Fjórmenningarnir voru sýknaðir vegna meintra brota á gjaldeyrisviðskiptum í hérðasdómi í árslok 2014 – Sex ár frá einstæðum blaðamannfundi
Ríkissaksóknari hefur fallið frá áfrýjun til Hæstaréttar í hinu svokallaða Aserta-máli en héraðsdómur Reykjaness hafði í desember árið 2014 sýknað fjóra menn sem voru ákærðir fyrir brot á lögum um gjaldeyrisviðskipti.
Samkvæmt heimildum DV þá tilkynnti Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari þetta í bréfi sem hún sendi á lögmenn fjórmenninganna fyrr í dag. Var sú ákvörðun ekki rökstudd nánar í bréfinu en í janúar árið 2015 var greint frá því að ríkissaksóknari hyggðist áfrýja málinu til Hæstaréttar. Ekkert verður hins vegar úr því og er málinu núna – sex árum eftir að sakborningarnir voru kærðir og eignir þeirra frystar – endanlega lokið.
Aserta-málið vakti mikla athygli á sínum tíma og boðað var til sérstaks blaðamannafundar í höfuðstöðvum Ríkislögreglustjóra í janúar 2010 þar sem málið var kynnt og meintar sakargiftir raktar. Voru meint ólögleg viðskipti þeirra sögð hafa numið 13 milljörðum króna, en sú fjárhæð jafngilti um 13% af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði yfir átta mánaða tímabil.
Þegar fjórmenningarnir – þeir Karl Löve Jóhannesson, Gísli Reynisson, Markús Máni Michaelsson og Ólafur Sigmundsson – voru upphaflega ákærðir af sérstökum saksóknara í mars árið 2013 var ákært fyrir stórfelld brot á gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands en síðar var fallið frá miklum hluta málatilbúnaðarins. Eftir stóð þá ákæra vegna meintra brota á 8. grein laga um gjaldeyrismál þar sem segir að leyfi Seðlabankans þurfi til að eiga milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi.
Í niðurstöðu héraðsdóms í lok árs 2014 voru fjórmenningarnir hins vegar sýknaðir af þeirri ákæru þar sem gjaldeyrisviðskipti sænska félagsins Aserta voru ekki sögð hafa átt sér stað á Íslandi. Dómur héraðsdóms mun því standa núna þegar ljóst er að ríkissaksóknari hyggst ekki áfrýja málinu til Hæstaréttar.