fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Lykilstarfsmenn geta skipt á milli sín 1.500 milljóna bónuspotti

Stjórn Kaupþings vill bónuskerfi fyrir starfsmenn – Gangi áætlanir eftir gæti bónusinn verið 50-100 milljónir á mann – Greiddur út í apríl 2018

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. ágúst 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópur sem telur um tuttugu starfsmenn eignarhaldsfélagsins Kaupþings getur fengið úthlutað samtals tæplega 1.500 milljónum króna í bónus sem verður greiddur út ekki síðar en í lok apríl 2018. Að stórum hluta verður um að ræða sömu starfsmenn og hafa þegar fengið greiddan bónus upp á tugi milljóna samtímis því að Kaupþing lauk nauðasamningum um síðastliðin áramót. Núna eiga þeir hins vegar í vændum enn frekari bónusgreiðslur – og mun hærri – takist þeim að ná tilteknum markmiðum sem miða að því að hámarka virði óseldra eigna Kaupþings og þar með endurheimtur kröfuhafa félagsins. Í sumum tilfellum geta starfsmenn fengið um og yfir 100 milljónir króna í sinn hlut, samkvæmt heimildum DV. Verðmætasta eign Kaupþings er 87% hlutur félagsins í Arion banka.

Tillaga að bónuskerfi fyrir starfsmenn Kaupþings, sem er hluti af starfskjarastefnu félagsins og DV hefur undir höndum, verður lögð til samþykktar fyrir aðalfund sem fer fram 30. ágúst næstkomandi. Þar kemur meðal annars fram að bónuskerfið (e. Retention and Incentive Plan, RIP) gildi til loka fyrsta ársfjórðungs 2018 og að starfsmenn og tilteknir verktakar félagsins, en þeir starfa einkum á skrifstofu Kaupþings í London, sem verða hluti af því geti að hámarki fengið 9,3 milljónir sterlingspunda, jafnvirði um 1.450 milljóna króna, í bónusgreiðslur. Sú fjárhæð jafngildir um 0,3% af heildareignum Kaupþings um mitt þetta ár.

Nær ekki til æðstu stjórnenda

Þá er sérstaklega tekið fram í starfskjarastefnunni að bónuskerfið sem nú standi til að innleiða nái ekki til stjórnar og annarra æðstu stjórnenda Kaupþings – samtals fimm manns – en hins vegar verði hugsanlega komið upp sérstöku bónuskerfi fyrir þá síðar meir. Samkvæmt heimildum DV er fastlega gert ráð fyrir því að slíku kerfi verði komið á fót áður en langt um líður en stjórn félagsins er skipuð þeim Alan J. Carr, bandarískum lögmanni og jafnframt stjórnarformanni, Óttari Pálssyni, hæstaréttarlögmanni og einum eigenda Logos, og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, hæstaréttarlögmanni og fyrrverandi formanni slitastjórnar Kaupþings. Í hópi æðstu stjórnenda Kaupþings eru einnig þeir Paul Copley, forstjóri og stjórnarmaður í félaginu, og Bandaríkjamaðurinn John P. Madden, en hann var ráðinn til Kaupþings fyrr á árinu til aðstoða við sölu á helstu eignum félagsins.

Stjórnarmenn fá samtals 170 milljónir í laun

Stjórnarmenn fá samtals 170 milljónir í laun

Samkvæmt tillögu um þóknun til handa fjögurra manna stjórn Kaupþings þá mun stjórnarformaður félagsins, Alan J. Carr, fá greidda fasta upphæð sem nemur 500 þúsund evrum, jafnvirði 67 milljóna króna, fyrir hvert starfsár. Þá fá aðrir stjórnarmenn, meðal annars Óttar Pálsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, 250 þúsund evrur, jafnvirði 33 milljóna króna, í stjórnarlaun á ári. Paul Copley, sem var ráðinn forstjóri félagsins í apríl síðastliðnum, situr einnig í stjórn félagsins og fær sömuleiðis 250 þúsund evrur á ári fyrir þau störf.

Ekki er mikill munur á launum þeirra sem hafa verið kosnir í stjórnir félaganna sem hafa umsjón með eignum hinna gömlu banka eftir að þeir kláruðu nauðasamninga. Rétt eins og áður hefur verið greint frá á síðum DV þá fá þrír stjórnarmenn LBI (gamla Landsbankans) samtals um 100 milljónir í laun á ári fyrir sína stjórnarsetu. Í tilfelli Glitnis HoldCo, en í þriggja manna stjórn félagsins sitja aðeins útlendingar, nema stjórnarlaunin tæplega 170 milljónum. Stjórnir þessara þriggja eignarhaldsfélaga eru skipaðar tíu karlmönnum en engin kona situr í stjórn þeirra.

