Barnasaga Andra Snæs verður fyrsta frumsýning nýs leikárs
Borgarleikhúsið leitar nú að 22 börnum, sem geta sungið, dansað og leikið, til að fara með hlutverk í fyrstu uppfærslu næsta leikárs sem verður Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Það er Bergur Þór Ingólfsson sem mun leikstýra sýningunni. Æfingar munu hefjast í maí en og frumsýning er í september.
Verkið hefur áður verið sett upp hérlendis, í Þjóðleikhúsinu árið 2001 en fram kemur í tilkynningu frá Borgarleikhúsinu að leikstjórinn Bergur Þór sjái jafnframt um að gera nýja leikgerð af verkinu og þá mun Kristjana Stefánsdóttir semja tónlistina. Áætluð frumsýning er þann 17.september. Allir krakkar á aldrinum 8 – 14 ára geta tekið þátt en prufurnar fara fram dagana 7. til 15. apríl 2016. Skráning fer fram í Borgarleikhúsinu miðvikudaginn 6. apríl klukkan 16.
Sagan af Bláa hnettinum eftir Andra Snæ hefur komið út á 12 tungumálum og hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1999, Janusz Korczak honorary award 2000 og Vestnorrænu Barnabókaverðlaunin 2001. Segir þar frá bláum hnetti lengst úti í geimnum þar sem búa ótal börn sem fullorðnast ekki. Þetta eru eiginlega villibörn því enginn skipar þeim fyrir verkum. Börnin sofna þar sem þau verða þreytt og borða þegar þau eru svöng en leika sér þar sem þeim dettur í hug.
Eitt kvöldið þegar Brimir og Hulda eru stödd í Svörtufjöru birtist stjarna á himni sem stefnir beint á þau. Stjarnan lendir í fjörunni með mikilli sprengingu en í reyknum mótar fyrir skuggalegri veru sem starir út í myrkrið. Þá hefst hættulegt ævintýri sem leiðir börnin um myrka skóga, djúpa dali og loftin blá. Reynir þá sem aldrei fyrr á vináttu og ráðsnilld barnanna á bláa hnettinum.