Tilkynnti framboð sitt í morgun
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra hefur staðfest að hann ætlar í forsetaframboð. Það gerði hann nú rétt í þessu á Sprengisandi. Þar var hann gestur Páls Magnússonar sem nýverið tók við þættinum.
Á Eyjunni segir um feril Davíðs sem er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins.Hann var borgarstjóri í Reykjavík á árunum 1982 til 1991 en söðlaði um og var kjörinn á Alþingi árið 1991, sama ár og hann var kjörinn formaður. Davíð settist strax í stól forsætisráðherra en hann myndaði Viðeyjarstjórnina svonefndu að afloknum kosningum 1991 ásamt
Alþýðuflokknum. Davíð sat á stóli forsætisráðherra til ársins 2003 en tók þá við sem utanríkisráðherra. Því embætti sinnti hann til ársins 2005 en það ár lét hann af þingmennsku, sem og af formannsembætti í Sjálfstæðisflokknum.
Davíð var gerður að aðalbankastjóra Seðlabankans árið 2005 og gegndi því embætti til ársins 2009. Seta hans í embætti varð verulega umdeild eftir að bankarnir hrundu og hefur hann verið gagnrýndur mjög. Davíð var raunar gagnrýndur mjög alla sína stjórnmálatíð, einkum meðan hann sat á þingi, en á sama tíma átti hann sér gríðarlega harða fylgismenn. Hann var löngum einn allra vinsælasti stjórnmálamaður landsins.
Davíð var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins haustið 2009 og hefur gegnt því starfi síðan þá.
Davíð er fæddur 1948. Hann er menntaður lögfræðingur, giftur Ástríði Thorarensen hjúkrunarfræðingi. Þau eiga einn uppkominn son.