fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fréttir

Auðunn: „Stjórnvöld tóku 12 prósent af kvótanum af okkar skipi til að setja hann á uppboð“

Færeysk stjórnvöld hefja uppboð á kvótum – allar veiðiheimildir innkallaðar um næstu áramót

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Fimmtudaginn 21. júlí 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsstjórnin í Færeyjum er byrjuð að selja færeyskum útgerðum veiðikvóta í hinum ýmsu tegundum á uppboðsmarkaði. Hann fer í stórum dráttum þannig fram að tekinn er til hliðar hluti af kvótum sem Færeyjar hafa fengið í samningum um aflaheimildir við aðrar þjóðir í stað þess að úthluta þeim til útgerða eins og verið hefur. Síðan eru þessir kvótar settir á uppboðsmarkað á vegum stjórnvalda. Ákveðið er fast lágmarksverð en útgerðum síðan leyft að bjóða í. Þeir sem bjóða hæst frá kvótana. Þetta er þó bundið ákveðnum skilyrðum, svo sem að einungins færeyskir borgara sem eiga skip geta tekið þátt. Einnig þarf að landa öllum afla úr þessum kvótum í Færeyjum og áhafnir skipanna mega ekki taka þátt í kvótakaupunum. Útgerðirnar verða að inna af hendi greiðslu fyrir kvótana til færeyskra stjórnvalda áður en þær fá leyfi til að senda skip sín til veiða úr kvótunum. Kaupendum er bannað er að framselja kvótana til þriðja aðila.

Með þessum hætti verða á þessu ári boðin út 20.000 tonn af kolmunna, 9.000 tonn af makríl, 4.000 tonn af norsk íslenskri síld, 2.400 tonn af botnfiski það er þorski, ýsu og þess háttar í lögsögu Rússlands í Barentshafi og 600 tonn af sömu tegunum sem færeysk skip mega veiða í norsku lögsögunni. Þann 11. júlí var þannig boðinn upp 1.200 tonna af botnfiskkvóti í lögsögu Rússlands. Alls fékk færeyska landsstjórnin 3.576.000 danskar krónur fyrir þessar heimildir eða að meðaltali 2,98 danskar krónur fyrir kílóið. Nokkrum dögum síðar voru seld 3.500 tonna aflaheimildir í markíl fyrir 3,52 danskar krónur kílóið að meðaltali, og 2.000 tonn af síld 3,56 danskar króna fyrir meðalverð á kíló. Nánar má fræðast um þessar uppboðssölur á vef færeyska sjávarútvegsráðuneytisins.

Með því að bjóða kvóta út með þessum hætti vonast landsstjórnin í Færeyjum til þess markaðsöflin fái að ráða því hve mikið ríkissjóður Færeyja fái til sín af beinum greiðslum frá útgerðunum fyrir afnot af sjávarauðlindinni sem sé sameign þjóðarinnar. Þannig sé sá kaleikur tekinn frá stjórnmálamönnum að þeir séu látnir taka ákvarðanir um upphæð veiðigjalda, telji þeir á annað borð að innheimta eigi slík gjöld.

Kvótauppboðin eru þó umdeild aðferð. Auðunn Konráðsson er íslenskur að uppruna en hefur öll sín fullorðinsár verið búsettur í Klakksvík í Færeyjum. Hann er fyrrum formaður Meginfélags útróðramanna í Færeyjum sem er félag sjómanna sem veiða í færeyskri lögsögu. Auðunn er í dag háseti á frystiogaranum Sjúrðabergi sem stundar einvörðungu veiðar úr kvótum Færeyja í lögsögum Noregs og Rússlands í Barentshafi.

„Stjórnvöld tóku 12 prósent af kvótanum af okkar skipi til að setja hann á uppboð. Þar þarf útgerðin að bjóða í heimildirnar. Engum sem starfar í færeyskum sjávarútvegi líst á þetta fyrirkomulag. Það er samkeppni sem þýðir að það þarf að bjóða hátt verð til að fá kvótana. Svo þarf að greiða út í hönd. Á sama tíma ríkir mikil óvissa um fiskverð í nánustu framtíð. Mest af því sem við veiðum er selt til Bretlandseyja. Þar hefur gengi pundsins fallið mjög eftir Brexit-atkvæðagreiðsluna. Ef þetta fer illa þá lendir tapið á útgerðunum. Þær bera alla áhættuna. Stjórnvöld eru svo fyrir sitt leyti farin að gera ráð fyrir tekjum af þessum kvótauppboðum í fjárlögum. Þeir sem eru utan sjávarútvegsins eru hins vegar kátir með þetta því það eru allir til í að taka pening frá útgerðunum. Fólk segir að þar séu svo miklir peningar og það hefur að vissu leyti rétt fyrir sér. Útgerðarmenn hafa verið að selja hér frá sér útgerðir og kvóta fyrir stórar fjárhæðir og þá vaknar eðlilega spurningin um það hver eigi í raun auðlindina,“ segir Auðunn.

Hann segist vera á móti þessari uppboðsleið á kvótum. „Þetta er tilfærsla á fjármunum frá einkageiranum til ríkisins og frá landsbyggðinni til höfuðstaðarins Þórshafnar. Þar er landssjórnin með sinn peningakassa sem alltaf er tómur. Ég held að stjórnmálamennirnir átti sig ekki á því að þeir fá enga skatta af þessum krónum aftur. Þetta er rekstrarfjármagn sem tekið er af útgerðunum og þær hefðu þurft á að halda til fjárfestinga í nýjum búnaði, til viðhalds og annars. Það er kannski allt í lagi að útgerðirnar borgi eitthvað fyrir veiðiréttinn en þessi kvótauppboð eru ekki rétta aðferðin. Þessu fylgja margir gallar sem munu koma í ljós. Einn þeirra er sá að útgerðirnar með ódýrustu skipin og ódýrustu áhafnirnar hafa bestu möguleika til að bjóða hátt,“ segir Auðunn Konráðsson.

Auðunn segir að kvótauppboðin í Færeyjum núna séu öðrum þræði tilraun þar sem menn séu að prófa sig áfram með nýjar útfærslur í nýtingu sjávarauðlindarinnar. Ástæðan er sú að nú er framundan mjög mikil óvissa í færeyskum sjávarútvegi.

„Hér munu allir kvótar, veiðidagar og öll veiðileyfi falla úr gildi þann 1. janúar næstkomandi. Allt verður tekið af öllum útgerðum sem fiska undir færeyskum fána með færeyskum heimildum. Þetta var ákveðið og fest í lög árið 2007 en útgerðirnar fengu 10 ára aðlögunartíma að þessari innköllun heimilda. Í dag veit enginn hvað tekur við eftir þetta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum
Vilja flagga alla daga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sósíalistar og VG vilja komast í meirihluta í Reykjavík

Sósíalistar og VG vilja komast í meirihluta í Reykjavík
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón bendir á rangfærslur í málflutningi Einars

Jón bendir á rangfærslur í málflutningi Einars
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Meirihlutaslitin vekja furðu – „Almáttugur hvað þetta er ómerkilegt“

Meirihlutaslitin vekja furðu – „Almáttugur hvað þetta er ómerkilegt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einar slítur borgarstjórnarsamstarfinu

Einar slítur borgarstjórnarsamstarfinu