Halda styrktartónleika fyrir unga hetju sem greindist með bráðahvítblæði undir lok síðasta árs
„Það er gott að geta hjálpað,“ segir Kristín Ósk Wiium sem skipulagt hefur umfangsmikla styrktartónleika fyrir sjö ára gamlan dreng, Guðmund Atla. Þessi glaði og brosmildi drengur greindist með bráðahvítblæði undir lok síðasta árs. Kristín er móðir bekkjarsystur Guðmundar og þegar dóttir hennar lýsti fyrir henni vináttu sinni við Guðmund Atla fannst henni hún verða að bregðast við.
Kristín er vön því að setja upp styrktartónleika og þegar hún hafði haft samband við aðstandendur Guðmundar hringdi hún beint í tónlistarmanninn Pál Óskar Hjálmtýsson sem var fljótur að svara: „Já, auðvitað,“ þegar hún bað um aðstoð hans.
Tónleikarnir verða haldnir laugardaginn 6. febrúar kl. 16.00 í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Tónleikarnir eru undir yfirskriftinni: Hlýja, von og kærleikur. Páll Óskar, Valdimar Guðmundsson, María Ólafs, Blaz Roca, Herra Hnetusmjör, Shades of Reykjavík, Sígull og Sesselja Ósk jólastjarna ásamt bekkjarsystkinum Guðmundar Atla koma fram á tónleikunum.
Guðmundur Atli var á Barnaspítala Hringsins yfir hátíðarnar og hóf sína seinni lyfjameðferð á mánudag.
Kristín segir ótrúlegt hvað hún hafi mætt miklum velvilja. Allir hafi verið boðnir og búnir til að aðstoða og gefa vinnu sína. Hljómsveitirnar Kaleo og Pollapönk komast ekki og ætla því að senda Guðmundi kveðju á myndbandi. Þá hyggjast starfsmenn Víkurfrétta taka upp tónleikana fyrir Guðmund, sem eðli málsins samkvæmt á ekki heimangengt. Miðasala fer fram á vefnum tix.is auk þess sem hægt verður að kaupa miða við innganginn.
Ágóði tónleikanna rennur til Guðmundar Atla og fjölskyldu til að létta þeim róðurinn en einnig til styrktarfélagsins Krabbameinssjúkra barna, til þess að styðja við önnur börn í sömu stöðu.
„Ég er svo þakklát. Það hafa allir tekið okkur svo vel. Það vilja allir hjálpa og aðstoða okkur,“ segir Kristín Ósk sem bendir á að aðstandendur Guðmundar hafi í mörg horn að líta. Bekkjarsystkin hans sakna hans úr skólanum, hafa gert fyrir hann myndabók og ætla að taka lagið á tónleikunum.
Auk Kristínar kemur starfsfólk Hljómahallarinnar að skipulagi tónleikanna og Angela Coppola, en öll hafa þau á undanförnum vikum unnið ötullega að verkefninu.