fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Fréttir

Árið sem Ísland springur?

Rætist spár hefur ferðamönnum fjölgað um 330% á áratug – Erum við í stakk búin fyrir 1,7 milljónir? – Í okkar valdi að fara vel með fjöreggið sem ferðaþjónustan er

Ritstjórn DV
Föstudaginn 18. mars 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Spár gera ráð fyrir að hátt í 1,7 milljónir erlendra ferðamanna komi til Íslands á árinu og myndi það þýða sprengingu í fjölgun frá því í fyrra um nærri fimm hundruð þúsund manns. Á meðan margir sjá spennandi og arðvænleg tækifæri fyrir land og þjóð í þessari fjölgun þá hrís öðrum hugur við þessari tilhugsun og velta fyrir sér hvort land og þjóð séu hreinlega í stakk búin að taka við slíkum fjölda ferðamanna. Verður árið 2016, árið sem Ísland springur?

Þingmenn hafa lýst því yfir að það stefni í óefni í sumar þar sem ekki sé verið að sækja nauðsynlegt fjármagn með gjaldtöku af ferðamönnum til að sinna nauðsynlegri uppbyggingu, verndun náttúru Íslands og viðhalds ferðamannastaða. Ráðherra ferðamála hefur lýst því yfir að slík gjaldtaka sé ekki forgangsmál. Engu að síður er ljóst að verkefnin framundan eru ærin ef áfangastaðurinn Ísland á að lifa af þenslu undanfarinna ára. Ferðamálastjóri segir að það sé áskorun að takast á við aukna eftirspurn en að ósanngjarnt sé að tala niður fjöreggið sem staðið hafi fyrir þeim hagvexti sem Ísland hafi upplifað í kjölfar hruns. Ekki megi gleyma að ef ekki væri fyrir ferðaþjónustuna væri Ísland bæði fábreyttara og fátækara samfélag. Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, telur að við gætum tekið við 3–4 milljónum ferðamanna á ári, en til þess þurfi að hrinda aðgerðum í framkvæmd. DV skoðar ferðamannaárið 2016.

Spá metári 2016

Isavia birti á dögunum uppfærða farþegaspá sína fyrir árið sem gerir ráð fyrir algjöru metári og að erlendir ferðamenn verði rúmlega 1,7 milljónir í ár. Íslandsbanki spáir um 30 prósenta fjölgun sem myndi þýða um 1,6 milljónir ferðamanna. Á hvora spána sem litið er þá er ljóst að það stefnir í verulega fjölgun frá því í fyrra þegar hingað komu ríflega 1,2 milljónir ferðamanna. Hóteluppbygging til að mæta eftirspurn hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni. Ef ekki er verið að byggja ný hótel þá er verið að byggja við þau og stækka. Fjölgun hótelherbergja hefur aldrei verið meiri en í fyrra þegar við bættust 872 ný herbergi og hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 26,3 prósent á árinu 2015. Forsvarsmenn í hótelbransanum hafa orðið varir við mikla fjölgun það sem af er ári og tala margir um að það sé júní- og júlísala nú þegar í febrúar og mars.

Umdeilt frumvarp ráðherra ferðamála um náttúrupassa náði ekki fram að ganga og nú virðist sem gjaldtaka af ferðamönnum sé ekki forgangsmál.
Ragnheiður Elín Árnadóttir Umdeilt frumvarp ráðherra ferðamála um náttúrupassa náði ekki fram að ganga og nú virðist sem gjaldtaka af ferðamönnum sé ekki forgangsmál.

Mynd: DV ehf / Þormar Vignir Gunnarsson

Gullgrafaraæðið

Samhliða þessari miklu sprengingu í fjölda ferðamanna til landsins á undanförnum misserum hefur fólki orðið tíðrætt um að gullgrafaraæði hafi gripið um sig í ferðaþjónustunni. Meðal annarra komst ríkisskattstjóri svo að orði í ágúst 2013. Hótel, gistiheimili og mikill fjöldi fyrirtækja sem sérhæfa sig í sölu eða skipulagningu ferða innanlands hafa sprottið upp eins og gorkúlur um allt land.

DV lék því forvitni á að vita hversu mörg fyrirtæki eru nú með ferðaskrifstofuleyfi og ferðaskipuleggjandaleyfi, sem veita heimild til að þjónusta ferðamenn innanlands. Í sambærilegri athugun DV í febrúar 2013 voru þau 718 og voru þá ríflega þrefalt fleiri en árið 2008, þegar þau voru alls 214. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu eru nú virk alls 1.137 ferðaskrifstofu- og ferðaskipuleggjandaleyfi hér á landi. 277 ferðaskrifstofuleyfi og 860 ferðaskipuleggjandaleyfi.

Fyrirtækjum með þessi leyfi hefur því fjölgað um 419 frá sama tíma 2013, eða um 58 prósent, og um 923 frá árinu 2008, eða 431 prósent.

Ekki setið með hendur í skauti

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir fátt benda til að það dragi úr vexti innan ferðaþjónustunnar á næstunni. Mikil áskorun sé fólgin í því að takast á við þá miklu eftirspurn sem sé um þessar mundir eftir því sem Ísland hefur upp á að bjóða.

„1–3 milljarðar eru ekki margir malbikaðir kílómetrar inn í vegakerfið.“

„Það er auðvitað gott að eftirspurnin sé svona mikil. En allar atvinnugreinar sem væru að upplifa þennan 30 prósenta vöxt eftirspurnar myndu upplifa áskoranir á framboðshliðinni. Það eru mörg verkefni sem bíða en það má ekki gleyma því að það er margt sem hefur verið gert á undanförnum árum, bæði á vegum ýmissa opinberra aðila og ekki síður innan atvinnugreinarinnar sjálfrar. Vöxturinn frá 2010 er orðinn staðreynd og þó svo það hafi kannski komið á óvart hversu mikill og ör hann hefur verið þá er ekki réttlátt að segja að fólk hafi setið með hendur í skauti og ekkert gert,“ segir Ólöf um það hvernig við erum í stakk búin til að takast á við þá miklu fjölgun sem birtist í spám Isavia og Íslandsbanka. Hún segir að eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegt að horfa líka til uppbyggingar og þróunar atvinnugreinarinnar á sama tíma og hún var markaðssett með samstarfi hins opinbera og einkageirans í átakinu í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli.

Í hvað yrði peningunum varið?

Um umræðu um hugsanlegar gjaldtökuleiðir til uppbyggingar og fjármögnunar bendir Ólöf á að þar sé um að ræða pólitíska ákvörðun og að Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, hafi nýverið lýst því yfir að það sé ekki forgangsmál á hennar borði. Ólöf bendir á að almannagæði, almannaþjónusta og hagsmunir ferðaþjónustunnar séu á margan hátt samtvinnuð og leggur áherslu á að skilgreint verði hvað það er sem við teljum réttlátt að fjármagna með sértækri gjaldtöku á annaðhvort ferðamenn eða atvinnugreinina og þá hvað við teljum réttlátt að greitt sé fyrir úr sjóðum almennings.

Ólöf Ýrr Atladóttir segir að Ísland væri fábreyttara og fátækara samfélag ef ekki hefði verið fyrir vöxt ferðaþjónustunnar á umliðnum árum.
Ferðamálastjóri Ólöf Ýrr Atladóttir segir að Ísland væri fábreyttara og fátækara samfélag ef ekki hefði verið fyrir vöxt ferðaþjónustunnar á umliðnum árum.

Mynd: Aðsend

„Ég tel að þegar við verðum búin að skilgreina það muni jafnvel skýrast hvaða leiðir sé best að fara og þá að sama skapi um hvaða upphæðir við erum að tala.“

Eins og fram hefur komið í DV var áætlað að náttúrupassinn umdeildi, sem nú hefur verið sleginn út af borðinu, myndi skila um 3–5 milljörðum króna á þriggja ára tímabili og því ljóst að þjóðarbúið væri að verða af milljónum á degi hverjum sem liði án þess að önnur eða betri leið væri fundin – ef gjaldtökuleiðin er á annað borð það sem stefnt er að.

