Hálka og skafrenningur á Suðurlandi – Snjóþekja á Vesturlandi – Þæfingsfærð fyrir norðan – Éljagangur á Austurlandi
Varasamar aðstæður virðast vera á þjóðvegum landsins nú í morgunsárið en þó er færðin nokkuð mismunandi eftir landshlutum. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni má þó búast við hálku í öllum landshlutum.
Nú um tíu leytið er hálka og skafrenningur á Sandskeiði og Hellisheiði. Vegagerðin segir að hálka sé auk þess á flestum öðrum vegum á Suðurlandi.
Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á vegum og skafrenningur á flestum fjallvegum. Þæfingsfærð er á Klettshálsi og einnig á kafla á Innstrandavegi. Á vegi 60 eru umferð vísað um vetrarveg við Bæjardalsá og Geiradalsá.
Það er hálka eða snjóþekja á vegum á Norðurlandi en þó er þæfingsfærð á Hófaskarði. Vegur að Dettifossi er ófær samkvæmt Vegagerðinni.
Hálka er á vegum á Austurlandi og éljagangur á stöku stað. Hálka er einnig með suðausturströndinni.