fbpx
Mánudagur 13.janúar 2025
Fréttir

Sannleikurinn um höfund Njálu

(Þetta er einfaldara en margir halda)

Ritstjórn DV
Föstudaginn 6. maí 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef eins og mörgum er kunnugt hugsað mikið um sögu Íslands á þeirri herrans öld hinni þrettándu, þegar borgarastríð geisaði í landinu en þegar jafnframt voru hér skrifaðar þær bækur sem við eigum flest að þakka og eru okkar dýrasta eign, þar á meðal Íslendingasögurnar. Ég hef skrifað um þá öld fjórar skáldsögur byggðar á heimildum, reynt að lifa mig inn í tímana og fólkið sem þá bjó hér, og jafnframt lesið margt af því sem um þessa tíma hefur verið skrifað, bæði af samtímahöfundum og seinni tíma fræðimönnum. Og merkilegt nokk þá fann ég alltaf betur og betur hvernig atburðir og stórmerki þessarar mögnuðu aldar endurspeglast í frægustu og bestu Íslendingasögunum, sem þó á að heita svo að fjalli um atburði mörgum öldum fyrr, en flestar Íslendingasagnanna gerast á fyrstu einni til tveimur öldum eftir að Ísland fór að byggjast í stórum stíl, sem talið er vera um 870 eftir Krist.

Ráðgátan mikla …

Það merkilegasta sem þessar pælingar mínar og rannsóknir hafa fært mér heim sanninn um er að mér finnst ekki leika lengur neinn vafi á því hver skrifaði okkar frægustu bókmenntaperlu, sjálfa Njálu, sem aldrei hættir að vekja aðdáun bókmenntafólks og gengur reglulega í endurnýjun vinsældanna, nú síðast hér á landi með stórvinsælli sýningu í Borgarleikhúsinu. Um niðurstöðurnar hef ég skrifað fræðilegar greinar, yfirlesnar af virtum fræðimönnum, í tímarit eins og hinn tveggja alda gamla Skírni Hins íslenska bókmenntafélags, en mér þykir rétt að deila þeim einnig í alþýðlegum miðlum sem margir lesa, og því set ég nú enn á blað línur um það málefni.

 Þessi spurning um höfund Njálu hefur eins og flestir vita verið talin mikil ráðgáta, og sú opinbera skoðun sem ég ólst upp við var einhvern veginn þannig að höfundurinn gæti næstum hafa verið hver sem er; um allt land hafi menn fengist við skriftir og að bara einhver munkur eða prestur eða kannski höfðingi hafi einn góðan veðurdag tekið sér fjöðurstaf í hönd og skrifað þetta margslungna listaverk. Á hinn bóginn blasir það við þeim sem hafa reynslu af því að skrifa fagurbókmenntir, eða hafa gert rannsókn á tilurð slíkra verka að sínu sérsviði, að það skrifar ekki hvaða viðvaningur sem er bækur á borð við stærstu og merkustu Íslendingasögurnar. Til þess þarf langa og mikla reynslu af gerð bóka í þeim dúr, ásamt ómældum hæfileikum. Jafnvel almestu snillingar frá okkar tímum hafa allir verið lengi að koma sér upp þannig færni; Halldór Laxness hafði til að mynda í hálfan annan áratug einbeitt sér að gerð skáldverka og skrifað margar bækur, sumar hverjar frekar viðvaningslegar, áður en hann gat sett saman verk sem líkja má við Njálu eða Eglu, eins og Sjálfstætt fólk eða Heimsljós.

Hverjir voru stórskáldin þá?

Þessi augljósa staðreynd hlýtur að beina helst sjónum að frægustu nafnkunnu höfundum þrettándu aldarinnar, og sá ágæti bóndi og Njálufræðingur Helgi heitinn á Hrafnkelsstöðum sagði einfaldlega: Snorri Sturluson hlýtur að hafa skrifað Njálu; besti höfundurinn skrifaði örugglega bestu bókina. Og margir vinir mínir í rithöfundastétt hafa sagt eitthvað á þessa leið: Það er næstum útilokað að svo fámennt og frumstætt samfélag sem Ísland var á þrettándu öld hafi átt fleiri en einn höfund af því tagi sem gat skrifað Heimskringlu, Eglu og Njálu!

 Allt er þetta skynsamlega hugsað, en fellur samt á því að fullsannað þykir að Njála hafi ekki verið skrifuð fyrr en nálægt 1280, fjórum áratugum eftir fall Snorra Sturlusonar. Og svo er það hin staðreyndin að við þekkjum annan höfund af sama formati og Snorri frá umræddri öld, en það var bróðursonur hans og lærisveinn, Sturla Þórðarson. Við vitum að hann skrifaði meðal annars og af mikilli hind lengsta og mikilvægasta hluta Sturlungu, sem við hér til einföldunar skulum kalla Sturlungubók Sturlu Þórðarsonar. (Oftast kölluð Íslendingasaga, sem er mjög ruglandi nema fyrir innvígða, enda ekki um „íslendingasögu“ að ræða.)

