fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Íslandsmeistarinn sat heima út af 10 sentimetrum

Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið stendur yfir í Hörpu – Stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson ósáttur við stærð borðanna

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 11. mars 2016 10:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tíu sentimetrar gerðu að verkum að Íslandsmeistarinn í skák, Héðinn Steingrímsson, ákvað að mæta ekki til leiks á Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið, sem nú stendur yfir. Í nokkurn tíma hafa deilur staðið yfir milli hans og Skáksambands Íslands vegna stærðar þeirra borða sem notuð eru í mótinu. Að mati Héðins er ekki farið eftir reglum Alþjóða skáksambandsins um aðbúnað og munar þar 10 sentimetrum. „Öll þessi ár hefur engin kvartað yfir stærð borðanna nema Héðinn Steingrímsson,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Ísland.

Þriðja besta opna skákmót heims

Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið, hið 31. í röðinni, stendur nú yfir í glæsilegum salarkynnum í Hörpu. Orðstír mótsins er góður og sem dæmi var mótið kosið þriðja besta opna skákmót heimsins af ACP, samtökum atvinnumanna í skák. Með „opnu“ móti er átt við að allir geti skráð sig til leiks í mótið að því gefnu að viðkomandi kunni mannganginn. Þúsund slíkra móti eru haldin um allan heim á hverju ári og því er vegsemdin sem í útnefningunni felst mikil. Um er að ræða eina innlenda mót ársins þar sem erlendir skákmeistarar flykkjast til landsins og því stingur það óneitanlega í augun að ríkjandi Íslandsmeistari, stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson, sé ekki meðal þátttakenda.

Slæmur í hálsinum

Stórmeistarinn öflugi varð Íslandsmeistari í fyrra. Hann hefur fengið sig fullsaddan af borðunum sem boðið er upp á í Reykjavíkurmótinu sem fram fer í Hörpu.
Héðinn Steingrímsson Stórmeistarinn öflugi varð Íslandsmeistari í fyrra. Hann hefur fengið sig fullsaddan af borðunum sem boðið er upp á í Reykjavíkurmótinu sem fram fer í Hörpu.

„Héðinn vill að það sé farið eftir reglum FIDE. Hann lenti í bílslysi fyrir nokkrum árum og meiddist á hálsi. Það gerir að verkum að hann á erfitt með að tefla í margar klukkustundir við borð sem eru of breið,“ segir Fríða Ásbjörnsdóttir, móðir Héðins, í samtali við DV. Hún benti á að Héðinn hefði fengið sérstakt borð árið áður en ekki hafi orðið við því í ár. Ekki náðist í Héðinn sjálfan í vinnslu fréttarinnar en hann er staddur erlendis.

Í handbók frá FIDE, Alþjóða skáksambandinu, þar sem farið er yfir ákjósanlegan aðbúnað á skákmótum þá er tekið fram að borðin sem notuð séu eigi að vera 85 sentimetrar á breidd og 110 sentímetrar á lengd. Á breiddina má skeika 5 sentímetrum og á lengdina má skeika 20 sentimetrum. Borðin sem Harpa býður upp á eru hins vegar 100 sentimetrar á breidd og 120 sentimetrar á lengd. Þarna skeikar því um 10 sentimetrum á breiddina, sentimetrum sem skipta Héðin máli.

Fá hrós fyrir gott pláss

„Það er mikilvægt að hafa í huga að leiðbeiningarnar sem koma fram í handbók FIDE eru tilmæli en ekki reglur. Mótið hefur verið haldið í Hörpu undanfarin fimm ár og því hafa þúsundir skákmanna teflt á þessum borðum, þar á meðal margir af sterkustu og reyndustu atvinnumönnum heims. Öll þessi ár hefur engin kvartað yfir stærð borðanna nema Héðinn Steingrímsson. Við fáum þvert í móti margar athugasemdir þar sem keppendur eru að hrósa okkur fyrir gott pláss,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Ísland sem stendur fyrir mótinu.

Hann segir að ekki hafi komið til greina að Héðinn fengi sérstakt borð. „Það er skýrt kveðið á um það í lögum FIDE að aðstæður allra keppenda í mótinu eigi að vera þær sömu. Í fyrra fengum við athugasemdir við þá staðreynd að Héðinn fékk aðra tegund af borði og því var ákveðið að verða ekki við því í ár,“ segir Gunnar. Hann harmar að Héðinn hafi ekki tekið þátt í mótinu. „Hingað eru að koma atvinnumenn sem eru í hópi sterkustu skákmanna heims. Að sjálfsögðu vilja íslenskir skákáhugamenn, og ég þar á meðal, sjá okkar sterkustu skákmenn etja kappi við þessa menn. Það er leitt að Héðinn hafi ekki getað sætt sig við þetta,“ segir Gunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Læknar samþykkja kjarasamning

Læknar samþykkja kjarasamning
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Alvotech ætlar að byggja þrjár leikskóla í Reykjavík fyrir starfsfólk sitt – „Við vildum finna lausnir“

Alvotech ætlar að byggja þrjár leikskóla í Reykjavík fyrir starfsfólk sitt – „Við vildum finna lausnir“
Fréttir
Í gær

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar
Fréttir
Í gær

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“
Fréttir
Í gær

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“