Í tillögum Kaupþings að starfskjarastefnu er ekki tilgreint til hversu margra starfsmanna bónuskerfið muni ná en um þessar mundir starfa samtals um 30 manns hjá félaginu. Ljóst er hins vegar að ekki verður samið um bónusgreiðslur til allra núverandi starfsmanna og verktaka Kaupþings og eftir því sem DV kemst næst er gert ráð fyrir því að sá fjöldi starfsmanna sem getur átt rétt á því að fá bónus í sinn hlut verði í kringum 20 manns. Gangi áætlanir Kaupþings um endurheimtur eigna að fullu eftir þá gætu bónusgreiðslur á hvern starfsmann því að meðaltali numið rúmlega 70 milljónum króna. Í starfskjarastefnunni er útskýrt að hámarksfjárhæð bónusa til þeirra starfsmanna sem kaupréttaráætlunin nær til muni ráðast af þeim markmiðum sem viðkomandi starfsmaður þarf að uppfylla á tímabilinu sem um ræðir og verða ákvörðuð af stjórn Kaupþings. Vinna við útfærslu á bónuskerfinu hefur staðið yfir meira og minna frá því síðastliðið vor, samkvæmt heimildum DV, skömmu eftir að Kaupþing tók til starfa sem eignarhaldsfélag og ný stjórn var kjörin á aðalfundi til að stýra félaginu.

Lykilstarfsmenn Kaupþings

Á meðal þeirra starfsmanna sem geta fengið hlutfallslega hæstu bónusgreiðslurnar eru ýmsir Íslendingar sem hafa starfað fyrir Kaupþing allt frá því að bankinn var settur í slitameðferð vorið 2009. Í þessum hópi lykilstarfsmanna eru þeir Jóhann Pétur Reyndal, Marinó Guðmundsson, Hilmar Þór Kristinsson, Þórarinn Þorgeirsson og Þröstur Ríkharðsson. Jóhann Pétur hefur verið yfirmaður eignastýringar Kaupþings undanfarin ár en Marinó og Hilmar Þór starfa einnig undir því sviði. Þórarinn og Þröstur hafa hins vegar gegnt yfirmannsstöðu á lögfræðisviði Kaupþings eftir að Kolbeinn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings og núna stjórnarmaður í eignarhaldsfélaginu LBI (gamla Landsbankanum), hætti störfum hjá slitabúinu sumarið 2013.

Aðrir starfsmenn sem eru taldir vera lykilstarfsmenn Kaupþings eru Anna Sigríður Arnardóttir, Arnar Scheving Thorsteinsson og Arnaldur Jón Gunnarsson. Anna Sigríður hefur starfað á eignarstýringar- og lögfræðisviði Kaupþings en þeir Arnar Scheving og Arnaldur Jón unnu náið með Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, fyrrverandi formanni slitastjórnar, á því sviði sem heldur utan um svonefndar vandræðaeignir (Non-operating assets, NOA) Kaupþings.

Maserati-ákvæði stoppar bónusgreiðslu í krónum

Maserati-ákvæði stoppar bónusgreiðslu í krónum

Þrátt fyrir að ýmsir Íslendingar muni fá stóran hluta fyrirhugaðrar bónusgreiðslu til starfsmanna Kaupþings þá er félaginu óheimilt að greiða hana með reiðufé sínu í krónum. Þegar kröfuhafar Kaupþings samþykktu stöðugleikaskilyrði stjórnvalda á síðasta ári, sem fólst meðal annars í framsali innlendra eigna sem voru bókfærðar á um 136 milljarða, þá fengu þeir heimild til að draga frá allt að fimm milljarða króna af stöðugleikaframlagi sínu til að standa straum af rekstrarkostnaði sem stofnast til við starfsemi Kaupþings á Íslandi næstu þrjú árin. Undir þá frádráttarheimild falla hins vegar ekki bónusgreiðslur líkt og núna stendur til að inna af hendi til starfsmanna Kaupþings á árinu 2018 heldur verða þær að greiðast með erlendum eignum félagsins.

Það var að frumkvæði framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kröfuhafar allra slitabúa föllnu bankanna þurftu að samþykkja slíkt ákvæði þegar þeir féllust á stöðugleikaskilyrði stjórnvalda í júní 2015. Á meðal þeirra sem skipuðu framkvæmdahópinn var ákvæðið iðulega kennt við ítalska sportbílaframleiðandann Maserati enda þekkt að það eru fáir bílaframleiðendur sem njóta eins góðs af því þegar milljarða bónusgreiðslur eru greiddar út til starfsmanna fjárfestingabanka á Wall Street. Maserati-ákvæðið var sett til að fyrirbyggja þann möguleika að stöðugleikaframlag kröfuhafa til stjórnvalda yrði minna en ella vegna milljarða bónusa til íslenskra starfsmanna þeirra eignarhaldsfélaga sem yrðu til eftir nauðasamninga gömlu bankanna.