Matthías Johannessen og fleiri

Góðir menn höfðu á undan mér beint sjónum sínum að tengslum Sturlu við Njálu, ekki síst Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri, sem hefur skrifað margt merkilegt um þessi mál og var mér mikill innblástur. Bæði innlendir og erlendir fræðimenn hafa tekið eftir mörgum sérkennilegum hliðstæðum og samsvörunum á milli Njálu og Sturlungubókar Sturlu, þar á meðal og ekki síst Barði heitinn Guðmundsson, sagnfræðingur og þjóðskjalavörður, þótt mér sýnist að hann hafi dregið af þeim fljótfærnislega ályktun, af því tagi sem þeir sem enga reynslu hafa af bókmenntaskrifum eru líklegir til að draga. Alls konar hliðstæður og enduróm má finna á milli þessara tveggja bóka, sem eru álíka langar, og eru samsvaranirnar gjarnan á svipuðum slóðum eða í hliðstæðum köflum. Ef allar yrðu taldar saman mætti telja þær í hundruðum. Og er sú staðreynd ein sterk vísbending um að sami höfundur hafi verið að verki. Að auki hnaut ég svo um eitt í viðbót sem báðar bækur eiga sameiginlegt og snertir sjálfa formgerð þeirra og efnisskipan, sem ég nú skal greina frá.

Efnispartarnir þrír

Eins og allir vita sem þekkja til Njálu þá skiptist hún mjög klárlega í þrjá afmarkaða hluta: Fyrsta partinn sem kalla má Gunnarssögu, svo tekur við Brennusagan og svo loks hefndarkaflinn, þar sem Kári er í forgrunni. Sturlungubók Sturlu er oftast gefin út og skoðuð sem partur af stærra verki, Sturlungu, og þá vafin inn í hana eftir tímaröð. En hún er líka til sjálfstæð (til dæmis í þjóðhátíðarútgáfu frá 1974) og sé hún skoðuð þannig sést að hún, rétt eins og Njála, skiptist í þrjá afmarkaða efnishluta. Og það sem meira er: þessum efnishlutum þremur má lýsa nákvæmlega eins í báðum bókum. Og það jafnt í smáum atriðum sem stórum.

Allt eins og úr sömu deiglunni

Prófum þessa lýsingu: Eftir kynningu á persónum, sviðsmynd og helstu aðstæðum fer frásögnin smám saman að hverfast um eina aðalpersónu. Sú söguhetja er ungur karlmaður, sem ber af öðrum fyrir fríðleik og líkamlegt atgervi. Eftir sigursæla för til útlanda snýr hann heim og verður bæði dáður og öfundaður. Hetjan gerir sig seka um ofmetnað eða ofdirfsku, hlýðir ekki ráðum eldri og vitrari manna, færist of mikið í fang og eignast of marga volduga óvini sem loks taka höndum saman og ráðast að söguhetjunni og fella í bardaga.

 Kannast menn við rulluna? Svona er nærtækt að lýsa jafnt fyrsta hluta Brennunjálssögu og Gunnari, sem og fyrsta hluta umræddrar Sturlungubókar  og Sturlu Sighvatssyni í því verki. Annar hluti beggja bóka snýst svo um megindramað, aðför að íslensku stórbýli og brennu sem fylgir; í báðum bókum er ætlunin að drepa fjóra menn, en einn þeirra sleppur, og á báðum stöðum  eru ellefu sagðir farast í brunanum, eða ellefu lík finnast í rústunum. Í báðum bókum er upp komin hættuleg staða, undangengin víg kalla á hefndir, en gerð er tilraun til að útkljá mál með sáttum án blóðsúthellinga. Svo virðist sem það ætli að takast, en þá gerist það sama: kona ragmanar lykilmann til að ganga úr sættinni og hefna með vopnum. Báðir menn verða rauðir sem blóð en eiga engan annan kost en að bregðast við frýjunarorðum kvennanna; önnur vildi láta hefna eiginmanns síns, hin föður síns. Í aðdraganda árásar verður ýmislegt hliðstætt sem of langt væri að telja upp, en nefna má að þeir Ingjaldur á Keldum í Njálu og Hrafn Oddsson í Íslendingasögu lenda í samskonar klemmu, reynt er að fá þá til að taka þátt í árásinni en þeir vilja ekki vera með, en heldur ekki svíkja árásarmenn með því að segja til þeirra; reyna í vandræðum sínum að vara við með almennum orðum sem duga ekki. Síðan er árás gerð á bæina. Varist er af mikilli hörku úr dyrum og gættum uns árásarmenn eiga tvo kosti, frá að hverfa eða bera eld að húsunum, og svo framvegis, og í samskonar atburðarás þekkjum við framhaldið, með öllum þeim merkilegu hliðstæðum sem á undan voru nefndar. Þetta eru auðvitað Njálsbrenna og Flugumýrarbrenna. Um þriðja hluta beggja verka þarf svo ekki að fjölyrða, hann snýst um að einn þeirra fjögurra sem ætlunin var að drepa hefur sloppið úr eldinum, það fréttir brennumannaflokkurinn daginn eftir og verður mönnum þá að orði að þetta muni þýða bana margra þeirra. Sem svo verður, með tveimur hefndarleiðöngrum þar sem, í báðum bókum, fimm brennumenn eru felldir í þeim fyrri og átta í hinum síðari. Og í hefndarköflunum sjást svo enn fleiri einkennilegar hliðstæður, t.d. undir lokin þegar íslenskur maður er staddur erlendis og heyrir þar sem hann stendur úti fyrir dyrum hvar maður innandyra gerir lítið úr banastund eins þeirra sem voru viðriðnir brunann; Kári í Njálu heyrir hæðst að lítilmannlegum dauða Skarphéðins í Njálu, Þórður kakali það sama um Kolbein grön í Sturlungubók Sturlu; báðir hlaupa inn og höggva til bana hina glaðhlakkalegu sögusmettu.

