YouTube-vísitala laganna sjö – Þetta hafa smellirnir fengið af smellum – Er Ísland með sterkustu undankeppnina í ár?
Sjö lög munu keppa á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar á laugardaginn og berjast þar um atkvæði Íslendinga til að komast á Eurovision sem haldið er í Úkraínu að þessu sinni.
En hvert þessara laga ætli sé vinsælast á YouTube?
Öll lögin sem valin voru í undankeppnina komu inn á YouTube-rás Ríkisútvarpsins fyrir mánuði síðan. Um er að ræða bæði íslensku og ensku útgáfur laganna. DV ákvað athuga YouTube-vísitölu laganna sjö sem komumst áfram í úrslitin en þau hafa alls fengið ríflega 248 þúsund áhorf.
Það er Svala Björgvinsdóttir sem ber höfuð og herðar yfir aðra keppendur og virðist langvinsælust á YouTube ef marka má áhorfstölur á útgáfurnar tvær, Ég veit það og Paper. Alls ríflega 89.314 áhorf, þar af ríflega 66 þúsund á Paper.
Aron Hannes, og lag hans Nótt/Tonight er aðeins hálfdrættingur á við Svölu með 44.212. Daði Freyr Pétursson og lagið Hvað með það/Is this love rekur lestina aðeins 13.553 áhorf.
Hildur Kristín Stefánsdóttir, sem kom inn sem sjöunda lagið í úrslitin þökk sé Svarta Pétri framkvæmdastjórnar Söngvakeppninnar, er fjórða vinsælasta lagið á YouTube, með ríflega 34 þúsund áhorf.
Af ummælum við vinsælustu lögin að dæma virðast erlendir Eurovision-aðdáendur ánægðir með úrvalið hjá Íslendingum fyrir keppnina í ár.
Einn spenntur skrifar við lag Hildar:
„Ísland er með bestu undankeppnina af öllum þetta árið. Ég gæti búið til lagalista (e. playlist) með bara þeim.“
Við andmælum því ekki. Svo er bara að sjá hvort YouTube-smellirnir hafi eitthvað að segja á laugardagskvöld.
Flytjandi | Íslenska | Áhorf | Enska | Áhorf | Alls |
---|---|---|---|---|---|
Svala | Ég veit það | 22.945 | Paper | 66.369 | 89.314 |
Aron Hannes | Nótt | 18.102 | Tonight | 26.110 | 44.212 |
Aron Brink | Þú hefur dáleitt mig | 10.872 | Hypnotised | 26.094 | 36.966 |
Hildur | Bammbaramm | 10.076 | Bammbaramm | 24.375 | 34.451 |
Rakel og Aron | Til mín | 6.288 | Again | 9.385 | 15.673 |
Rúnar Eff | Mér við hlið | 4.268 | Make your way back home | 9.805 | 14.073 |
Daði Freyr | Hvað með það | 5.367 | Is this love | 8.186 | 13.553 |
Áhorfstölur miðast við stöðuna á YouTube-rás RÚV 06.03 2017 – kl: 15:00