Guðbjörn segir að aðbúnaður nautgripa og sauðfjár njóti meiri samúðar en sjúklingar landsins
„Sjálfur bíð ég nú aðgerðar vegna illkynja krabbameins, en aðgerð mín tefst um nokkra mánuði vegna mikils álags á lækna og hjúkrunarfólk Landspítalans,“ segir Guðbjörn Guðbjörnsson, söngkennari og yfirtollvörður hjá embætti Tollstjóra.
Guðbjörn skrifar um stöðuna í heilbrigðiskerfinu hér á landi í bloggi sínu á Eyjunni. Hann bendir á að Landspítalinn sé fullur af sjúklingum sem liggja víða úti á göngum því ekki sé fyrir plássinu að fara á sjúkrastofum spítalans.
„Sjúklingar eru beðnir að koma ekki á sjúkrahúsið nema að þeir séu dauðvona. Vegna skorts á viðhaldi liggur stór hluti sjúkrahúsa landsins annaðhvort undir skemmdum vegna leka eða eru nú þegar orðnar myglusvepp að bráð. Læknar og annað starfsfólk hefur verið frá starfi mánuðum saman vegna heilsubrests. Við Íslendingar virðumst hvorki hafa efni á viðhaldi sjúkrahúsa, byggingu nýs sjúkrahúss eða endurnýjunar á tækjabúnaði Landspítalans,“ segir Guðbjörn sem segir að aðbúnaður nautgripa og sauðfjár njóti meiri samúðar og athygli hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum en sjúklingar landsins.
„Í 1. gr. Samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar sl. milli ríkisstjórnar Íslands, undirrituðum af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra annars vegar og Sigurði Inga Jóhannssyni landbúnaðarráðherra hins vegar og af forystu Bændasamtakanna og Landssambands kúbænda, stendur eftirfarandi texti: „Að greinin geti endurnýjað framleiðsluaðstöðu í samræmi við auknar kröfur um aðbúnað og velferð gripa.“
Það er engum blöðum um það að fletta að aðbúnaður nautgripa og sauðfjár nýtur meiri samúðar og athygli hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum en sjúklingar þessa lands og eldri borgarar,“ segir Guðbjörn sem eins og fyrr segir bíður aðgerðar vegna illkynja krabbameins. Vegna álags þurfi hann að bíða eftir aðgerð í nokkra mánuði auk þess sem aðeins einn aðgerðaþjarkur sé til á Landspítalanum sem er í notkun nótt sem nýta dag.
„Ég hugga mig þó við að aðbúnaður kúa í íslenskum fjósum er að lagast, þótt krabbameinið hjá sjálfum mér gæti breiðst út á meðan ég bíð aðgerðar minnar. Myndast hefur gjá milli þings og þjóðar. Ég spyr ykkur kæru lesendur, er ekki kominn tími á nýja búsáhaldabyltingu og að forseti landsins rjúfi þing og boði til kosninga til Alþingis,“ spyr Guðbjörn í pistli sínum.