30 ár frá Challenger-slysinu – Bob Ebeling reyndi að stöðva geimskotið
Á fimmtudag voru liðin 30 ár frá því geimferjan Challenger sprakk í loft upp, 73 sekúndum eftir að henni var skotið á loft. Sjö geimfarar voru um borð í ferjunni og létust þeir allir, fimm karlar og tvær konur. Bob Ebeling, einn þeirra verkfræðinga sem áttu að sjá til þess að allt gengi áfallalaust fyrir sig, er enn þjakaður af sektarkennd.
Bob ræddi málið við NRP-útvarpsstöðina í vikunni, en kvöldið áður en ferjunni var skotið á loft höfðu Bob og fjórir aðrir verkfræðingar reynt að stöðva geimskotið, en talað fyrir daufum eyrum yfirmanna sinna. Þetta kvöld sagði hann við eiginkonu sína, Darlene: „Hún mun springa í loft upp,“ og átti þá við Challenger-geimferjuna.
Dómsdagsspá Bobs reyndist á rökum reist því í fjórtán kílómetra hæð frá jörðu dundu ósköpin yfir. Geimferjan var á rúmlega tvö þúsund kílómetra hraða þegar hún splundraðist með þeim afleiðingum að geimfararnir sjö fórust. Í umfjöllun um slysið á Vísindavefnum sem Sævar Helgi Bragason er annar höfunda af, kemur fram að geimferjan sjálf hafi ekki sprungið heldur hafi hún splundrast af völdum eldflauganna sem knúðu hana áfram. Slysið hafi mátt rekja til galla í svonefndum O-hringjum sem eru úr gúmmíi og hafa því hlutverki að gegna að halda samskeytum eldflauganna við eldsneytistankinn.
Enn fremur segir í greininni að nóttina fyrir geimskotið hafi verið átta stiga frost sem þykir býsna mikill kuldi á Flórídaskaga, þaðan sem ferjunni var skotið á loft. O-hringirnir voru ekki hannaðir til að þola slíkan kulda og fór svo að þeir gáfu sig með þeim afleiðingum að rúmlega þrjú þúsund gráða heitt gas seytlaði úr eldflauginni sem leiddi til sprengingar. Ekki nóg með það að kalt var í veðri heldur er einnig talið að mikill vindur hafi haft sitt að segja.
Bob og kollegar hans sátu stjarfir í höfuðstöðvum Thiokol, skammt frá Brigham í Utah, þegar þeir urðu vitni að því er geimferjan splundraðist. Bob, sem er 89 ára, hefur ekki tjáð sig opinberlega um slysið áður en hann ákvað að gera það í tilefni þess að 30 ár eru nú liðin.
„Ég er einn mjög fárra sem þekkja mjög vel til þessa atviks. Hefðu þeir hlustað á mig og beðið eftir að veðrið batnaði þá hefði niðurstaðan að öllum líkindum orðið önnur,“ segir Bob um slysið og bætir við að slysið sé alfarið á ábyrgð NASA. Sektarkennd hans snýr að því að honum finnst að hann hefði átt að gera meira til að koma í veg fyrir að geimferjunni yrði skotið á loft.
„NASA stýrði þessu. Þeir voru ákveðnir í að fara upp og sanna fyrir heiminum að þeir hefðu rétt fyrir sér og vissu hvað þeir voru að gera. Gallinn er bara sá að þeir vissu ekki hvað þeir voru að gera,“ segir hann en hver sem ástæðan var fyrir því að NASA ákvað að skjóta ferjunni á loft þá sé ljóst að menn þar á bæ höfðu rangt fyrir sér.
Bob settist í helgan stein fljótlega eftir slysið og var þjakaður af alvarlegu þunglyndi í langan tíma eftir slysið. Enn þann dag í dag er hann ekki laus við sektarkenndina því honum fannst hann ekki gera nóg til að sannfæra forsvarsmenn NASA um að bíða með skotið. Hann hafi ekki verið nógu skýr og ekki náð að færa nógu góð rök fyrir máli sínu.
Bob er trúaður maður og hann segist margoft hafa leitað til Guðs til að finna frið í sálinni. „Ég held að Guð hafi gert mistök þegar hann valdi mig í þetta verkefni. Þegar ég hitti hann þá ætla ég að spyrja hann hvers vegna hann valdi mig,“ segir hann.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=nmAbcDud2L8&w=560&h=315]