Sveik tugi milljóna króna af fjölmörgum einstaklingum
Hæstiréttur Íslands hefur dæmt Sigurð Kárason í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik. Hæstiréttur staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll árið 2014.
RÚV greinir frá þessu.
Sigurður, sem er sextugur, var sakaður um að svíkja tugi milljóna króna út úr sextán einstaklingum. Brotin voru framin á árunum 2006 til 2010.
DV fjallaði um málið þegar aðalmeðferð fór fram í héraðsdómi. „Ég treysti honum 100 prósent,“ sagði eitt vitnanna sem kom fyrir dóminn í febrúar 2014. Viðkomandi átti í gjaldeyrisviðskiptum við Sigurð og lét honum í té sparifé sitt, alls þrettán milljónir króna sem hann taldi sig fá ávöxtun af.
Svo leið og beið en svo virðist sem aðeins helmingur fjárins hafi skilað sér til baka frá Sigurði samkvæmt framburði vitnisins.
„Ég lét til leiðast, lét hann fá sparifé sem ég átti. Það stóðst aldrei neitt. Svo þegar kom að greiðslu stóðst það ekki. Hann lagði til að ég bætti við peningum og þá yrði ávöxtunin meiri. En aldrei stóðst neitt sem hann sagði. Hann sveik mig trekk í trekk.Hann hafði greinilega gríðarlega góða þekkingu í því að tala skynsamlega um þetta. Hann kom gríðarlega vel fyrir. Ég hef fáa hitt sem hafa eins góða þekkingu og talanda á hlutum eins og þessi maður,“ sagði vitnið meðal annars.
Sigurður lýsti yfir sakleysi sínu þegar málið var til meðferðar í héraðsdómi. Að sögn saksóknara töldu fórnarlömbin að Sigurður væri fjársterkur og vel staddur þegar staðreyndin var sú að fjárhagsstaða hans var bágborin. Í dómi héraðsdóms kom fram að brotavilji Sigurðar hafi verið einbeittur og þau beinst að einstaklingum sem hafi orðið fyrir mjög verulegu og tilfinnanlegu tjóni.