„Á að leggja þessi gjöld á ferðamenn, eða fyrirtækin? Þetta er eitt af því sem við þurfum að skilgreina. Hvað við teljum rétt að þessi atvinnugrein greiði sérstök gjöld fyrir, ýmist í gegnum sína viðskiptavini eða fyrirtæki. Það hefur verið talað um að sértæk gjaldtaka muni skila 1–3 milljörðum á ári. Til samanburðar má benda á að bara heildarskattspor Icelandair í fyrra nam 24 milljörðum króna. Því þurfum við að hugsa, ef við erum ekki að tala um „nema“ 1–3 milljarða – í hvað ætlum við að verja þeim peningum? 1–3 milljarðar eru t.d. ekki margir malbikaðir kílómetrar inn í vegakerfið.“

Þolmörk ekki tiltekin tala

Aðspurð um þolmörk lands og þjóðar miðað við núverandi ástand til að taka móti sífellt meiri fjölda ferðamanna segir Ólöf að þolmarkahugtakið sé stundum svolítið misskilið. Þolmörk séu ekki einhver ákveðin tala heldur þurfi að horfa til fjögurra þátta.

Í fyrsta lagi ferðamannanna sjálfra, hverjar þeirra væntingar eru og hvernig þær eru mismunandi eftir markhópum. Í öðru lagi þjónustan, hversu hátt þjónustustigið á að vera og hversu mörgum það gagnast. Í þriðja lagi náttúruna og hvernig byggt verði upp í kringum það sem ferðamenn sækist eftir þar og hún varin óbætanlegum skaða vegna ágangs. Og loks viðhorfi heimamanna gagnvart ferðamönnum og hvernig sambúð atvinnugreinarinnar og heimamanna verði best háttað. Mikilvægt sé að unnið sé skipulega og faglega með langtímahagsmuni íslensks samfélags í huga þegar kemur að uppbyggingu og þróun innan ferðaþjónustunnar. Á sumum sviðum almannaþjónustunnar þarf jafnframt að huga að ákveðnum kerfisbreytingum í t.d. áætlanagerð og vinnufyrirkomulagi með forsendur ferðaþjónustunnar og áhrif hennar í huga.

„Það má ekki gleyma að þrátt fyrir að núna sé hótelnýting í Reykjavík á ársgrunni ótrúlega góð, þá eru hótel á landsbyggðinni enn vannýtt yfir veturinn. Það eru tækifæri mjög víða. Þegar fólk spyr þessarar spurningar; hvað þolum við mikið? Er þetta ekki komið of mikið? Þá er ekki hægt að svara já eða nei, heldur fer það eftir því hvernig við vinnum úr þessu fjöreggi sem ferðaþjónustan er.“

„Ég held að við getum hæglega farið upp í 3–4 milljónir ferðamanna.“

Fjöreggið ferðaþjónustan

Einn mikilvægur þáttur í að byggja upp og rækta áfangastaðinn Ísland er að ná jafnvægi milli vaxtar og uppbyggingar og þróunar. Ólöf segir að þó mörg verkefni liggi fyrir í þessum efnum, þá sé vel hægt að ná þessu jafnvægi. Dómadagsspár um ástandið segir Ólöf að birti ákveðnar áhyggjur sem menn hafi og mikilvægt sé að hlusta á þær áhyggjur. En hún bendir á að það sé t.d. töluleg staðreynd að banaslysum ferðamanna hafi á undanförnum árum fækkað, hvort sem horft sé til ákveðinna tímabila í rauntölum eða sem hlutfalls af fjölda ferðamanna. Þá er það svo að frá 2010 hafi verið 37,6 prósent fjölgun starfa í ferðaþjónustutengdum greinum en 6 prósent fjölgun á vinnumarkaði í heild.

