Nærmynd af verðandi utanþingsráðherra – Alþjóðahagfræðingur sem stundar fimleika og lék í kóreskum sjónvarpsþætti
Höskuldur Þórhallsson tilkynnti fyrr í kvöld að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri í Seðlabankanum, tæki sæti í ríkisstjórninni og hefur nú verið upplýst að hún verði utanþingsráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Nafn Lilju Daggar er þó ekki öllum kunnugt og spyrja menn hver hinn verðandi utanþingsráðherra sé.
Lilja Dögg er fædd 4.október 1973 en hún er dóttir Alfreðs Þorsteinssonar stjórnmálamanns og Guðnýjar Kristjánsdóttur. Alfreð hefur alla tíð starfað innan Framsóknarflokksins og var aðalborgarfulltrúi Framsóknarflokksins frá 1971-78 og varafulltrúi frá 1986-94. Hann er einnig fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar.
Lilja lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og dvaldi í Suður-Kóreu um tíma á sínum yngri árum, en þangað fór hún rúmlega tvítug á vegum samtaka sem senda sjálfboðaliða til starfa í öðrum löndum. Þetta kom fram í umfjöllun DV árið 1994. Þar kom fram að Lilju langaði til að vinna á munaðarleysingjahæli eða við önnur svipuð störf. Þegar út kom reyndist starfið öðruvísi en hún hafði ætlað því það fólst einkum í skrifstofuvinnu og þýðingum. Hún ákvað því að söðla um og setjast á skólabekk. Þannig stundaði hún nám í austrænni stjórnmálasögu í Ewahwa háskólanum í Seoul auk þess að kenna börnum frumatriðin í ensku.
Fleira dreif á daga Lilju í Suður-Kóreu en þýðingar, nám og enskukennsla. Í sömu umfjöllun DV kom fram að Lilja hafi gerst svo fræg að leika í sjónvarpsþætti í kóreska ríkissjónvarpinu. Í viðtali við DV vildi hún lítið tala um þetta ævintýri. „Fyrst er þess að geta að árið í ár er tileinkað ferðalögum til Kóreu, „Visiting Korea 1994″. Þá er Seoul 600 ára gömul í ár og því vildu þeir gera sjónvarpsþátt um ferðalanga. Einhverjir bentu á mig og ég var beðin að koma í viðtal í ríkissjónvarpinu. Það gerði ég og niðurstaðan varð sú að ég lék í þessum þætti. Við áttum að leika túrista, fórum í Búddahof, borðuðum með prjónum og höfðum það bara skemmtilegt. Þátturinn var svo sýndur á góðum tíma og fólk virtist kannast við mig eftir þetta. Ég varð til dæmis vör við það þegar ég var á gangi um göturnar. En þetta er ekkert svakalega merkilegt“ sagði Lilja Dögg í viðtalinu sem bætti við að hennar helsta leikafrek fyrir utan þetta hafi verið í Fellaskóla fyrr á árum þegar hún lék í Eldfærunum.
Hún útskrifaðist með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og er með meistaragráðu í alþjóðahagfræði frá Columbia University en þangað fór hún sem Fullbright-styrkþegi. Hún starfaði hjá Seðlabanka Íslands frá árinu 2001 og sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra og alþjóðasamskipta frá árinu 2005. Einnig starfaði hún hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC frá 2010-2012.
Þann 1.september árið 2014 var Lilja ráðin tímabundið sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu, en hún starfaði þá sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabankanum.
Skipan Lilja Alfreðsdóttur í ráðherrastól þarf ekki að koma mikið á óvart sé litið til þess að hún var fyrr á kjörtímabilinu orðuð við ráðherraembætti. Það gerðist þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra síðla árs 2014. Ekki kom til þess en Lilja var orðuð við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, eins og DV greindi frá á sínum tíma.
Lilja er gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni sem starfar sem hagfræðingur í fjármálaráðuneytinu og eiga þau tvö börn. Fram kemur í Svipmynd Markaðarins að auk fjölskyldunnar hafi hún yndi af fimleikum, skokki og stangveiði auk bókalesturs.