„Þegar þú tekur þá ákvörðun, að fé eigi ekki að fara í heilbrigðiskerfið heldur eitthvað annað, ertu að sætta þig við að fólk deyi fyrir aldur fram frekar á Íslandi heldur en annars staðar,“ segir Kári Stefánsson sem stendur nú að undirskriftasöfnun til hvatningar stjórnvalda á auknu framlagi til heilbrigðismála.
32 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til ríkisstjórnar um að hækka hlutfall landsframleiðslu sem rennur til heilbrigðismála úr 8,7 prósentum í 11 prósent. Á vef RÚV segir að Kári líti málið þeim augum að það snúist ekki aðeins um tölfræði.
„Fyrir mér er þetta að vissu leyti spurning um hversu mikilsráðandi við viljum að kærleikur sé í íslensku samfélagi,“ segir hann. Algjört forgangsatriði sé að samfélagið setji sér það markmið að geta hlúið að þeim sem eru lasnir og meiddir.
Kári segir viðbrögð þjóðarinnar sýna að hann sé ekki einn á þessari skoðun. „Við hljótum að koma heilbrigðiskerfinu á þann stall að það sé jafn gott eða betra en í löndunum í kringum okkar.“