„Ferðaþjónustan hefur staðið fyrir þeim hagvexti sem við höfum upplifað í kjölfar hruns og margvísleg þjónusta hefur byggst upp um allt land fyrir tilstilli hennar. Það er á ábyrgð okkar allra að hún þróist áfram með sjálfbærum hætti. Í því felast mýmörg verkefni og sum þeirra erfið en við þurfum að takast á við þau. En mér finnst ekki rétt, eins og manni virðist stundum, að það sé talað um ferðaþjónustuna eins og hún sé orðin baggi á landi og þjóð. Í amstri dagsins má fólk ekki gleyma því að ef ekki væri fyrir ferðaþjónustuna væri Ísland bæði fábreyttara og fátækara samfélag.“

Það er vissulega ljóst að það er verk að vinna. Gagnrýni og áhyggjur af að í óefni stefni eru þó að einhverju leyti til komnar vegna þess að fólk er að átta sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar sem Ólöf talar um.


Getum hæglega tekið við 3–4 milljónum

Brýnt að stækka flugvöllinn og tvöfalda hringveginn
Skúli Mogensen segir tvö verkefni aðkallandi til að taka við auknum fjölda ferðamanna.

Skúli Mogensen segir tvö verkefni aðkallandi til að taka við auknum fjölda ferðamanna.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir stækkun Keflavíkurflugvallar og tvöföldun hringvegarins þau tvö mál sem helst séu aðkallandi til að bregðast við auknum fjölda ferðamanna.

„Keflavíkurflugvöllur er að verða, ef hann er ekki þegar orðinn, helsti flöskuhálsinn í áframhaldandi rekstri ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Skúli og bætir við að allt tal um annan flugvöll við hliðina á Keflavíkurflugvelli sé galið bull. Fyrir liggi góð heildaráætlun að stækkun og betrumbótum, sem nú þurfi að framkvæma.

„Í öðru lagi ættum við að tvöfalda hringveginn sem allra fyrst. Það yrði gríðarleg búbót fyrir alla landsbyggðina og hagkvæmasta leiðin til að dreifa ferðamönnum um landið. Það er beinlínis að verða stórhættulegt að ferðast hér um á stórum rútum og bílum með hjólhýsi og öðru. Vegakerfið er sprungið. En hvað gerir hið opinbera? Það sker niður útgjöld til vegaframkvæmda í fjárlögum þessa árs. Þar er eitthvað stórkostlega mikið að.“

Skúli vill að þessi brýnu verkefni verði fjármögnuð með tímabundinni og afmarkaðri gjaldtöku, sem þekkist víða.

„Þá er bara gjald á flugvöllum, gagngert til að byggja upp flugvöllinn og síðan vegagjald, eða vegatollar, gagngert með einhvern markvissan tilgang. Ég er mótfallinn því að búa til enn eitt ríkisbatteríið, enn einn sjóðinn, enn eina nefndina, sem á að úthluta bitlingum hingað og þangað í óskilgreindan tíma og óskilgreind verkefni.“

Aðspurður um þolmörk landsins segist Skúli alls ekki vera þeirrar skoðunar að hér eigi bara að troða eins mörgum inn í landið og mögulegt er. Þó séu enn tækifæri fyrir mikinn vöxt, ef haldið sé rétt á spilunum.

„Ég held að við getum hæglega farið upp í 3–4 milljónir ferðamanna, þ.e.a.s. tvö- til þrefaldað núverandi stærð, og unnið út frá því hvernig og hvað þarf þá að gera til að þetta geti orðið að veruleika.“

En myndi vörumerkið og áfangastaðurinn Ísland og hin íslenska upplifun ekki líða fyrir og týnast í slíkum fjölda?

