Framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits í nám við Harvard
Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, hefur nýlega farið í leyfi frá störfum sínum hjá bankanum þar sem hún er á leið í framhaldsnám. Áætlað er að Ingibjörg snúi aftur til starfa eftir eitt ár en hún mun á næstu vikum hefja meistaranám í opinberri stjórnsýslu (MPA) við John F. Kennedy School of Government við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Rannveig Júníusdóttir mun gegna starfi Ingibjargar á meðan hún er í leyfi.
Ingibjörg hefur stýrt starfsemi gjaldeyriseftirlits Seðlabankans allt frá árinu 2009, fyrst sem forstöðumaður en síðar sem framkvæmdastjóri eftirlitsins. Áður en Ingibjörg tók til starfa hjá Seðlabankanum hafði hún starfað sem lögfræðingur hjá Straumi fjárfestingabanka. Ingibjörg átti meðal annars sæti í framkvæmdahópi stjórnvalda um afnám fjármagnshafta sem var komið á fót í ársbyrjun 2015 en áætlun hópsins var kynnt í Hörpu í júní síðar það ár.