
Í gær

Þegar hægri öflin á Íslandi ræða háa skatta gleymi þau að nefna að skattar á ríka Íslendinga eru með þeim lægstu

Þegar hægri öflin á Íslandi ræða háa skatta gleymi þau að nefna að skattar á ríka Íslendinga eru með þeim lægstu
Fréttir
Í gær

Arkitekt um þéttingarreiti í Reykjavík: „Ekki skrýtið að fólk sé að upplifa kulnun og streitu“

Arkitekt um þéttingarreiti í Reykjavík: „Ekki skrýtið að fólk sé að upplifa kulnun og streitu“
Fréttir
Í gær

Ferðamaður varð fyrir líkamsárás

Ferðamaður varð fyrir líkamsárás