Tölvuleikjafyrirtækið Cloud Imperium hefur slegið heimsmet í hópfjármögnun og hefur alls safnað 108 milljónum dollara, eða tæplega 14 milljörðum íslenskra króna, til þess að þróa áfram tölvuleikinn Star Citizen.
Til stendur að leikurinn komi á markað á næstu árum, en um gríðarlega umfangsmikinn geimleik er að ræða og mun innihalda yfir hundrað stjörnukerfi. Þá geta notendur bæði stýrt geimskipum, kannað geimstöðvar auk þess sem þeir geta unnið með öðrum notendum í leiknum.
BBC segir frá fyrirtækinu sem var stofnað af Chris Roberts. Sá er ansi vinsæll á meðal tölvuleikjaaðdáenda fyrir leikina combat Wing Commander sem voru frægir á tíunda áratugnum.
Þróun á Star Citizen á sér stað í þremur löndum, Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi en alls starfa um 300 manns hjá fyrirtækinu.
Fyrirtæki Roberts er að þróa annan leik sem er þó tengdur Star Citizen, en sá leikur mun heita Squadron 42 og mun koma út í lok þessa árs. Sá leikur verður skátengdur stóra leiknum, en þó einfaldari að öllu leyti.
Leikurinn mun þó verða ansi veglegur, enda munu stórleikararnir Gary Oldman og Gillian Anderson fara með hlutverk í Squadron 42.
Við má bæta að leikirnir eru hannaðir fyrir PC tölvur. Hægt er að sjá stiklu úr Star Citizen hér fyrir neðan.