fbpx
Mánudagur 21.apríl 2025
Fréttir

Ríkisendurskoðun skoðar eignasölu Landsbankans

Vinnur úttekt á allri eignasölu bankans frá 2010 – „Ekki óeðlilegt að slík skoðun fari fram“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 19. ágúst 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisendurskoðun vinnur að úttekt á allri eignasölu Landsbankans á árunum 2010–2016. Ákveðið var að ráðast í hana vegna beiðna frá einstaka þingmönnum, Landsbankanum og Bankasýslu ríkisins um að hún tæki eignasöluna til skoðunar í kjölfar Borgunarmálsins. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segist ekki eiga von á öðru en að niðurstaða Ríkisendurskoðunar verði sú að alltaf hafi verið farið eftir reglum og verkferlum bankans.

„Ríkisendurskoðun er endurskoðandi Landsbankans og bankinn óskaði eftir að stofnunin færi yfir sölu á hlutum bankans í Borgun árið 2014. Ríkisendurskoðun taldi rétt að kanna eignasölu bankans 2010–2016 og rökstuddi þá ákvörðun með tilteknum hætti. Það er ekki óeðlilegt að slík skoðun fari fram, meðal annars vegna umræðu um eignasölu bankans,“ segir Steinþór í skriflegu svari til DV.

Steinþór Pálsson segist öruggur um að niðustaða Ríkisendurskoðunar verði á þá leið að bankinn hafi staðið rétt að eignasölu sinni.
Bankastjórinn Steinþór Pálsson segist öruggur um að niðustaða Ríkisendurskoðunar verði á þá leið að bankinn hafi staðið rétt að eignasölu sinni.

Mynd: Mynd Landsbankinn

Gögn afhent í sumar

Stofnunin sendi Bankasýslu ríkisins, sem fer með 98,2% hlut ríkisins í Landsbankanum, bréf í maí síðastliðnum þar sem tilkynnt var að forkönnun hennar á eignasölu bankans væri lokið. Niðurstaða hennar væri að ráðast í aðalúttekt og að skýrsla um hana yrði send Alþingi í nóvember. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun er í stjórnsýsluúttektinni horft sérstaklega til verkferla og reglna við eignasölu og sölu á eignum sem fóru fram fyrir luktum dyrum. Reynt verði að svara því hvort reglur og vinnulag hafi verið í samræmi við eigendastefnu ríkisins og til þess fallið að treysta orðspor bankans og auka hag hans.

„Ástæða úttektar Ríkisendurskoðunar er sú að stofnuninni bárust formlegar og óformlegar beiðnir frá einstaka þingmönnum, Landsbankanum og Bankasýslu ríkisins um að stofnunin tæki eignasölu Landsbankans síðustu ár til skoðunar. Sumar beiðnirnar beindust einungis að sölu Landsbankans á eignarhlut sínum í Borgun en aðrar að eignasölu almennt óháð sölunni á Borgun,“ segir á vef Ríkisendurskoðunar.

Stjórnendur Landsbankans hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir Borgunarsöluna. Skýrsla Ríkisendurskoðunar verður birt Alþingi tveimur árum eftir að salan gekk í gegn.
Umdeild sala Stjórnendur Landsbankans hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir Borgunarsöluna. Skýrsla Ríkisendurskoðunar verður birt Alþingi tveimur árum eftir að salan gekk í gegn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Stofnunin hefur í sumar óskað eftir gögnum um eignasölu bankans á umræddu tímabili sem bankinn hefur afhent. Þá má benda á að í svari til Bankasýslu ríkisins 11. febrúar síðastliðinn gerði bankinn allítarlega grein fyrir sölu eigna í þeim tilfellum sem söluandvirðið var meira en einn milljarður króna,“ segir Steinþór Pálsson.

