Paragvæskur blaðamaður upplýsti í viðtali við RÚV að ungt par hefði nefnt Guðmund Spartakus
Paragvæski blaðamaðurinn Cándido Figueredo Ruiz, sem starfar við stærsta blað landsins, ABC Color, fullyrðir í viðtali við RÚV í kvöld að Guðmundur Spartakus Ómarsson, sé valdamikill í fíkniefnaheiminum í Paragvæ og Brasilíu.
Cándido, sem hefur starfað sem blaðamaður í 20 ár, segir Guðmund hægri hönd Sverris Þórs Gunnarssonar, oftast kallaður Sveddi tönn, sem afplánar nú dóm í brasilísku fangelsi vegna fíkniefnaviðskipta.
Nafn Guðmundar Spartakus komst skyndilega í fréttirnar í vikunni þegar fjölmiðillinn, sem Cándido starfar á, greindi frá nafni hans í tengslum við dularfullt hvarf Fiðriks Kristjánssonar, sem hvarf sporlaust árið 2013.
Sjá einnig: Mannshvarf Íslendings í Paragvæ: Faðir Guðmundar heyrði í honum á Skype
Cándido fullyrti í viðtali við RÚV að ungt par sem var tekið með nokkur kíló af kókaíni í Brasilíu um jólin, hafi nefnt nafn Guðmundar Spartakusar við yfirheyrslu og fullyrt þar að Guðmundur væri einn af umsvifamestu smyglurunum á svæðinu.
Cándido er gífurlega reynslumikill fréttamaður og sagði Jóhanni Hliðari Harðarsyni, fréttamanni RÚV, að Cándido hafi minnst á íslensku nöfnin að fyrra bragði, og upplýsti að auki að hann notaðist við heimildir sem hann hefði notað í um 20 ár.
Til þess að undirstrika hversu hættulegur blaðamaðurinn er álitinn fíkniefnagengjum í Paragvæ má nefna að sjö lögreglumenn gæta hans og konu hans allan sólarhringinn og þannig hefur tilvera þeirra verið í 20 ár.
Guðmundur er ekki til rannsóknar í Paragvæ en Cándido segir í viðtali við RÚV:
„Hafa verði í huga að gríðarleg spilling sé innan lögreglunnar í Paragvæ og Brasilíu, hún teygi sig inn í lögreglu, dómstóla og ráðuneytinu. Eiturlyfjasmyglararnir ráði yfir miklum fjármunum, þeir séu óspart notaðir til að komast hjá handtökum og refsingu. Því hafi yfirvöld ekki mikinn áhuga á að deila upplýsingum til annarra landa til að liðka fyrir handtöku þessara glæpamanna.“