Skötuselur reyndist vera keila – Þorskurinn var í raun langa
Ekki virðist hægt að ganga út frá því að maður fái þann fisk sem maður pantar á veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu. Sú er að minnsta kosti raunin ef marka má rannsókn MATÍS sem Morgunblaðið fjallar um í dag.
Af þeim 50 sýnum sem tekin voru af íslenskum veitingastöðum sýndu ellefu þeirra að ekki reyndist vera um þá fisktegund að ræða sem pöntuð hafði verið af matseðli. Sýnin voru tekin af tuttugu og tveimur veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu og þau síðan erfðagreind.
Svo virðist vera sem ekki sé alltaf hægt að skella skuldinni á veitingamenn að sögn Jónasar R. Viðarssonar, fagstjóra hjá MATÍS. „Það er oft sem veitingamenn eru í góðri trú um að þeir séu að bjóða upp á það sem er á matseðli þó að raunin sé önnur,“ segir Jónas.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að fimm af þessum ellefu sýnum hafi snúið að túnfiski. Í tveimur tilfellum hafi verið boðið upp á guluggatúnfisk í stað bláuggatúnfisks sem er margfalt dýrari og var tilgreindur á matseðli. Þá var í þremur tilfellum langa á boðstólnum í stað þorsks. Þá kom upp tilfelli þar sem borin var fram keila í stað skötusels.
Í frétt Morgunblaðsins er sagt frá spaugilegu atviki í mötuneyti starfsmanna MATÍS. Boðið var upp á það sem menn töldu að væri þorskur en við nánari skoðun reyndist vera um löngu að ræða. „Matráðurinn hjá okkur stóð í þeirri trú að hann væri með þorsk. Þetta sýnir að alls ekki er alltaf hægt að skella skuldinni á veitingahúsið. Þetta virðist gerast víðsvegar í keðjunni, hvort sem það er að yfirlögðu ráði eða ekki,“ segir Jónas í fréttinni.