fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Fréttir

Kristján sat um Steinþór: Yfirmenn kæra – „Ég beið eftir honum úti í bíl“

Tengist deilum um jörðina Elliða á Snæfellsnesi – Kristján segir starfshætti bankans ómanneskjulega

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. júlí 2016 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrír stjórnendur Landsbanka Íslands hafa lagt fram kæru á hendur Kristjáni Erni Elíassyni, stjórnarformanni Elliðafélagsins, fyrir hótanir og rof á friðhelgi einkalífsins. Heimildir DV herma að þeirra á meðal sé Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, en sömu heimildir herma að hann hafi talið öryggi sínu og fjölskyldumeðlima ógnað á heimili sínu og yfirgefið það tímabundið í vikunni.

Steinþór vildi ekki tjá sig þegar DV leitaði eftir viðbrögðum hans en kvaðst þó kannast við málið. Kristján Örn staðfestir að hann hafi heimsótt Steinþór á heimili bankastjórans tvívegis í síðastliðinni viku til þess að ræða uppgjör skuldamáls sem tengist honum og fjölskyldu hans. Hann gefur ekkert út á að hann hafi haft í hótunum við bankastjórann en segir að „hann hafi ekki átt annars úrkosti en að ræða málið á heimili Steinþórs út af valdníðslu og skeytingarleysi bankans.“ Kristján Örn var boðaður til yfirheyrslu í síðustu viku en var sleppt að lokinni skýrslutöku. Hann kveðst sjálfur hafa lagt fram lögreglukæru gegn forsvarsmönnum Landsbankans auk sýslumanns Vesturlands, fyrir hönd Elliðafélagsins, þann 4. nóvember 2015 og hann hafi undrast þann seinagang sem það mál hafi fengið í kerfinu. Hann telur að aðgerðir sínar hafi gert að verkum að kærunni hafi loks verið úthlutað.

Landsbankinn vildi ekki semja

Forsaga málsins er sú að Kristján Örn er stjórnarformaður Elliðafélagsins sem er félag utan um jörðina Elliða í Staðarsveit, Snæfellsnesi. Jörðin var áður í eigu afa Kristjáns og því er um ættaróðal fjölskyldunnar að ræða. Jörðin er geysistór, 2.144 hektarar, og segir Kristján að fjölskyldan hafi fengið tilboð í jörðina uppá 100 milljónir króna á árunum fyrir hrun. Hann hafi hafnað því enda hefði jörðin fyrst og fremst tilfinningalegt gildi en ekki peningalegt. Kristján tók tvö lán í nafni félagsins frá Landsbankanum fyrir hrun, samtals að upphæð 20 milljónir króna. Í kjölfar bankahrunsins réð hann ekki við afborganir lánanna og lenti í vanskilum.

Kristján stóð í talsverðu stappi við Landsbankann varðandi skuldamál félagsins og segir að bankinn hafi skellt skollaeyrum við öllum tillögum hans um lausn málsins. „Ég hafði fullt af lausnum en þeir vildu alltaf að ég borgaði meira en ég gat hverju sinni. Þeir vildu ekki semja upp á nýtt, aðeins ganga frá munnlegu samkomulagi, sem hefur ekkert gildi,“ segir Kristján Örn. Á sama tíma og hann stóð í stappi við Landsbankans varðandi skuldamál Elliðafélagsins þá hafi frænka hans höfðaði gjafsóknarmál gegn félaginu út af sumarbústaðarspildu á jörðinni sem afi Kristjáns veitti systur sinni afnot af árið 1956.

„Það er reyndar rannsóknarefni hvernig tókst að fá gjafsóknina samþykkta enda uppfyllti viðkomandi ekki skilyrði um slíkt. Gjafsókn á að vera fyrir þá sem hafa lítið milli handanna og ríkir hagsmunir eru fyrir viðkomandi. Ég efast stórlega um að það hafi átt að gilda um deilur út af sumarbústaðarspildu,“ segir Kristján Örn.

Varði sig sjálfur og vann sigur

Málið fór fyrir Héraðsdómstól Reykjavíkur þann 6. maí 2014 og varði Kristján Örn sig sjálfur. „Lögmaður stefnanda er hæstaréttarlögmaður og kennari við Háskólann í Bifröst og sem líklega taldi þetta mál vera gott praktískt dæmi. Hún fyllti því salinn af nemendum sínum til þess að leyfa þeim að fylgjast með aftökunni. Ég vann hins vegar málið, sem var eignar- og hefðarréttarmál og var það líklega ekki stór stund á lögfræðiferli viðkomandi,“ segir Kristján og glottir. Málinu hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar en á meðan beðið var eftir fyrirtöku þar hafi verið sett af stað nauðungarsöluferli á jörðinni. Jörðin var seld Landsbankanum og sýslumaður útbjó nauðungarsöluafsal.

„Ég ætlaði að kæra nauðungarsöluferlið og óskaði eftir gögnum frá sýslumanni til þess. Hann hélt þeim hins vegar eftir svo að fjögurra vikna kærufrestur rann út,“ segir Kristján Örn og er afar ósáttur við störf sýslumanns sem hann telur hafa þverbrotið lög og reglur. „Nauðungarsölumálið hefur því aldrei fengið efnislega meðferð hjá íslenskum dómstólum. Hér er því um hreinræktaða valdníðslu að ræða,“ segir Kristján Örn, sem segist hafa vitni og gögn sem sýni fram á að sýslumaður hafi dregið lappirnar varðandi afhendingu gagnanna.

„Ómanneskjulegir starfshættir“

Í kjölfarið var afsalinu þinglýst. „Fyrsta verk Landsbankans var að afsala sumarbústaðarspildunni sem rýrir verðmæti jarðarinnar stórlega. Þau vinnubrögð sæta furðu enda taldi ég mig hafa auðunnið mál í höndunum eftir sigurinn í héraði. Í kjölfarið var áfrýjunin dregin til baka og þar með fékk einstætt mál ekki umfjöllun í Hæstarétti,“ segir Kristján Örn.

Að hans sögn hafa samskipti hans við forsvarsmenn Landsbankans og sýslumann Vesturlands verið með öllu óásættanleg. „Ég er búinn að tala við fleiri tugi einstaklinga hjá Landsbankanum út af mínum málum og hef verið látinn flakka milli deilda. Yfirleitt voru viðmælendur mínir vant við látnir út af fríum eða fjarverandi af öðrum sökum. Ef ég náði í einhvern þá hafði hann ekki forræði yfir málinu en síðan í næstu heimsókn tók nýr starfsmaður við og hafði ekki hugmynd um forsögu málsins. Þar með var ég kominn á byrjunarreit. Þessir starfshættir eru ómanneskjulegir og hafa kostað mig gríðarlegan tíma og vinnu,“ segir Kristján Örn.

Kristján hefur síðan þá stofnað síðu á netinu til höfuðs Landsbankanum. Ætlar Kristján síðunni það hlutverk að gefa fólki sem sé óánægt með Landsbankann rödd. Þar segir: „Við höfum fólk til að hjálpa ykkur að skrifa sögu ykkar, taka ljós- og kvikmyndir og afla viðeigandi gagna. Þið þurfið aðeins að segja sögu ykkar!“ Eins og er eru tveir meðlimir á síðunni.

Á síðunni uppnefnir Kristján sýslumennina Ólaf H. Kjartansson og Ólaf K. Ólafsson, sýslumann Vesturlands, og kallar þá sjálfumglaða hrokatitti og smávaxnar dularverur í mannsmynd sem feli sig undir höfuðfati embætta sinna. Segir Kristján einnig að Steinþór hafi yfirgefið heimili sitt og það sé vandlega vaktað af Securitas og lögreglu.

Þar er einnig að finna myndir af útburðinum á jörðinni Elliða þar sem minnst fimm lögreglumenn voru að störfum. Þá birtir Kristján mynd af vængjahurð sem hann braut í aðstöðu sýslumannsembættisins á Akranesi. Kristján vill ekki gangast við því að hafa farið oftar en tvisvar að heimili Steinþórs en eins og áður segir hefur DV heimildir fyrir því að fjölskyldu Steinþórs hafi fundist sér vera ógnað. Aðspurður hvort það sé réttlætanlegt að rjúfa friðhelgi einkalífs manna og mögulega hræða aðra fjölskyldumeðlimi segir Kristján:

„Ég fór ekki inn á heimili hans heldur ræddi við hann í dyragættinni og síðan beið ég eftir honum úti í bíl. Ég harma það ef fjölskylda hans hefur upplifað ógn, hún á að sjálfsögðu að standa utan við þetta mál. Hins vegar lætur maðurinn ekki ná í sig í vinnunni og því verð ég að grípa í hann þar sem hann er fyrir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“