fbpx
Laugardagur 30.nóvember 2024
Fókus

Már heldur heimatónleika á Ljósanótt

Hæfileikaríkur og heillandi húmóristi

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 1. september 2017 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Már Gunnarsson hefur þrátt fyrir ungan aldur vakið mikla athygli fyrir lagasmíðar og hljóðfæraleik, en hann byrjaði að læra á píanó þegar hann var búsettur í Lúxemborg. Hann hefur nóg að gera í tónlistinni, semur og spilar, heldur tónleika og vinnur að plötu. Og í kvöld, á Ljósanótt, heldur hann tónleika á pallinum heima hjá sér.

„Ég flutti til Lúxemborg ásamt fjölskyldu minni þegar ég var sex ára til að fá góða kennslu í námi og þar bauðst mér að læra á píanó í klassísku námi hjá rússneskum meistara,“ segir Már. „Þegar ég flutti síðan aftur heim til Íslands 12-13 ára gamall fór ég að æfa sund, af því mig langaði að stunda einhverja íþrótt, en gat ekki farið að æfa fótbolta eða slíka íþrótt.“

Semur lög með vini sínum í Lúxemborg

„Þegar ég kom heim hélt ég áfram að spila og fór að leggja meiri áherslu á að semja lög. Vinur minn, Tómas Eyjólfsson, er fyrrum flugstjóri hjá Cargo Lux og búsettur í Lúxemborg, og við vinnum mikið saman. Ég geri lag og hann texta, þetta er svona fjarsamvinna, stundum sem ég lag og sendi til hans og hann semur texta við og sendir tilbaka. Stundum er það öfugt, að hann sendir mér texta og ég sem síðan lag við.“

Már og vinur hans, Tómas Eyjólfsson, sem búsettur er í Lúxemborg.
Vinátta Már og vinur hans, Tómas Eyjólfsson, sem búsettur er í Lúxemborg.

Már er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á fjölgreinabraut, en ákvað að minnka námið fram að áramótum, enda nóg að gera bæði í tónlistinni og sundinu. Þegar stúdentsprófinu er lokið hér heima, stefnir hann á nám erlendis. „Ég stefni á að fara í tónlistarháskóla sem heitir Conversatorium van Amsterdam, ég vil vinna áfram að því að rækta mína tónlist og mína getu. Og verða betri og öflugri að spila og syngja, semja lög og spila á tónleikum.“

Heldur á heimsmeistaramót í Mexíkó

Sundið hefur skilað líka Má langt og í lok september heldur hann á heimsmeistaramót í sundi í Mexíkó. Faðir hans, Gunnar Már Gunnarsson, fer með honum og sér um að „pikka“ í höfuðið á honum þegar styttist í bakkann. „Þetta virkar þannig að á sitt hvorum bakkanum er maður og þegar ég á svona 3 metra eftir að bakkanum, þá slær viðkomandi mig í hausinn með priki þannig að ég veit að það eru bara svona tvö tök eftir að bakkanum og svo sný ég við.“

Platan: Söngur fuglsins

Már vinnur að plötu og stefnir hann að því að hún verði fjölbreytt. „Ég, systir mín Ísold Wilberg Antonsdóttir og Vilhelm Anton Jónsson (Villi naglbítur) munum syngja á plötunni og svo munu fleiri vera með, en ég vil ekki gefa upp neitt meira, þar sem það er ekki staðfest.“

Platan hefur fengið nafn, Söngur fuglsins og er nefnd eftir samnefndu lagi á henni sem er virðingarvottur Más við flugmanninn Arngrím Jóhannsson, sem brotlenti 9. ágúst 2015, ásamt kanadískum vini sínum í fjallshlíð innarlega í Barkárdal, norður af Hörgárdal. Arngrímur lifði slysið af, en vinur hans ekki.

„Ég samdi lagið eftir slysið og hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir Arngrími, hann flaug meðal annars með hjálpargögn á sínum tíma til Biafra. Ísold systir mín syngur lagið.“

Heillaður af íslenskunni

Már semur bæði á íslensku og ensku, en segist hrifnari af íslenskunni. „Ég er heillaður af íslenskunni, þar sem að hún er fallegt tungumál þegar henni er vel beitt. Enskan er samt flott líka að því leyti að fleiri skilja textann.“

