fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Forsetaframbjóðandi eyddi út færslu um makamissi sem hún upplifði fyrir 200 árum

Greinina er hvergi að finna á blogginu en færslunni virðist hafa verið eytt út eftir umræður í ummælakerfi DV

Ritstjórn DV
Mánudaginn 4. janúar 2016 14:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsetaframbjóðandinn Hildur Þórðardóttir, eyddi út færslu af bloggi sínu eftir að hún tilkynnti um framboðið. Þannig vakti lesandi DV athygli á færslunni í ummælakerfi DV við frétt sem fjallaði um framboð Hildar og birtist í gær.

Greinin fjallar um 200 ára gamla sorg sem Hildur upplifir vegna makamissis.

Sjálf skrifar hún í færslu sinni, sem birtist í ágúst á síðasta ári:

„Nýlega varð ég þeirrar reynslu aðnjótandi að upplifa næstum 200 ára sorg vegna makamissis úr fyrra lífi í Englandi. Það kom mér á óvart hvað sorgin var mikil og ég grét og grét og hleypti öllu út og var hreinlega ekki viss um að ég kæmist út að borða með vinum mínum um kvöldið.“

Hún útskýrir ennfremur að í þessu fyrra lífi hafi hún dáið á núverandi afmælisdegi sínum, 2. Desember, „en 118 árum áður en ég fæddist í þessu lífi, sem mér finnst svolítið skemmtilegt. Ég hafði verið ekkja í 12 ár eftir mjög ástríkt og farsælt hjónaband,“ skrifaði hún.

Hún segir þessa reynslu sanna enn og einu sinni fyrir sér að manneskjan geymi allar tilfinningar sem hún vinnur ekki úr á milli lífa.

En Hildur orðar það með þessum hætti:

„Þetta sannar enn og aftur fyrir mér að við geymum í ljóslíkamanum sorg og allar tilfinningar sem við upplifum og vinnum ekki úr á milli lífa. Við fæðumst hins vegar ekki með alla fyrri lífa reynslu og tilfinningar, heldur veljum við úr þær tilfinningar úr fyrri lífum sem við sjáum fram á að hafa tækifæri til að vinna úr í þessu lífi. Sálin geymir allt fyrir okkur sem við ekki fæðumst með það skiptið.“

Hér fyrir neðan má lesa færsluna í heild sinni, en hana er þó ekki að finna á bloggsvæði Hildar, en hana má þó finna í skyndiafriti google. Við þetta má bæta að ekki náðist í Hildi við vinnslu fréttarinnar.

Hversu lengi geymist sorg?

„Nýlega varð ég þeirrar reynslu aðnjótandi að upplifa næstum 200 ára sorg vegna makamissis úr fyrra lífi í Englandi. Það kom mér á óvart hvað sorgin var mikil og ég grét og grét og hleypti öllu út og var hreinlega ekki viss um að ég kæmist út að borða með vinum mínum um kvöldið.

Í þessu fyrra lífi dó ég á núverandi afmælisdegi mínum 2. desember en 118 árum áður en ég fæddist í þessu lífi, sem mér finnst svolítið skemmtilegt. Ég hafði verið ekkja í 12 ár eftir mjög ástríkt og farsælt hjónaband.

Þetta sannar enn og aftur fyrir mér að við geymum í ljóslíkamanum sorg og allar tilfinningar sem við upplifum og vinnum ekki úr á milli lífa. Við fæðumst hins vegar ekki með alla fyrri lífa reynslu og tilfinningar, heldur veljum við úr þær tilfinningar úr fyrri lífum sem við sjáum fram á að hafa tækifæri til að vinna úr í þessu lífi. Sálin geymir allt fyrir okkur sem við ekki fæðumst með það skiptið.

Ég þekki mann sem nýlega missti aldraða mömmu sína. Eðlilega upplifði hann sorg en fljótlega fékk hann hjartsláttartruflanir og hjartatif eða hjartaflökt. Svo mikið að hann þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Sorgina geymum við í hjartastöðinni og þess vegna er eðlilegt að hún hafi áhrif á hjartað.