Þessi sami hópur starfsmanna Kaupþings var á meðal þeirra sem fengu greiddan út bónus um síðastliðin áramót í kjölfar þess að nauðasamningar slitabúsins voru samþykktir af dómstólum. Þeir starfsmenn sem áttu rétt á hæstu bónusgreiðslunum, eins og upplýst var um í forsíðufrétt DV í febrúar á þessu ári, fengu um og yfir 30 milljónir króna í sinn hlut, jafnvirði árslauna þeirra. Í flestum tilfellum hafði Kaupþing samið um það við starfsmenn á árunum 2012 og 2013, bæði Íslendinga og útlendinga, að þeir myndu fá bónusgreiðslur sem næmu 3 til 6 mánaðarlaunum þeirra ef skuldaskilum bankans myndi ljúka með nauðasamningi. Engu máli skipti hverjar endurheimtur kröfuhafa yrðu samkvæmt nauðasamningnum, eina skilyrðið fyrir bónusgreiðslum var að slíkur samningur yrði samþykktur af íslenskum dómstólum. Miðað við að Kaupþing úthlutaði bónusum til tuga manna þá nam heildarfjárhæðin sem slitabúið innti af hendi í slíka bónusa að lágmarki hundruðum milljóna króna.

Með fjórar milljónir á mánuði

Þrátt fyrir að kastljós fjölmiðla hafi á undanförnum árum einkum beinst að slitastjórnum gömlu bankanna, meðal annars Kaupþings, vegna hárra þóknana þeirra fyrir störf sín þá fengu starfsmenn þessara sömu slitabúa einnig afar vel greitt fyrir vinnu sína. Á síðasta ári námu heildarlaun starfsmanna Kaupþings að meðaltali tæplega 2,2 milljónum króna á mánuði en ýmsir lykilstarfsmenn slitabúsins voru aftur á móti með umtalsvert hærri laun eins og má meðal annars lesa út úr síðasta tekjublaði Frjálsrar verslunar. Þannig voru Arnaldur Jón, Arnar Scheving og Þröstur Ríkharðsson í hópi þeirra lögfræðinga og starfsmanna fjármálageirans sem voru með hæstu launin á árinu 2015, eða á bilinu 3,8 til 4,5 milljónir króna á mánuði.

Þá hafa margir af þessum sömu lykilstarfsmönnum Kaupþings setið í stjórnum erlendra félaga, þar sem Kaupþing hefur átt hagsmuna að gæta sem hluthafi, og í flestum tilfellum hafa þóknanagreiðslur fyrir þá stjórnarsetu farið til starfsmannanna sjálfra, en ekki Kaupþings. Þannig var Hilmar Þór varaformaður stjórnar finnska fjárfestingafélagsins Norvestia þangað til um mitt síðasta ár og þá situr hann í stjórn drykkjarvöruframleiðandans Refresco Garber. Fyrir stjórnarsetu í Refresco á árinu 2015 fékk Hilmar Þór rúmlega 50 þúsund evrur, jafnvirði um sjö milljóna króna. Þá á Jóhann Pétur Reyndal sæti í stjórn bresku verslunarkeðjunnar Karen Millen og Aurora Fashions, félags sem var stofnað 2009 og yfirtók rekstur helstu verslunarkeðja Mosaic Fashions. Jóhann Pétur hefur setið í stjórnum Karen Millen og Aurora Fashions frá árinu 2011 en auk þess er hann, ásamt Önnu Sigríði, í stjórn breska fasteignaþróunarfélagsins Fitzroy Place Residential.

Arion banki verðmætasta eignin

Rétt er að taka fram að ólíkt því sem á við um íslensk fjármálafyrirtæki, sem mega ekki greiða meira en sem nemur 25% af árslaunum starfsmanna sinna í kaupauka, þá gilda engar slíkar reglur um hámark á bónusgreiðslur til starfsmanna eignaumsýslufélags á borð við Kaupþing. Þá er alls óvíst hvort að sú fjárhæð sem verður að lokum greidd út í bónusa til starfsmanna félagsins muni ná því að verða samtals 9,3 milljónir sterlingspunda en það ræðst af því að sú áætlun sem stjórn félagsins hefur sett sér varðandi sölu á eignum gangi eftir. Ef endurheimtur til hluthafa Kaupþings verða minni en lagt er upp með samkvæmt þeirri áætlun mun það þýða að bónusgreiðslur til starfsmanna Kaupþings verða að sama skapi lægri.

