Systkinin eru sjö
Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður minnist móður sinnar á Facebook en hún hefði fagnað áttræðisafmæli sínu í dag væri hún á lífi. Páll Óskar er yngstur sjö systkina og minnist hann móður sinnar með miklum hlýhug.
Pressan greinir frá. Páll Óskar skrifar:
„Mamma mín, Margrét Matthíasdóttir, hefði fagnað 80 ára afmæli sínu í dag, 10. Janúar, ef hún hefði lifað. En hún lést úr krabbameini langt um aldur fram árið 1995.“
Páll Óskar segist þakklátur móður sinni fyrir að hafa tekið á sig það gríðarstóra verkefni að vera eiginkona föður hans, Hjálmtýs Hjálmtýssonar og ala upp 7 börn. Páll Óskar er yngsta barnið.
„Hvorugt verkefnið var léttvægt. Hún var undir gríðarlegu pásulausu álagi. Mamma var ekkert gefin fyrir að fara á trúnó með manni. Kannski var hún bara á fullu að ala upp öll þessi börn (og pabbi var eitt af þeim) og rak heimilið áfram á sjálfstýringu. Þegar hún dó, var fjölmörgum spurningum mínum til hennar ósvarað.“
Til að bæta sér það upp hvað hann átti margt ósagt við móður sína þegar hún lést segist Páll Óskar alltaf hafa reynt að vera eins opinn og hann getur við alla sem hann hittir á lífsleiðinni. Sömuleiðis hefur það gefið honum mikið að hitta fólk sem þekkti móður hans undir öðrum kringumstæðum – gamlar vinkonur, skólafélaga og vinnufélaga.