Það er alltaf áfall að missa foreldra sína. Ungt fólk upplifir sig jafnvel sem munaðarleysingja og þeir eldri fá óvægna áminningu um að líf þeirra styttist nú hraðbyri í annan endann. En þegar aldraðir einstaklingar fá loksins að fara yfir um ætti það nú ekki að vera svo ýkja sorglegt, eða hvað.

Það sem skiptir máli í þessari sögu er að maðurinn missti pabba sinn þegar hann var ungur drengur. Í þá daga var nú ekki verið að veita börnum áfallahjálp vegna missis eða ræða við þau um tilfinningar yfirhöfuð. Hann þurfti því eins og allir aðrir að grafa sorgina í hjartanu, halda áfram lífinu og hjálpa mömmu sinni með yngri systkini sín.

Sorgin sem fylgdi fráfalli móður hans bættist því við sorgina sem hann geymdi í hjartastöðinni í öll þessi ár og ýfði hana upp aftur, með beinum áhrifum á efnislíkamann. við bættist svo sorg úr fyrri lífum. Hann fékk þessar mikluhjartsláttartruflanir, eins og áður segir, svo hann þurfti að leggjast inn á sjúkrahús og mun væntanlega þurfa að fara í aðgerð ef hann hreinsar þetta ekki sjálfur út í heilun.

Þegar einstaklingar fá hjartasjúkdóma liggja alltaf tilfinningar að baki. Það er til lítils að fara bara í uppskurði og fá nýjar leiðslur, því tilfinningin er ennþá til staðar og mun halda áfram að hafa áhrif. þess vegna hjálpar heilun okkur að losna við gamlar tilfinningar og gömul áföll. Ef við losum hana ekki í þessu lífi, fáum við tækifæri í næstu lífum.

Í mínu tilfelli, fyrir næstum 200 árum, vissi ég ekki að heilun væri til og því geymdi ég sorgina eins og flestir aðrir. Þegar ég fór á andlegt námskeið í Englandi fyrir stuttu og hitti aftur sálina sem var minn fyrri eiginmaður, urðum við næstum óaðskiljanleg. Ég varð bara alltaf að vita hvar þessi einstaklingur væri.

Innan sólarhrings vissi ég hver ég hafði verið og að hann hafði verið eiginmaður minn. Ég fann mikinn kærleik milli okkar og djúpa vináttu. Svo Þegar hann fór svo til síns heima fann ég þessa gífurlegu sorg sem var algjörlega úr takti við samskipti okkar á námskeiðinu. En þetta var þá gamla sorgin frá því að hann féll frá fyrir næstum 200 árum.

Með því að fá tækifæri til að hreinsa þessa gömlu sorg út núna með heilun og gráti, fækkar stíflunum í ljóslíkamanum og orkan léttist. Ég hvet því ykkur til að hreinsa út allt sem þið getið.

Eins og ég segi í bókinni Taumhaldi á tilfinningunum – leið til betra lífs er lífið á jörðinni eins og sumardvalarstaður eða ferðalag. Við ákveðum að ferðast á tiltekinn stað með tilteknu fólki og sjá og upplifa eitthvað ákveðið en líka eitthvað nýtt og óvænt. Þegar dvölinni er lokið förum við aftur heim í sálarheima.

Það er auðvelt að hafa samskipti milli heima með hugsunum okkar. Talaðu við þá sem eru farnir og þú munt heyra þá svara. Í fyrstu finnst þér þú vera að gera upp þeirra svör, en ég get fullvissað þig um að við getum haft samskipti við þá sem eru farnir heim, þótt við séum ekki lærðir miðlar. Ef skilaboðin eru uppbyggjandi og ástrík eru þau frá þeim. Ef þau eru niðurdrepandi og skaðandi er þetta lægra sjálfið að draga þig niður.

Aðalatriðið er að við þurfum ekki að tengjast ástvinum okkar með sorg til langframa. Því fyrr sem okkur tekst að umbreyta sorginni í kærleika sem tengir okkur þessari sál, því betra fyrir okkur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Egill Þór er látinn
Fréttir
Í gær

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Í gær

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Baldvin rak 99 starfsmenn sem skrópuðu á morgunfund – „Snáfið út úr fyrirtækinu mínu undir eins“

Baldvin rak 99 starfsmenn sem skrópuðu á morgunfund – „Snáfið út úr fyrirtækinu mínu undir eins“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“