Ísraelskur ferðamaður staðinn að verki við Vallaskóla á Selfossi
Hópur nemenda við Fjölbrautaskóla Suðurlands varð í hádeginu í gær, mánudag, var við nakinn ferðamann í bíl fyrir utan Vallaskóla og íþróttahúsið Iðu á Selfossi. Nemendurnir urðu þess áskynja að ekki var allt með felldu og tóku upp stutt myndband af manninum. Á því sést að maðurinn var að stunda sjálfsfróun. Nemendurnir fóru með myndbandið til lögreglunnar. Lögreglan á Selfossi staðfestir við DV að hún hafi málið til athugunar og leitar nú að manninum.
„Við gómuðum barnaperra,“ sagði ungur maður í samtali við DV en myndbandið var tekið upp á samskiptaforritið Snapchat. Myndskeiðið var tekið upp af stúlku sem er undir lögaldri en hún var á ferð með félögum sínum í matarhléi þegar þau komu auga á manninn. Samkvæmt heimildum DV hafa allnokkrir nemendur við Fjölbrautaskólann séð umrætt myndband.
Bíllinn sem um ræðir er í eigu ónefndrar bílaleigu í Reykjavík. Starfsmaðurinn bílaleigunnar segir við DV að um ferðamann frá Ísrael sé að ræða. Hann hafði á mánudag haft bílinn í sex daga. Starfsmaðurinn segir í samtali við DV að þetta sé eitt það skrýtnasta sem á hans borð hafi komið.
„Við erum bara að leita að honum,“ segir lögreglan á Selfossi um framgang málsins sem hún lítur mjög alvarlegum augum. „Við vitum hver kappinn er.“ Lögreglan gerir ráð fyrir að finna manninn. „Þetta er náttúrlega eitthvað sem við líðum ekki.“