Af hverju er þetta svona?

Sumir hafa reynt að skýra þessar óumdeildu samsvaranir með ágiskun um að höfundur Njálu kunni að hafa verið nýbúinn að lesa Sturlungu og einfaldlega undir svona miklum áhrifum af henni er hann reit hina fyrrnefndu. Báðar eru reyndar taldar samsettar á svipuðu árabili (ca. 1270–80) en vert er að minnast þess að á þeim tíma var engin bókaútgáfa eða prentun og fyrir vikið sáralítil bókadreifing. Og engin sérstök ástæða til að ætla að handrit Sturlungubókar Sturlu hafa yfirgefið ritstofu hans við Breiðafjörð fyrr en eftir hans dag (hann dó 30. júlí 1284).

 Njála er augljóslega einhvers konar skáldleg eða jafnvel mýtólógísk og siðferðileg útlegging á þeim dramatísku atburðum sem Sturla Þórðarson var viðriðinn í lífinu og hann segir frá í sínu verki um Sturlungastríðin; þannig er Njáll gerður að hálfheilögum mannasætti og kristilegum friðflytjanda, sem hliðstætt fórnarlamb hinnar bókarinnar, Gissur Þorvaldsson, goði á Flugumýri, var augljóslega ekki. Og Gunnarskaflinn í Njálu er útlegging á þeirri stóru ráðgátu sem Sturla löngum glímdi við, að það er sitthvað gæfa og gjörvileiki. Engir fræðimenn hafa andmælt mér á prenti um þessi mál, en margir vikið að mér góðu, í skrifum og spjalli. Og einn af okkar helstu miðaldafræðimönnum gekkst inn á kenninguna um Sturlu sem aðalbókmenntahöfund sinna tíma í fínum fyrirlestri í Reykholti fyrir einu eða tveimur árum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eflingarfélagar mótmæla fyrir framan Finnsson Bistro í Kringlunni

Eflingarfélagar mótmæla fyrir framan Finnsson Bistro í Kringlunni
Fréttir
Í gær

Vestfirskur skipstjóri sem sigldi ölvaður iðraðist við annað brot

Vestfirskur skipstjóri sem sigldi ölvaður iðraðist við annað brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurjón dæmdur í átta ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri konu og syni hennar

Sigurjón dæmdur í átta ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri konu og syni hennar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þéttingaráform í miðborginni samþykkt þrátt fyrir áhyggjur íbúa

Þéttingaráform í miðborginni samþykkt þrátt fyrir áhyggjur íbúa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Opna heimili sitt fyrir þeim sem þurftu að flýja gróðureldana

Opna heimili sitt fyrir þeim sem þurftu að flýja gróðureldana
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skellt í lás á Bryggjunni brugghús og eigendur gjafabréfa áhyggjufullir

Skellt í lás á Bryggjunni brugghús og eigendur gjafabréfa áhyggjufullir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varpa sprengju um Carbfix: Fyrirtækið sagt stefna að mun umfangsmeiri framkvæmdum en áður hefur komið fram

Varpa sprengju um Carbfix: Fyrirtækið sagt stefna að mun umfangsmeiri framkvæmdum en áður hefur komið fram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hamfarirnar í Los Angeles: 10 þúsund hús brunnin – Veðurspáin lofar ekki góðu

Hamfarirnar í Los Angeles: 10 þúsund hús brunnin – Veðurspáin lofar ekki góðu