Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Félags grunnskólakennara (FG) og Sambands íslenskra sveitafélaga er lokið. Atkvæðagreiðslan hófst fimmtudaginn 2. júní og lauk í dag klukkan 16. Atkvæðagreiðslan var rafræn. Meirihluti félagsmanna í Félagi grunnskólakennara felldi samninginn. Var niðurstaðan afgerandi.
Skrifað var undir nýjan kjarasamning þann 30 maí. Gildistími var frá 1. júní 2016 til 31. mars 2019. Samningurinn fól í sér að laun myndu hækka um 3,5% á þessu ári, önnur þrjú á því næsta og svo aftur upp um þrjú prósent árið 2018. Þá átti að greiða kennurum eingreiðslu að upphæð 51,900 1.febrúar 2019.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara sagði í samtali við Vísi eftir undirskrift kjarasamningsins að þau teldu að ekki væri hægt á þessu stigi að ná betri samningi.
„Við vorum komin á þann stað að það var annaðhvort að slíta þessum viðræðum eða leggja þetta í atkvæðagreiðslu hjá okkar félagsmönnum. Við mátum það þannig að það væri komið það mikið í þetta að það væri ástæða til að leggja það fram.“
Samningurinn hefur verið felldur eins og áður segir og var niðurstaðan þessi:
Á kjörskrá: 4.453
Atkvæði greiddu: 2.932 (65,84%)
Já: 741 (25,27%)
Nei: 2.118 (72,24%)
Auðir: 73 (2,49%)