Undir smásjánni

Sala Landsbankans á 31,2% eignarhlut sínum í greiðslukortafyrirtækinu Borgun hefur vakið mikla athygli alveg síðan hún var samþykkt í nóvember 2014. Stjórnendur bankans seldu hlutinn í lokuðu söluferli og án þess að fara fram á hlutdeild í milljarðagreiðslum sem Borgun bárust í júní síðastliðnum vegna yfirtöku Visa Inc. í Bandaríkjunum á Visa Europe. Bankaráð Landsbankans ákvað í síðustu viku að höfða mál þar sem meðlimir þess telja bankann hafa farið á mis við fjármuni í viðskiptunum. Stjórnendum hans hafi ekki verið veittar nauðsynlegar upplýsingar í aðdraganda sölunnar. Líkt og kom fram í DV á mánudag þá liggur ekki fyrir hverjum bankinn hyggst stefna eða hvenær.

Ríkisbankinn seldi 38,6% hlut sinn í Valitor, samkeppnisaðila Borgunar, í desember 2014. Stjórnendur bankans gerðu þá fyrirvara um hlutdeild í þeirri milljarðagreiðslu sem Valitor fékk í júní vegna Visa-samrunans en greiðslukortafyrirtækið var einnig selt í lokuðu söluferli. Eignir Landsbankans í sölumeðferð voru í árslok 2009 metnar á alls 64 milljarða króna og 129 milljarða ári síðar. Samkvæmt svari bankans við fyrirspurnum Bankasýslu ríkisins, sem bankinn sendi stofnuninni í febrúar og Steinþór Pálsson vísar til, námu eignir í sölumeðferð 12 milljörðum króna í september í fyrra.

Ríkisendurskoðun kemur einnig til með að skoða sölu Landsbankans á eignaumsýslufélaginu Vestia, 75% hlut í fasteignafélaginu Regin, 28% hlut í Framtakssjóði Íslands og fleiri eignum sem bankinn seldi á tímabilinu. Vestia var einnig selt í lokuðu ferli árið 2010 en félagið átt þá eignarhluti í alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtækinu Icelandic Group, Húsasmiðjunni, Vodafone á Íslandi, Skýrr, Teymi og Plastprent. Félagið var selt til Framtakssjóðs Íslands, sem var þá að mestu eða öllu leyti í eigu lífeyrissjóða, fyrir 19,5 milljarða króna og 30% hlut í sjóðnum. Bréfin í fasteignafélaginu Regin voru seld með almennu hlutafjárútboði og skráningu félagsins í Kauphöll árið 2012. Söluverðmætið nam 7.895 milljónum króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kærastinn að sökkva ofan í hyldýpi hægri samsæriskenninga – Spyr hvað sé til ráða?

Kærastinn að sökkva ofan í hyldýpi hægri samsæriskenninga – Spyr hvað sé til ráða?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Strútur réðst á Boris Johnson – „Of fyndið til þess að deila ekki“

Strútur réðst á Boris Johnson – „Of fyndið til þess að deila ekki“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórður segir mjög mikilvægt að íslenska þjóðin sigri áróðursstríð útgerðarinnar – „Nú þarf að anda í kviðinn“

Þórður segir mjög mikilvægt að íslenska þjóðin sigri áróðursstríð útgerðarinnar – „Nú þarf að anda í kviðinn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kristján Loftsson harðorður – „Alþingi ræður engu í dag hér“

Kristján Loftsson harðorður – „Alþingi ræður engu í dag hér“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kona föst inni á salerni

Kona föst inni á salerni
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Segir bæjarstjórn Seltjarnarnes verða að horfast í augu við raunveruleikann – Uppsafnaður halli 3 milljarðar og þjónusta í molum

Segir bæjarstjórn Seltjarnarnes verða að horfast í augu við raunveruleikann – Uppsafnaður halli 3 milljarðar og þjónusta í molum
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Dómur fallinn yfir Hauki Ægi – Ákærður fyrir manndrápstilraun gegn sýrlenskum skutlara sem braut gegn dóttur kærustu hans

Dómur fallinn yfir Hauki Ægi – Ákærður fyrir manndrápstilraun gegn sýrlenskum skutlara sem braut gegn dóttur kærustu hans