fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Milljónagreiðslu Thorsil seinkað í sjöunda sinn

Aftur samið um frestun á 140 milljóna greiðslu vegna lóðar undir kísilver í Helguvík

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 3. ágúst 2016 08:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn Reykjaneshafnar samþykkti nýverið að fresta í sjöunda sinn gjalddaga fyrstu greiðslu Thorsil ehf. á gatnagerðargjöldum. Greiðslan nemur 140 milljónum króna og var á gjalddaga í lok júlí. Fyrirtækið, sem vill byggja og reka kísilmálmverksmiðju í Helguvík á lóð sem það fékk úthlutað í apríl 2014, átti upphaflega að ganga frá greiðslunni í desember sama ár en hefur nú fengið framlengdan frest til 30. september næstkomandi.

„Fyrirtækið telur að fjármögnun verkefnisins ljúki í ágúst en það hittist þannig á að þjóðfélagið er dautt í júlí enda allir í sumarfríi. Því var ákveðið að gefa lengri frest,“ segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar sem er í eigu Reykjanesbæjar.

Tímafrekt

Reykjaneshöfn sendi Kauphöll Íslands tilkynningu þann 22. júlí síðastliðinn þar sem kom fram að stjórn hafnarinnar hefði deginum áður komist að áðurnefndu samkomulagi við Thorsil. Var þar vísað í samkomulag fyrirtækjanna tveggja frá 15. mars síðastliðnum en samkvæmt því átti Thorsil að ganga frá fyrstu greiðslunni fyrir 15. maí. Líkt og DV greindi frá barst hún ekki og var fyrirtækinu þá aftur gefinn frestur, í sjötta skiptið, til 31. júlí.

Halldór Karl Hermannsson benti í samtali við DV í maí á að seinkun greiðslunnar hefði áhrif á tekjuhlið hafnarinnar. Dagsetningar fyrir aðrar greiðslur Thorsil vegna lóðarinnar verði ekki ákveðnar fyrr en sú fyrsta hafi verið greidd.

„Þetta er fyrst og fremst vegna þess að við vorum í samskiptum við banka þar sem margt fólk var farið í sumarfrí og því voru þeir ekki til staðar sem þurfti til að halda áfram þeirri vinnu sem við vorum í með bönkunum. Það var ákveðið að það yrði hlé þangað til það kæmi til baka úr sumarfríi. Þetta er tímafrekt og miklir pappírar,“ segir Hákon Björnsson, forstjóri Thorsil. Aðspurður segist Hákon gera ráð fyrir að fjármögnun verksmiðjunnar ljúki fyrir septemberlok.

Heildarkostnaður við kísilver Thorsil er áætlaður um 275 milljónir dollara eða tæpir 34 milljarðar króna. Fyrirtækið sendi frá sér fréttatilkynningu í maí síðastliðnum, eftir að Reykjaneshöfn hafði samþykkt seinkunina til 31. júlí, þar sem sagði að gatnagerðargjöldin yrðu ekki greidd fyrr en allir fyrirvarar yrðu uppfylltir. Var þar nefnt samþykkti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, fyrir orkusamningi Thorsil og Landsvirkjunar sem fékkst svo um mánuði síðar.

Ætla að bjóða sérkjör

Líkt og DV greindi frá í febrúar þá hefur Reykjaneshöfn ekki heldur borist 100 milljóna króna greiðsla sem eigandi lóðarinnar undir kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík átti að borga í lok nóvember 2014. Stjórnendum hafnarinnar og eigendum einkahlutafélagsins Geysis Capital greinir á um ákvæði lóðarsamnings þeirra og eru vanskilin í innheimtu.

Víkurfréttir fjölluðu í síðustu viku um ákvörðun forsvarsmanna kísilvers United Silicon, sem stendur nú nánast fullklárað skammt frá lóð Thorsil, um að þeir ætli ekki að gera sérkjarasamninga við starfsfólk fyrirtækisins. Verksmiðjan verði keyrð á almennum kjarasamningum og gagnrýnir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, ákvörðunina harðlega í samtali við fjölmiðilinn. Fullyrðir hann að United Silicon komi til með að reka einu stóriðju landsins án sérkjarasamninga.

„Okkar áform hafa alltaf verið þau að við myndum gera sérkjarasamninga sem tækju þá mið af sambærilegum samningum sem eru í sambærilegri starfsemi,“ segir Hákon Björnsson, forstjóri Thorsil, aðspurður hvort verksmiðja fyrirtækisins verði rekin samkvæmt almennum kjarasamningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Talaði Trump af sér?
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Ferðamenn fengu sér sopa en hefðu betur sleppt því – Fundu óhugnaðinn ofar í læknum

Ferðamenn fengu sér sopa en hefðu betur sleppt því – Fundu óhugnaðinn ofar í læknum
Fréttir
Í gær

Maður sem sat saklaus í fangelsi í 24 ár fyrir morð er á leið í fangelsi fyrir morð

Maður sem sat saklaus í fangelsi í 24 ár fyrir morð er á leið í fangelsi fyrir morð