Missti báða foreldra sína í slysi árið 1987 – Kvíði helltist yfir eiginkonuna þegar í ljós kom að hann yrði forsætisráðherra – Stolt af sínum manni
„Ég hef aldrei haldið því fram að lífið sé sanngjarnt. Ætla ekki heldur að segja að tilveran sé ósanngjörn. Fólk verður bara að takast á þau verkefni sem lífið færir því,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. Sigurður Ingi, sem tók á dögunum við embætti forsætisráðherra, missti foreldra sína, Jóhann Pálsson og Hróðnýju Sigurðardóttur, í bílslysi árið 1987.
Sigurður ræðir þetta og fleira til í viðtali í Morgunblaðinu í dag. „Fráfall foreldra minna kenndi mér að ekkert í lífinu er sjálfgefið. Auðvitað læknar tíminn sárin að einhverju leyti, en aldrei öllu. Og auðvitað leysa stjórnmálamenn ekki allan vanda fólksins. Okkar hlutverk er hins vegar að sjá til þess að öryggisnet samfélagsins sé sterkt – velferðarkerfið, skólarnir og heilbrigðisþjónustan – svo eitthvað sé nefnt,“ segir Sigurður í viðtalinu.
Í viðtalinu er einnig rætt við eiginkonu Sigurðar Inga, Elsu Ingjaldsdóttur, sem segir að tilfinningarnar sem bærðust innra með henni þegar í ljós kom að Sigurður yrði forsætisráðherra hefðu verið blendnar. „Þetta kom í fréttunum á þriðjudagskvöldið og fyrst þegar ég heyrði þetta helltist yfir mig hálfgerður kvíði, svo ég segi alveg eins og er. En ég er líka stolt af mínum manni því ég veit að verkefninu veldur hann vel,“ segir Elsa.
Í viðtalinu segir Sigurður Ingi að aðstæður, til að taka við forsæti í ríkisstjórn, gætu vissulega verið betri en nú. Stjórnmál séu þó þess eðlis að menn axla ábyrgð sé eftir því kallað. Sigurður Ingi boðar samráð við stjórnarandstöðuna, til dæmis í haftamálum og húsnæðismálum. „Ef til vill hefur síðustu ríkisstjórnum mistekist að ná samtali við þjóðina. Einhverra hluta vegna höfum við ekki fundið rétta tóninn. Ríkisstjórn mín mun því á næstunni kalla stjórnarandstöðuna og fleiri til samráðs um ýmis mál sem þarf að leysa,“ segir Sigurður í viðtalinu sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.