fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

„Bullkröfur“ en ekki raunverulegar skuldir

Lýstar kröfur í þrotabú Sigurðar Einarssonar námu 254 milljörðum – Segir málið ekki snúast um skuldir

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. janúar 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Meginmálið í þessu er að skiptastjóri tekur ekki afstöðu til réttmætis þessara krafna og það segir allt sem segja þarf,“ segir Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, um þær furðuháu kröfur sem lýst var í þrotabúa hans upp á ríflega 254 milljarða króna. Skiptum er lokið á þrotabúinu en DV greindi fyrstur fjölmiðla hinn 25. september síðastliðinn að Sigurður, sem nú afplánar fjögurra ára fangelsisdóm á Kvíabryggju, hefði lýst sig persónulega gjaldþrota. Sigurður segir í samtali við DV að kröfurnar sem tiltekin félög og bankar lýstu í þrotabúið séu ekki raunverulegar skuldir hans við þá.

„Bullkröfur“

Það var Vísir sem greindi fyrst frá skiptalokum á þrotabúi Sigurðar á fimmtudag þar sem fram kom að lýstar almennar kröfur í þrotabúið hefðu numið 254.388.227.406 krónum sem ekkert fékkst upp í en 38,3 milljónir króna hefðu fengist upp í lýstar veðkröfur, eða sem nemur 3,4 prósentum af lýstum veðkröfum. Sigurður hafði sjálfur greint frá því í viðtali við Áramótablað Viðskiptablaðsins, 30. desember síðastliðinn, að kröfur í bú hans hljóðuðu upp á 250 milljarða króna. Hann sagði að í hans huga væru þetta „bullkröfur sem aldrei fást greiddar“.

Skiptastjóri upplýsir að stærstu kröfuhafar í þrotabú Sigurðar hafi verið aflandsfélagið Chesterfield United með 99 milljarða króna, Deutsche Bank með 73 milljarða króna, Murray Holdings með 58 milljarða króna og Arion banki 21 milljarð. Helgi Jóhannesson sagði í samtali við dv.is á fimmtudag að þar sem engar eignir hafi fundist í þrotabúinu hafi ekki verið tekin nein afstaða til þessara krafna.

„Þetta eru einfaldlega þær kröfur sem þessir einstaklingar telja sig eiga á hann,“ sagði Helgi og bætti við: „Ég tek enga afstöðu til krafnanna enda eru engar eignir í búinu. Þar af leiðandi er ekki lagt í að fara að greina það sérstaklega. Ég set þetta einfaldlega inn á kröfuskrá eins og þessu er lýst. Það er ekki búið að dæma þessar kröfur og þar af leiðandi get ég ekki sagt til um hvort þetta er rétt eða ekki.“

Ekki raunverulegar skuldir

Aðspurður hvort um sé að ræða raunverulegar skuldir hans við þessa aðila segir Sigurður:
„Nei, þetta er það ekki.“

Þannig að Deutsche Bank lánaði þér aldrei 73 milljarða?
„Nei, nei. Þeir gerðu það ekki.“

Sigurður kveðst aðspurður ekki vita hvort upphæðir krafnanna megi rekja til tjóns sem ofangreindir aðilar telji sig hafa orðið fyrir vegna starfa hans hjá Kaupþingi og hvort frekar sé því um að ræða táknrænan gjörning, þar sem þeir vissu að skiptastjóri þyrfti ekki að taka afstöðu til réttmætis krafnanna.

„Ég veit það ekki. Ég held að þú hefðir bara getað gert kröfu þarna. Þá væri bara Sigurður Mikael með kröfu þarna í búið,“ segir Sigurður kíminn.

En þú skuldaðir þessum aðilum ekkert svo þú vitir?
„Nei, nei. Þetta snýst ekki um það.“

Aðspurður um tengsl hans við Chesterfield United og Murray Holdings og þessa helstu kröfuhafa segir Sigurður:
„Ég hef engin tengsl við þessi félög.“

Hann kveðst standa við það sem hann hefði áður sagt, að um væri að ræða bullkröfur. En vegna þess að þessum kröfum var lýst í þrotabúið, hvað svo sem býr að baki þeim, þá gerir það gjaldþrot Sigurðar að langstærsta persónulega gjaldþroti Íslandssögunnar. Björgólfur Guðmundsson hafði þar áður átt þann titil skuldlaust og með nokkrum yfirburðum en lýstar kröfur í bú hans námu 85 milljörðum þegar skiptum lauk í maí 2014.

Chesterfield-fléttan fyrir dómi

Félagið Chesterfield United hefur áður komið upp í umræðunni hér eftir hrun en um er að ræða félag sem var í eigu bresku kaupsýslumannanna Kevins Stanford og Tony Yerolemou, tískukeðjudrottningarinnar Karen Millen, og Íslendingsins Skúla Þorvaldssonar, sem oftar er kenndur við Hótel Holt.

Var meðal annars fjallað um félagið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Viðskipti Kaupþings og félagsins enduðu fyrir dómi sem svokallað Chesterfield-mál, en aðalmeðferð í því hófst 8. desember síðastliðinn. Þar eru Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson ákærðir fyrir stórfelld umboðssvik vegna hátt í 70 milljarða króna lánveitingar til aflandsfélaganna Chesterfield og Partridge Management Group, á árinu 2008. Partridge var í eigu Ólafs Ólafssonar, sem afplánar nú, líkt og Sigurður og Hreiðar, dóm sem þeir hlutu í Al Thani-málinu. Deutsche Bank hafði aðkomu að áðurnefndum viðskiptum í Chesterfield-málinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eiður og Vicente í KR
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Forviða ferðamaður þegar vél EasyJet flaug yfir eldgosið – „Lífið mitt hefur náð hámarki“

Forviða ferðamaður þegar vél EasyJet flaug yfir eldgosið – „Lífið mitt hefur náð hámarki“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður á fimmtugsaldri með gífurlegt magn af þýfi úrskurðaður í gæsluvarðhald

Maður á fimmtugsaldri með gífurlegt magn af þýfi úrskurðaður í gæsluvarðhald