„Þetta kallar á miklu meiri uppbyggingu og dreifðara álag. Megnið af Íslandi er enn ósnortið. Þannig að ef við setjum okkur skýr markmið og vinnum í sameiningu varðandi hvaða nýju staði við viljum byggja upp, hvar þeir eiga að vera staðsettir og dreifum traffíkinni markvisst í kringum það þá held ég að þolmörkum okkar sé ekki náð. En ef þú ætlar að troða öllum inn í 101 Reykjavík og á Gullfoss og Geysi, þá er þetta löngu sprungið.“


Ef spár ganga eftir um 1,7 milljónir ferðamanna í ár hefur fjöldi þeirra aukist um 333 prósent á áratug, frá árinu 2006.
Sprenging Ef spár ganga eftir um 1,7 milljónir ferðamanna í ár hefur fjöldi þeirra aukist um 333 prósent á áratug, frá árinu 2006.

Mynd: AMG

Ferðamenn um Keflavíkurflugvöll

2006: 398.901
2007: 458.999
2008: 472.672
2009: 464.536
2010: 459.252
2011: 540.824
2012: 646.921
2013: 781.016
2014: 969.181
2015: 1.261.938
2016: 1.730.967 (Spá Isavia)

Heimild: Ferðamálastofa. Áætlað að þessar tölur nái til um 97% erlendra ferðamanna sem koma til landsins, þ.e. um 3% komi um aðra flugvelli, með Norrænu eða öðrum skipum.


Þaðan komu þeir

Bandaríkin: 242.805
Bretland: 241.024
Þýskaland: 103.384
Frakkland: 65.822
Noregur: 51.402

Heimild: Ferðamálastofa. Tölur fyrir árið 2015. Talningar Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríksson ná til allra brottfara, meðal annars erlendra ríkisborgara með fasta búsetu á Íslandi.


Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Lýðræðisflokkurinn hunsaður í kappræðum Heimildarinnar og kosningastjórinn ósáttur – „Fordæmi ég svona vinnubrögð“

Lýðræðisflokkurinn hunsaður í kappræðum Heimildarinnar og kosningastjórinn ósáttur – „Fordæmi ég svona vinnubrögð“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum
Umpólun Snorra?
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Starri skipti um pólitískan kúrs eftir sjálfsvíg systur sinnar

Starri skipti um pólitískan kúrs eftir sjálfsvíg systur sinnar
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Er það líklegt til árangurs fyrir stjórnmálaflokkana að hringja í fólk?

Er það líklegt til árangurs fyrir stjórnmálaflokkana að hringja í fólk?
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Segir lögregluna hafa ginnt áttræðan föður sinn – Kominn á sakaskrá og fær ekki safngripinn sinn til baka

Segir lögregluna hafa ginnt áttræðan föður sinn – Kominn á sakaskrá og fær ekki safngripinn sinn til baka
Fréttir
Í gær

Hannes Hólmsteinn um Sjálfstæðisflokkinn: „Háir þeim hversu miklir meinleysingjar þeir eru“

Hannes Hólmsteinn um Sjálfstæðisflokkinn: „Háir þeim hversu miklir meinleysingjar þeir eru“
Fréttir
Í gær

Telur minnst fjóra hafa verið á vettvangi er Geirfinni var ráðinn bani og miklu fleiri viti sannleikann í málinu

Telur minnst fjóra hafa verið á vettvangi er Geirfinni var ráðinn bani og miklu fleiri viti sannleikann í málinu
Fréttir
Í gær

Dalvíkingur lúskraði á lögreglumönnum

Dalvíkingur lúskraði á lögreglumönnum
Fréttir
Í gær

Össur segist hafa efasemdir um meðalgreindina í Valhöll eftir fjaðrafokið í stóra-brandaramálinu – „Herra trúr!“

Össur segist hafa efasemdir um meðalgreindina í Valhöll eftir fjaðrafokið í stóra-brandaramálinu – „Herra trúr!“
Fréttir
Í gær

Félag fasteignasala afhjúpaði fasteignasala sem er ákærður fyrir fjárdrátt – „Slík mál eru sem betur fer mjög sjaldgæf“

Félag fasteignasala afhjúpaði fasteignasala sem er ákærður fyrir fjárdrátt – „Slík mál eru sem betur fer mjög sjaldgæf“