fbpx
Laugardagur 24.ágúst 2024
Fréttir

Dó Amelia Earhart á afskekktri eyðieyju?

Forvitnileg kenning skýtur upp kollinum

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 10. september 2016 20:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hingað til hefur því verið haldið fram að frumkvöðullinn Amelia Earhart, sem varð fyrst kvenna til að fljúga yfir Atlantshafið, hafi látið lífið þegar flugvél hennar hrapaði í sjóinn í Kyrrahafi þegar hún reyndi að verða fyrst kvenna til að fljúga hringinn í kringum hnöttinn.

Lifði slysið af

Nú er önnur kenning komin upp á yfirborðið og samkvæmt henni lifði hún flugslysið af og dó drottni sínum á afskekktri eyðieyju í Kyrrahafi ásamt siglingafræðingnum Fred Noonan sem var með í för. Þetta segir Ric Gillespie hjá TIGHAR-samtökunum, en þau einbeita sér meðal annars að því að leita uppi flugvélar sem hafa horfið sporlaust.

Áttu ekki langt eftir

Amelia var heimsþekkt á sínum tíma og setti hún fjölmörg met á ferli sínum sem flugmaður. Earhart og Noonan áttu ekki ýkja langt eftir af ferð sinni þegar ógæfan fundi yfir. Eldsneyti vélarinnar var af skornum skammti og henni og Noonan gekk illa að finna Howlandeyju í Kyrrahafi. Vélin sást síðast á radar skammt frá eyjunni þann 2. júní 1937 en síðan þá hefur ekkert spurst til þeirra. Hvað gerðist er óvíst en að sögn Gillespie hrapaði vélin ekki í Kyrrahafið.

Dóu á eyjunni

Gillespie segir við New York Post að hann telji að Earhart og Noonan hafi lent vélinni á Gardner-eyju sem er um 400 mílum suðaustur af Howlandeyju. Hann telur að þau hafi slasast þegar vélin nauðlenti en komist lífs af úr sjálfu slysinu og að lokum dáið á fyrrnefndri eyju.

Dularfull neyðarköll

Gillespie hefur lagst í mikla rannsóknarvinnu og segist hann draga þessa ályktun meðal annars á þeim forsendum að neyðarköll hafi heyrst frá Earhart nokkrum dögum eftir 2. júlí, daginn sem vélin var talin hafa hrapað. Segir hann að Earhart hafi notað útvarpssendi til að reyna að kalla eftir hjálp og vísar hann meðal annars í frásögn húsmóður einnar í Texas sem sagðist hafa heyrt í Ameliu. Samkvæmt þeirri frásögn sagði Amelia að hún væri slösuð en ástand Noonan væri öllu alvarlegra. Segir hann að eldsneyti hafi verið á vélinni því annars hefði hún ekki getað notað talstöðina.

Líkfundur sex árum síðar

Annað sem Gillespie segir að renni stoðum undir þessa kenningu er líkfundur breska hermannsins og flugmannsins Gerald Gallagher á Gardnereyju árið 1940. Beinagrind sem hann fann var send til Fiji-eyja þar sem rannsókn fór fram og var niðurstaða þeirra rannsóknar að beinagrindin væri af karlmanni. Árið 1998 voru niðurstöðurnar skoðaðar í þaula og leiddi sú skoðun í ljós að beinagrindin væri að öllum líkindum af hávöxnum, hvítum kvenmanni. Þess má þó geta að beinagrindin týndist fyrir mörgum áratugum og veit enginn hvar hún er niðurkomin.

Skoða svæðið á næsta ári

Áður hafa meðlimir TIGHAR-samtakanna stigið fram og sagst hafa fundið ýmsa muni á Gardnereyju sem benda til þess að Amelia og Noonan hafi verið þar. Má þar nefna plexígler eins og notað var í flugvél Ameliu og skóbúnað sem svipar til þess skóbúnaðar sem Amelia átti. Flugvélin sjálf hefur hins vegar aldrei fundist og segir Gillespie að líklega hafi öldugangur skolað henni út á haf. Meðlimir TIGHAR stefna að því að leita að flakinu með aðstoð kafbáta á næsta ári, en þá verða 80 ár liðin frá hvarfi Ameliu Earhart. Hver veit nema sannleikurinn komi þá upp á yfirborðið?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ekki verður hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á Íslendingabók.is

Ekki verður hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á Íslendingabók.is
Pressan
Í gær

Segir að ótrúleg mistök hafi verið gerð þegar snekkjan sökk

Segir að ótrúleg mistök hafi verið gerð þegar snekkjan sökk
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af eldgosinu úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af eldgosinu úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gos er hafið á Reykjanesi

Gos er hafið á Reykjanesi