fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
FréttirLeiðari

Hefjum siðbót – ég skal byrja

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. apríl 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þær systur siðbót og siðrof hafa verið mikið til umræðu á síðustu misserum. Siðrof er bústin og pattaraleg og hefur þrifist vel. Hún hefur á köflum verið hvers manns hugljúfi og vel látið af henni, þrátt fyrir að allir viti í raun að hún er vanþakklát og hortug og stendur ekki við nokkurn skapaðan hlut sem hún lofar. Litla systir hennar, siðbót, er hlédræg og ótrúlega horuð. Hún er fríð en smágerð. Iðulega er bent á hana á hátíðisdögum og farið um hana fögrum orðum. Þrátt fyrir það þrífst hún illa og er afskipt flesta daga.

Við Íslendingar fordæmum jafnan spillingu, nema þegar við sjálf eigum í hlut. Fjölmargir Íslendingar sjá ekkert að því að kaupa svarta þjónustu, vinna svart og beita klíku til að koma málum sínum áfram. En þeir gagnrýna jafnframt slíka hegðun harkalega hjá öðru fólki. Er nú ekki kominn tími til að við hefjum siðbót til vegs og virðingar og gerum það þannig að eftir verði tekið?

Ég skal byrja.

Ég átti aflandsfélag, eins og ég greindi frá í yfirlýsingu á fyrri hluta síðasta árs og kom fram á dv.is í gær. Félaginu var slitið árið 2009. Talið fram og gefið upp á skattframtali og ég greiddi skatt af þeim tekjum sem ég hafði af því. (Hélt reyndar eins og Bjarni Ben. að félagið væri í Lúxemborg, ekki á Tortola.) Fátt hefur haft meiri og alvarlegri áhrif á líf mitt en þetta. Sú martröð fékk eðlilegan og farsælan endi.

Nú þið.

Íslenskir útgerðarmenn! Þurfið þið að segja okkur frá aflandsfélögum sem þið eða ykkar fyrirtæki áttu í skattaskjólum? Sem ekki var gerð grein fyrir þegar afskrifað var eftir hrunið og þið fenguð að halda fyrirtækjunum? Viðskiptavinir Kaupþings í Lúx og Glitnis, SPRON og Byrs? Þurfið þið að segja okkur frá aflandsstarfsemi? Reikningum erlendis? Þjónustu annarra lögfræðistofa en Mossack Fonseca?

Alþingismenn! Hafið þið fengið afskriftir í bankakerfinu eða fyrirtæki ykkur tengd? Þurfið þið ekki að upplýsa hvað og hverjum þið skuldið?

RÚV! Er ekki rétt að upplýsa um tugmilljóna starfslokasamninga í stað þess að skáka í skjóli lögfræðinnar?

Björk Guðmundsdóttir! Átt þú ennþá félög í skattaskjóli?

Ásmundur Einar Daðason! Þarft þú að upplýsa okkur um umfangsmikil jarðakaup á Vesturlandi?

Birgitta Jónsdóttir! Þarft þú að gera grein fyrir Saga Class-ferðunum og greiðslunni fyrir Wikileaks-myndina? Getur þú sýnt hvernig hún var talin fram hér á landi?

Dómarar! Er rétt að sumir ykkar hafi flutt stórar upphæðir úr landi rétt fyrir hrun?

Steingrímur J. Sigfússon! Þarft þú að segja okkur frá því hvernig þú réðst örlögum Geysir Green í samráði við Glitni? Og kannski örlögum fleiri fyrirtækja?

Við getum ekki klappað og gælt við hana siðrof á hverjum degi en bara veitt yngri systurinni athygli á hátíðisdögum. Ef hún siðbót verður ekki fædd og klædd veslast hún fljótlega upp. Sameinumst um að hugsa um hana siðbót, gerum öll hreint fyrir okkar dyrum, þvoum nærfötin og hengjum þau óhrædd út á snúru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ákærður – Sökuð um að stela úr lyfjaskápnum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ákærður – Sökuð um að stela úr lyfjaskápnum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Stakk lögregluna af en gómaður í kannabisskýi sama dag – „You guys are slow“

Stakk lögregluna af en gómaður í kannabisskýi sama dag – „You guys are slow“
Fréttir
Í gær

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“
Fréttir
Í gær

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti