Lýsir áfallinu sem fylgdi hvarfi föður síns – „Ég var bara útúrdópaður krakki“
„Þeir sögðu að þeim þætti leiðinlegt að tilkynna mér að pabbi minn hefði horfið sporlaust og að það væri út af einhverjum fíkniefnum. Fyrir sjö ára krakka voru þetta óskiljanlegar upplýsingar. Mig langaði bara að vita hvað fíkniefni væru. Svo beið ég eftir því að pabbi kæmi aftur.“
Þetta segir Óðinn Valgeirsson, sonur Valgeirs Víðissonar sem hvarf sporlaust sumarið 1994, í áhrifamiklu viðtali við Fréttatímann. Hvarf Valgeirs er eitt dularfyllsta sakamál Íslandssögunnar, en enn í dag er ekkert vitað hvað varð um Valgeir, en talið er að hvar hans tengist fíkniefnaskuldum sem hann hafði stofnað til.
Óðinn er í dag 75 prósent öryrki, hann hefur nokkrum sinnum reynt að svipta sig lífi og margoft komist í kast við lögin. Hann situr nú á Litla-Hrauni í sjötta skipti, að því er hann telur, nú fyrir frelsissviptingu og innbrot. Í dag snýst líf hans um að verða sér út um lyfin sem hann er háður.
Í viðtalinu lýsir Óðinn meðal annars deginum sem faðir hans hvarf, eftirmál þess og langa og harða glímu við kerfið. Hann rekur upphafið ógöngum sínum til hvarfs föðurs síns, sem hann minnist með söknuði. Hann hafi verið flottur karl og helgarnar með honum voru algjört ævintýri.
„Ég elskaði hann svo mikið og mér þótti mjög vænt um þessar stundir. Samt var eins og ég hafi skynjað að tími okkar væri naumur.“
Það var svo í júní, sumarið áður en Óðinn átti að byrja í skóla, sem lögreglumaður og prestur tilkynna honum að faðir hans væri horfinn. Óðinn segist ekkert hafa vitað um fortíð föður síns fyrr en hann sá fjallað um hana á forsíðum blaðanna.
„Það fór allt úr skorðum. Við urðum fjölmiðlamatur í margar vikur og málið var stanslaust til umfjöllunar. Það voru allir að tala um þetta en enginn gerði neitt.“
Það kom hins vegar aldrei til þess að Óðinn fór í skóla. Þess í stað var hann vistaður á barna- og unglingageðdeild á Dalbraut þar sem hann varði næstu árum. Segir hann að þar hafi verið dælt í sig lyfjum, róandi og rítalín til skiptis. „Ég var bara útúrdópaður krakki.“
Segist hann hafa neitað að trúa því að faðir hans hafi verið látinn og læknarnir greint hann veruleikafirrtan. Hann fékk enga kennslu á geðdeildinni og segir hann að það helsta sem hann lærði hafi verið að nota lyf.
„Fljótlega kviknaði mikill áhugi hjá mér á dópinu sem pabbi minn hafði notað, en ég gerði mér enga grein fyrir að það var verið að stafla þessu drasli í mig. Venjulegur krakki hefði ábyggilega ákveðið að koma aldrei nálægt fíkniefnum, en ekki ég. Ég vildi vita meira. Ég vildi vita hvað pabbi minn hafði verið að gera. Ég var rosalega óþekkur krakki. Þarna inni fengum fræðsluefni um áhrif fíkniefna og ég lærði allt um kókaín, heróín og kannabisefni. Það var eiginlega það mikilvægasta sem ég lærði þarna inni.“
10 ára gamall hafi hann komist upp á lagið með kannabisreykingar og þremur árum síðar var hann kominn í dagneyslu á áfengispillu. Efnin urðu harðari og frá 16 ára aldri hafi hann neytt morfíns daglega. Systir Óðins segir í viðtalinu að hann hafi alltaf verið að leita að morðingja pabba síns og tekur Óðinn undir það.
„Mér fannst ég sjá pabba alls staðar og vildi ekki trúa því að hann væri horfinn. Ég saknaði hans svo innilega og ég fékk ekki einu sinni að kveðja hann. Ég fór ekki í neina jarðarför. Mamma skildi mig vel, tók utan um mig og sagðist líka sjá hann alls staðar.“