fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fréttir

Sigurður leitar að ráðskonu til að svæfa sig á kvöldin

Sauðburður á næsta leiti – Þarf líka að geta vakið hann – Auglýsing í Bændablaðinu vekur athygli

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 20. apríl 2016 13:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ekki svo slæmur að sofna eða vakna, en þegar maður er búinn að vera sólarhringum saman án svefns, þá er gott að hafa einhvern til að ýta við sér,“ segir Sigurður Ingvi Björnsson, bóndi á Bálkastöðum í Hrútafirði, í samtali við DV.

Óhætt er að segja að auglýsing hans í nýjasta tölublaði Bændablaðsins hafi vakið athygli, en þar leitar hann að ráðskonu sem þarf að vera þeim eiginleikum gædd að koma bónda á lappir á morgnana og svæfa hann á kvöldin. Orðrétt segir:

„Ráðskona óskast í sveit. Þarf að geta leyst úr flóknum viðgangsefnum eins og að koma bónda á lappir á morgnana og svæfa hann á kvöldin, meðfram venjulegum sveitastörfum.“

Enginn nýgræðingur

Í samtali við DV segir Sigurður kíminn að auglýsingin hafi komið beint frá hjartanu. „Ég er enginn nýgræðingur þegar kemur að búskap, hef verið viðriðinn hann frá því ég man eftir mér,“ segir hann. Framundan er sauðburður sem jafnan er strembinn tími hjá þeim sem stunda búskap.

„Ég held meira upp á konurnar og hef alltaf haft gaman af því að vinna með konum“

Sigurður segist hafa auglýst eftir starfskrafti í fyrra og þá hafi hann verið opinn fyrir því að fá karla jafnt sem konur. „Þá voru bara karlar sem svöruðu. Ég held meira upp á konurnar og hef alltaf haft gaman af því að vinna með konum. Þetta var erfitt í fyrra því þeir sögðust ætla að koma en svo komu þeir ekkert,“ segir hann og bætir við aðspurður að hann hafi því brugðið á það ráð að auglýsa með þessum skemmtilega hætti.

„Ég ákvað að prófa þetta,“ segir hann og bætir við að hann hafi góða reynslu af því að starfa með samviskusömum og duglegum konum. Aðspurður hvort konur séu betri starfskraftur en karlar, segir Sigurður: „Já, svona í umhirðu dýra.“

Nóg að gera

Sigurður segist hafa fengið góð viðbrögð við auglýsingunni og þegar hafi konur haft samband og lýst yfir áhuga á að leggja honum lið. Enn sé þó opið fyrir umsóknir.

Bálkastaðir eru í Hrútafirði og er náttúrufegurðin þar mikil; Strandafjöllin blasa við og í suðri skartar Tröllakirkja sínu fegursta. Sigurður er með um 400 kindur á Bálkastöðum. Hann er einn á býlinu og því yfirdrifið nóg að gera, sérstaklega nú þegar sauðburður er á næsta leiti. Hann segist vera opinn fyrir því að fá starfskraft til starfa fram yfir sauðburð. „Það er allt opið. Ég er einn hérna alla jafna og ef maður ætlar að bregða sér af bæ, fara með kind til dýralæknis, þá er enginn á staðnum,“ segir Sigurður sem er mikill tónlistaráhugamaður og ágætur á gítar.

„Svo gæti vel farið svo að þetta snúist við, að ég þurfi að svæfa ráðskonuna með því að syngja og spila á gítar,“ segir Sigurður að lokum og skellir upp úr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Friðarkerti olli eldsvoða í Mosfellsbæ

Friðarkerti olli eldsvoða í Mosfellsbæ
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Miklar vangaveltur – Mun Trump senda hermenn til Mexíkó?

Miklar vangaveltur – Mun Trump senda hermenn til Mexíkó?