Öll félögin innleitt milljarða bónuskerfi

Verði tillaga stjórnar Kaupþings um bónuskerfi til handa tilteknum hópi starfsmanna félagsins samþykkt á aðalfundi í næstu viku þá hafa eignarhaldsfélög allra gömlu bankanna innleitt slíkt kerfi eftir að þau tóku til starfa í kjölfar nauðasamninga. Fyrirhugað bónuskerfi Kaupþings er hins vegar ólíkt því sem hefur tekið gildi hjá LBI og Glitni HoldCo þar sem það nær ekki til stjórnar og æðstu stjórnenda heldur ýmissa annarra starfsmanna félagsins. Sú staðreynd þarf þó ekki að koma á óvart þegar litið er til þess að Kaupþing átti mun meira eftir af óseldum eignum þegar slitabúið lauk nauðasamningi samanborið við Glitni og LBI. Hluthafar Kaupþings kunna því að telja að vegna þeirra miklu eigna félagsins sem á eftir að koma í verð – þær nema samtals 475 milljörðum – þá þjóni það hagsmunum þeirra að innleiða bónuskerfi sem nær til flestra þeirra starfsmanna sem þekkja hvað best til eigna sem eru enn á forræði Kaupþings.

Eignarhaldsfélög gömlu bankanna hafa þar með öll fylgt í fótspor íslenska félagsins ALMC, áður Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, sem samþykkti umfangsmikið bónuskerfi fyrir fjölmarga stjórnendur og lykilstarfsmenn félagsins fljótlega eftir að bankinn lauk nauðasamningi haustið 2010. Á grundvelli þeirrar kaupréttaráætlunar, sem DV upplýsti um í maí síðastliðnum, greiddi félagið út yfir þrjá milljarða króna til starfsmanna. Þannig fengu fjórir æðstu stjórnendur ALMC, meðal annars Óttar Pálsson, sem situr núna í stjórn Kaupþings, samtals um 1.600 milljónir í sinn hlut. Námu bónusgreiðslur til þeirra 300 til 500 milljónum króna á mann.

Í lok júní á þessu ári námu heildareignir Kaupþings samtals 475 milljörðum króna og þar af átti félagið um 33 milljarða í reiðufé. Á meðal helstu erlendra eigna félagsins sem enn á eftir að selja og umbreyta í reiðufé eru fasteignir og hlutir í breskum félögum. Þá er bókfært virði svonefndra vandræðaeigna Kaupþings (NOA-lánasafnið), sem eru nánast einungis eignir í Bretlandi, metið á 23,5 milljarða en þar um að ræða lán til félaga sem eru með litla eða enga undirliggjandi starfsemi. Mikil óvissa er um endanlegar heimtur af þeim lánum en í reikningum Kaupþings er nafnvirði þessara eigna tæplega 800 milljarðar. Stærsta einstaka eign Kaupþings er hins vegar sem fyrr segir 87% eignarhlutur í Arion banka en miðað við bókfært eigið fé bankans er sá hlutur metinn á um 170 milljarða. Sala á þeim hlut mun ráða miklu um endanlegar heimtur kröfuhafa Kaupþings – og þar með bónusgreiðslur til starfsmanna félagsins – en til stendur að reyna að selja einhvern hluta í bankanum á þessu ári. Vegna afkomuskiptasamnings sem kröfuhafar slitabúsins gerðu samhliða því að þeir féllust á stöðugleikaskilyrði stjórnvalda, þá mun stærstur hluti söluandvirðisins falla í skaut íslenska ríkisins. Þannig myndi ríkið fá um 115 milljarða króna í sinn hlut ef 87% hlutur yrði seldur í samræmi við bókfært eigið fé en eigendur Kaupþings myndu á móti fá um 55 milljarða.

Helstu eigendur Kaupþings eftir nauðasamning eru bandarísku vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Abrams Capital og York Global. Þá er Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) í hópi stærstu hluthafa félagsins með tæplega 6% hlut. Samkvæmt heimildum DV mun ESÍ greiða atkvæði gegn fyrirliggjandi tillögu um bónuskerfi fyrir starfsmenn Kaupþings á komandi aðalfundi í næstu viku, rétt eins og fulltrúi Seðlabankans hefur gert þegar kosið var um sambærilegar tillögur á aðalfundum Glitnis HoldCo og LBI fyrr á þessu ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maður á fimmtugsaldri með gífurlegt magn af þýfi úrskurðaður í gæsluvarðhald

Maður á fimmtugsaldri með gífurlegt magn af þýfi úrskurðaður í gæsluvarðhald
Fréttir
Í gær

Gervihnattarmyndir varpa ljósi á leynimakk Rússa og Norður-Kóreumanna

Gervihnattarmyndir varpa ljósi á leynimakk Rússa og Norður-Kóreumanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi