Virðing og Landsbankinn annast sölu á hlutum í fimm félögum – Markaðsvirði eigna yfir 10 milljarðar
Eignaumsýslufélag ríkisins, sem heldur utan um tugmilljarða eignir sem voru afhendar stjórnvöldum vegna stöðugleikaframlags slitabúa gömlu bankanna, mun á næstu vikum og mánuðum selja eignarhluti í skráðum og óskráðum fyrirtækjum sem eru metnir á meira en tíu milljarða króna. Félagið Lindarhvoll, sem annast umsýslu þessara stöðugleikaeigna, hefur þannig nýlega gengið frá samkomulagi við tvö fjármálafyrirtæki um að vera ráðgjafi við sölu á eignunum.
Samkvæmt heimildum DV mun Virðing vera fjármála- og söluráðgjafi við söluferli á Lyfju, sem er ein stærsta lyfjakeðja landsins, en ríkið fer með 100% eignarhlut í fyrirtækinu. Þá mun Landsbankinn annast ráðgjöf vegna sölu skráðra hlutabréfaeigna í umsýslu Lindarhvols en þar er um að ræða eignarhluti í tryggingafélaginu Sjóvá, Reitum fasteignafélagi, Símanum og Eimskipafélagi Íslands. Miðað við núverandi gengi bréfa í félögunum sem eru skráð í Kauphöll Íslands nemur verðmæti eignarhluta ríkisins í þeim samtals um sjö milljörðum króna.
Lindarhvoll óskaði í byrjun júnímánaðar eftir tilboðum frá fyrirtækjum um að taka að sér ráðgjafarhlutverk vegna sölu á eignarhlutum í samtals fimm skráðum og óskráðum félögum í eigu ríkisins. Bárust tilboð frá flestum þeirra fjármálafyrirtækja sem hafa leyfi til að annast slíka ráðgjöf.
Eignarhlutur ríkisins í Lyfju er á meðal verðmætustu einstöku eigna í formi hlutafjár í félögum og fjárfestingasjóðum sem eru í umsýslu Lindarhvols en hluturinn var áður í eigu slitabús Glitnis. Lyfjakeðjan var upphaflega tekin yfir af Glitni árið 2012 þegar þáverandi eigandi félagsins gat ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart slitabúinu. Þrátt fyrir áhuga fjárfesta þá báru tilraunir Glitnis í kjölfarið til að selja fyrirtækið engan árangur, ekki síst vegna þess, samkvæmt heimildum DV, að Glitnir vildi fá erlendan gjaldeyri til sín við söluna.
Afkoma af rekstri Lyfju hefur farið batnandi á undanförnum árum. Þannig nam hagnaður fyrirtækisins á árinu 2014 tæplega 300 milljónum króna og meira en tvöfaldaðist frá fyrra ári. Þá jókst einnig EBITDA-hagnaður á milli ára – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta – og nam samtals 667 milljónum en heildarvelta fyrirtækisins var um 8.500 milljónir króna á árinu 2014. Að því gefnu að EBITDA-afkoma lyfjakeðjunnar hafi aukist enn frekar á árinu 2015, en ársreikningur félagsins fyrir síðasta ár hefur ekki verið gerður opinber, þá má varlega áætla að allt hlutafé Lyfju sé metið á bilinu 4 til 6 milljarða króna. Gert er ráð fyrir því að niðurstaða fáist í söluferli Lyfju ekki síðar en á fjórða ársfjórðungi þessa árs.
Fljótlega eftir að Lyfja komst í hendur ríkisins tóku Steinar Þór Guðgeirsson, hæstaréttarlögmaður og ráðgjafi Seðlabanka Íslands, og Haukur C. Benediktsson, forstöðumaður Eignasafns Seðlabanka Ísands (ESÍ), sæti sem fulltrúar stjórnvalda í stjórn fyrirtækisins. Haukur og Steinar sitja í stjórnum fjölmargra óskráðra félaga sem ríkið á hagsmuna að gæta í vegna stöðugleikaframlags gömlu bankanna og þá er Haukur einnig í þriggja manna stjórn Lindarhvols.
ALMC eignarhaldsfélag
Auður I fagfjárfestasjóður
Brú II Venture Capital Fund
Dohop
Eyrir Invest
Internet á Íslandi
Klakki
Nýi Norðurturninn
S Holding
SCM
Verðmætustu eignarhlutir ríkisins í skráðum félögum á markaði eru í Sjóvá og Reitum en í tilfelli Eimskips og Símans er um að ræða hluti sem eru undir 1% af öllu hlutafé fyrirtækjanna. Ríkissjóður er sem stendur stærsti einstaki hluthafi Sjóvár með tæplega 14% eignarhlut og nemur markaðsvirði þess hlutar um 2,55 milljörðum króna. Ríflega 6% hlutur ríkisins í Reitum, stærsta fasteignafélagi landsins, er hins vegar enn verðmætari en sé litið til núverandi gengi bréfa fyrirtækisins þá ætti sala á þeim hlut að skila ríkinu um 3,9 milljörðum króna. Landsbankinn verður sem fyrr segir milligönguaðili fyrir hönd Lindarhvols við sölu á eignarhlutum í þessum fjórum félögum og ætti það að geta gengið hratt fyrir sig þar sem verið er að selja hlutabréf í félögum sem eru skráð á markað.
Félagið Lindarhvoll var sett á stofn í apríl síðastliðnum en hlutverk þess er að annast umsýslu með og fullnusta þær eignir – að undanskildum 95% eignarhlut í Íslandsbanka sem færðist yfir til Bankasýslunnar – sem ríkissjóður fékk við stöðugleikaframlag föllnu bankanna. Verðmæti eigna í umsýslu félagsins er yfir 60 milljarðar króna miðað við bókfært virði en nafnvirði eignanna nemur hins vegar hundruðum milljarða króna. Auk Hauks er stjórn félagsins skipuð þeim Þórhalli Arasyni, skrifstofustjóra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og jafnframt stjórnarformaður félagsins, og Ásu Ólafsdóttur, dósents við lögfræðideild Háskóla Íslands.