Már er þó líka hrifinn af fjölbreytninni og þannig mun platan hans verða. „Ég er mjög hrifinn af lögum sem hafa laglínu, svona „old school“ tónlist, eins og Stevie Wonder, Frank Sinatra. Lögin mín eru í þeim stíl, fallegt píanó og ég nota ekki tölvuheila, þó að þeir geti komið vel út þegar við á.“

Már segist einnig hrifinn af þegar eldri lög eru sett í nýjan búning og kemur Friðrik Dór og Fröken Reykjavík útgáfa hans upp í samræðum. „Það var líka flott hvernig hann söng á Fiskidagstónleikunum núna í ár, þar sem að hann söng Í síðasta skipti, nútímalegt lag, sem hann setur í gamaldags stíl.“

Heldur tónleika í heimabænum á Ljósanótt

Már hefur verið duglegur að koma fram og spila, hann hefur haldið tvenna einkatónleika á Ránni og komið tvisvar fram á List án landamæra í Reykjanesbæ, hann hefur haldið eina tónleika í Hannesarholti í Reykjavík og í fyrra kom hann fram í jólasýningu Geirs Ólafssonar, The Las Vegas Christmas Show. „Ég hef gaman af að skipuleggja og hafa hlutina á hreinu,“ segir Már með tónleikahaldið.

Már og Kjartan Már Kjartansson, fiðluleikari og bæjarstjóri Reykjanesbæjar, léku báðir á List án landamæra. Már er ungur og nýlega byrjaður að koma fram, Kjartan Már á hins vegar um hálfa öld að baki í fiðluleiknum.
Tveir hæfileikaríkir Már og Kjartan Már Kjartansson, fiðluleikari og bæjarstjóri Reykjanesbæjar, léku báðir á List án landamæra. Már er ungur og nýlega byrjaður að koma fram, Kjartan Már á hins vegar um hálfa öld að baki í fiðluleiknum.

„Ég var í sýningu Geirs í fyrra og verð aftur í þar. Þetta er bara flottasta sýning sem ég hef séð,“ segir Már. „Geir er einn af þeim sem syngur með sálinni, hann lifir sig algjörlega inn í flutninginn. Svo er hann bara jákvæður og kemur vel fram við alla. Hann er eflaust einn af þeim íslensku tónlistarmönnum, sem ég ber mesta virðingu fyrir.“

Már söng líka í brúðkaupi Geirs og Adriönu núna í ágúst og í kvöld munu þeir félagarnir halda tónleika á pallinum heima hjá Má í Reykjanesbæ. Tónleikarnir eru hluti af nokkrum heimahústónleikum sem fara fram á Ljósanótt og seldist upp á þá á örfáum klukkustundum.

Foreldrar Más eru Lína Rut Wilberg og Gunnar Már Másson og aðspurður hvort að það hafi haft einhver áhrif að alast upp við sköpun á heimilinu, en Lína Rut er þekkt listakona, svarar Már að þau séu bæði mjög skapandi. „Mamma er meira í listinni, pabbi er meistari í öllu sem tengist íþróttum og sem hann tekur sér fyrir hendur, nema kannski dansi,“ segir Már, en faðir hans er menntaður íþrótta- og hreyfifræðingur frá háskóla í Alabama í Bandaríkjunum.

Már, faðir hans, Gunnar Már og sjálfur veðurguðinn, Ingólfur Þórarinsson, í brúðkaupi Geirs Ólafssonar og Adriönu Patricia Sánchez Krieger 20. ágúst síðastliðinn.
Þrenna í brúðkaupi. Már, faðir hans, Gunnar Már og sjálfur veðurguðinn, Ingólfur Þórarinsson, í brúðkaupi Geirs Ólafssonar og Adriönu Patricia Sánchez Krieger 20. ágúst síðastliðinn.

Það er ljóst að það er nóg að gera framundan hjá Má, bæði við að synda og skapa og semja. En hann finnur sér líka tíma til að gera fleira. „Maður er alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og ég reyni að fara eins oft og ég get til Lúxemborg að heimsækja vini mína þar, og kennarann minn NAFN, sem er bara eins og amma mín.“

Már flytur hér lagið Alive á tónleikunum List án landamæra, sem fóru fram í Reykjanesbæ á sumardaginn fyrsta, eða 20. apríl síðastliðinn. Lagið verður á plötunni Söngur fuglsins.

Már er með like-síðu á Facebook, þar sem fylgjast má með tónlist hans og tónleikahaldi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

In Flames til Íslands í sumar

In Flames til Íslands í sumar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí
Fókus
Fyrir 3 dögum

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara
Fókus
Fyrir 4 dögum

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman