fbpx
Þriðjudagur 12.nóvember 2024
Fókus

„Ég er ekki skrímsli“

Sigga hakkara bannað að fara í sund – Dæmdur fyrir gróf kynferðisbrot en segist ekki vera siðblindur

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 2. september 2016 08:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ertu skrímsli?“ „Ég er ekki skrímsli en mikið af því sem ég hef gert bendir til þess,“ segir Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari. Sigurður lauk afplánun í fangelsi í júní og hefur snúið heim. Hann á eftir að afplána nokkra mánuði af dómi sem hann hlaut fyrir kynferðisbrot gegn níu unglingspiltum. Sigurður var dæmdur í þriggja ára fangelsi og ástæða þess að hann er laus eru nýjar reglur um fullnustu refsinga. Stefna yfirvalda er að koma föngum á rafrænt eftirlit sem fyrst. Þar eru þeir lengur en áður tíðkaðist.

DV greindi frá því þann 23. ágúst að Sigurður afplánaði eftirstöðvar dómsins undir rafrænu eftirliti. Í kjölfarið kom fram í Stundinni að foreldrar barna í Salaskóla væru ósáttir við að Sigurður stundaði sundlaugar í Kópavogsbæ í frítíma sínum og spunnust heitar umræður um málið. Samkvæmt heimildum DV funduðu allir skólastjórar um málið og vildu að Sigurði yrði meinað að fara í laugarnar. Sigurður hafði verið nær daglegur gestur í sundlaugum frá því að hann losnaði í júní. Nú hefur DV fengið staðfest að Siggi hakkari hefur skrifað undir plagg þess efnis að hann megi ekki fara í sund. Hann þarf því framvegis að þrífa sig heima hjá sér.

Saga Sigurðar

Sigurður var dæmdur í einu umfangsmesta kynferðisbrotamáli síðari ára í september 2015. Áður hafði Sigurður komist í kastljós fjölmiðla vegna tengsla við Wikileaks og var sakaður um þjófnað frá samtökunum. Þá var hann bandarísku alríkisþjónustunni, FBI, innanhandar og gaf þeim upplýsingar um Wikileaks. Þá greindi DV frá því að hann hefði farið til fundar við allsherjarnefnd Alþingis eftir að greint var frá því að hann hefði verið yfirheyrður af FBI haustið 2011. Á þeim fundi mætti Sigurður með lífverði og sagðist hafa verið tálbeita hjá FBI. Einnig var hann nefndur í tengslum við tilraun til að kúga Nóa Siríus en ekki var hægt að sanna tengsl hans við málið. Þá sat hann í gæsluvarðhaldi í tengslum við fjársvik.

Síðar var Sigurður dæmdur fyrir kynferðisbrot en fangelsisdómar hans eru þrír, samtals 5 ár og 8 mánuðir. Í febrúar 2014 var hann dæmdur í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að tæla 17 ára dreng til kynferðismaka með blekkingum. Þann 13. mars sama ár undirgekkst Sigurður sektargreiðslu vegna þjófnaðar. Þá var hann dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi í desember 2014 fyrir umfangsmikil fjársvik gegn fyrirtækjum og einstaklingum. Alls var hann dæmdur til að greiða um átta milljónir í miskabætur.

Hinn 23. september 2015 var Sigurður dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn níu piltum. Þá var honum gert að greiða 8,6 milljónir í miskabætur og rúmar sex milljónir króna í sakarkostnað. Sigurður hafði samskipti við drengina á netinu og lofaði þeim peningagreiðslum og að þeir fengju margs konar vörur, til dæmis símtæki, tölvur, bifreiðar og jafnvel fasteignir, í skiptum fyrir munn- og endaþarmsmök. Þá lofaði hann því að hann gæti lagfært námsferil sumra drengjanna með tölvukunnáttu sinni. Flestir piltanna voru á aldrinum 15 til 16 ára þegar brotin áttu sér stað. Fleiri drengir kærðu Sigurð en ekki rötuðu fleiri mál fyrir dómstóla.

Verður að fara í bað heima hjá sér

„Ég spurði hvort ég mætti fara í sund áður en ég losnaði og þeir sögðu já,“

„Ég spurði hvort ég mætti fara í sund áður en ég losnaði og þeir sögðu já,“ segir Sigurður og segir að daginn eftir umfjöllun fjölmiðla hafi honum verið meinað að fara í sund. Í upphaflega plagginu sem veitti honum reynslulausn segir hann að hvergi hafi komið fram að honum hafi verið meinaður aðgangur að sundlaugum. Eftir háværar umræður var Sigurður boðaður á fund daginn eftir og þá hafði því skilyrði verið bætt við. Allar sundferðir væru hér eftir teknar af. Sem von er hefur ýmislegt verið sagt. Sigurður hefur verið kallaður skrímsli og oftar en einu sinni fólk viljað skipta út viðurnefninu hakkari fyrir nauðgara. Um þetta segir Sigurður:

„Að mörgu leyti finnst mér hún ósanngjörn og ekki rétt en það er ekki hægt annað en að skilja hana að vissu marki. Mér finnst til dæmis ekki rétt hvað sé fjallað um og hvað ég var dæmdur fyrir. Aldursmunurinn á mér og þeim sem að málið snýst um var mjög lítill,“ segir Sigurður og bætir við:

„Ég held að umræðan fari úr böndunum með hverri einustu frétt. Hvort sem hún er um mig eða einhvern annan. Ég skil þessi sjónarmið alveg en umræðan var dálítið asnaleg. Það var sagt að ég væri að mæta í sund þegar skólasund væri en svo gleymdist að athuga að skólasund er ekki einu sinni hafið. Á þeim tíma sem skólasund er á ég að vera í vinnu. Ég mætti alltaf í sund á kvöldin.“

Frá því Sigurður losnaði í júní starfaði hann fyrst fyrir Postulakirkjuna og sá meðal annars um vefsíðugerð fyrir kirkjuna. Fyrir tæpri viku var hann færður í Rauða krossinn þar sem hann stundar samfélagsþjónustu sjö tíma á dag alla daga vikunnar. Ákvörðunin var tekin þar sem fyrri vinnuveitandi hafði ekki næg verkefni handa Sigurði. Hjá Rauða krossinum er Sigurður að pakka niður fötum og kveðst hafa gert margt skemmtilegra.

Sálfræðingurinn tjáir sig

Don Somer og Sigurður Ingi þekktust áður en Sigurður var settur í umsjá Somers í samfélagsþjónustu
Don Somer og Sigurður Ingi þekktust áður en Sigurður var settur í umsjá Somers í samfélagsþjónustu

Dan Somers titlar sig sálgæslumann og var hann Sigurði innanhandar í fangelsinu. Eftir að Sigurður losnaði fór hann í vinnu hjá sálfræðingi sínum, sem er safnaðarprestur hjá Postulakirkjunni.

„Hann hjálpaði mér með kirkjustarf og kirkjuvefinn og hjálpaði mér í athvarfsmiðstöð sem ég rek nokkrum sinnum á ári þar sem fólk kemur í vikudvöl. Hann þekkir netið út og inn. Hann er klár, strákurinn. Svo er hann búinn að vera að hjálpa mér við að mála og vinna við ýmsar aðrar viðgerðir. Dan hefur verið með sálgæslu og annast Sigurð. Dan segir:

„Sigurður er siðblindur, eða var það. Það getur tekið langan tíma að laga það með sálfræðiaðstoð. Það tók mig tvö ár að fá hann til að sjá og skilja að það sem hann gerði var rangt. Það er enginn efi um það í dag að hann sér að það sem hann gerði var rangt.“

Í niðurstöðum geðrannsóknar á Sigurði, sem kom fram í gæsluvarðhaldsúrskurði undir lok árs 2014, kom fram að hann væri siðblindur og að vandi hans fælist í hömluleysi og erfiðleikum við að fresta fullnægingu hvata. Þá iðrist hann ekki gjörða sinna og geti ekki sýnt merki um djúpa sektarkennd. Dan vill halda fram að siðblinda sé lærð hegðun.

„Við kennum börnum það ef þau komast upp með eins mikið og þau geta, þá finnst þeim það bara eðlilegt. Hann hringdi í mig og sagði að það væri komið nóg. Hann hefur játað afbrot sín fyrir dómi, sem gerist nánast aldrei hjá fólki sem neitar öllu. Hann skildi að það sem hann var að gera var rangt.“

Þegar það er borið undir Sigurð hvort hann sé siðblindur og hvort það hafi tekið tíma fyrir hann að átta sig á alvarleika brotanna játar hann því. Það hafi ekki gerst strax. Ertu siðblindur?

„Nei, ég mundi ekki segja það. Það er mitt persónulega álit. Á vissum sviðum er ég það, að sjálfsögðu, en það er fullt af hlutum sem ég myndi alls ekki gera. Svo eru aðrir hlutir á þessum tíma sem ég gerði, ég sé eftir þeim í dag. Á þeim tíma gerði ég það ekki.“

Sálfræðingur Sigurðar vill meina að um fimm ára áætlun sé að ræða en fjölmiðlar lengi biðina með umfjöllun um viðkvæm mál.

„Ég hreint út sagt veit ekki hvað ég ætti að segja, nema að biðjast afsökunar aftur.“

„Stór hluti af hans lífi er að fara í sund en nú er búið að banna það, vegna þess að það er búið að skrifa um þessa hluti,“ segir Dan sem lítur nánast á Sigurð sem fósturson sinn. Hann segir að strax eftir umfjöllun fjölmiðla um sundferðir Sigurðar hafi fangelsismálayfirvöld gripið í taumana.

„Þá var sagt; þú mátt ekki fara sund. Þú verður að fara í bað heima hjá þér. Hvernig á að fá fólk inn í þjóðfélagið þegar við bönnum því að taka þátt í þjóðfélaginu? Sigurður keypti í raun vændi af ungum strákum. Ég er ekki að afsaka neitt. Mér finnst það siðferðislega rangt.“

Dan segir að Sigurður hafi skrifað bréf til flestra fórnarlambanna, og fólks tengt þeim, og beðist afsökunar. Sigurður gengst við því og segist einnig hafa hringt í aðra sem hann braut á í fjársvikamáli.

Fékkstu viðbrögð?
„Nei.“
Hefur þú heyrt í aðilum?
Aftur neitar Sigurður.
Sérðu eftir því sem þú gerðir?*

„Ég geri það í dag. Ef þú hefðir spurt mig fyrir tveimur árum eða tveimur og hálfu ári, þá hefði svarið verið öðruvísi.“

Ef þessir strákar stæðu frammi fyrir þér í dag, myndir þú vilja segja eitthvað við þá eða finnst þér þú hafa gert upp þín mál með þessum bréfum?

„Ég, hreint út sagt, veit ekki hvað ég ætti að segja, nema að biðjast afsökunar aftur.“

Leyfir Sigurði að umgangast börn sín

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Dan Somers segir Sigurð ekki hættulegan börnum. Ekki þurfi heldur að hafa áhyggjur af honum í sundlaugum bæjarins. Þá segir hann Sigurð hafa áttað sig á brotum sínum.

„Honum finnst það sem hann gerði ógeðslegt,“ segir Dan og segist ekki hafa trú á því að hann brjóti af sér aftur. „Það er aldrei hægt að segja aldrei. Hann þarf að koma heim klukkan 11 á kvöldin og hingað til er hann búinn að vera í sundi á hverjum degi úti um allt og engin vandamál.“

Dan bætir við að tvö af fórnarlömbum Sigurðar hafi sett sig í samband við hann í fangelsinu. Sigurður segist ekki kannast við það, en segist hafa heyrt í þeim sem hann hafi svikið. Einnig segir Dan að Sigurður umgangist hans börn.

„Hann er oft í kringum börnin mín og er góður vinur þeirra. Ég hef alls ekki áhyggjur af honum í kringum börnin mín,“ segir Dan.

Fangelsisvist

Þekkt er að barnaníðingar og kynferðisbrotamenn fái oft fyrir ferðina hjá samföngum í fangelsum. Þeir eru jafnvel útilokaðir frá hópnum og beittir barsmíðum. Sigurður segir að vistin hafi ekki verið svo slæm.

„Ég held ég hafi komist vel í gegnum þetta. Það er ekki sjálfgefið. Ég var í einangrun í fimm vikur fyrst, svo fór ég inn á Hraunið á almennan gang og var í tvo til þrjá mánuði en svo færður í Hegningarhúsið í átta mánuði. Það var ágætt. Það vandist, nema maturinn, bakkamatur frá Múlakaffi. Svo var ég færður upp á Hraunið í eitt ár, fór svo á Sogn í hálft ár.“

Hvað er verst við að vera í fangelsi?

„Ætli það sé ekki að geta ekki hitt vini og fjölskyldu. Það er það eina jákvæða við vistina í fangelsinu að hún hjálpaði manni að sjá hvað skiptir máli. Þetta snerist ekki lengur um flotta bíla eða peninga. Þetta snerist um vini og fjölskyldu. Fyrst í stað var ég ekki að átta mig á því. En eftir svona sjö, átta mánuði þá fór ég að átta mig á þessu.“

Þá segist Sigurður fá frið úti á götu og ekki verða fyrir aðkasti eða þurfi að læsa dyrum. Það sé helst fjölskyldan sem hafi áhyggjur.

Laus í júní

„Svo eru aðrir hlutir á þessum tíma sem ég gerði, ég sé eftir þeim í dag. Á þeim tíma gerði ég það ekki.“

Kynferðisbrot Sigurðar, eða Sigga hakkara, voru umfangsmikil og braut hann, eins og áður segir, gróflega gegn mörgum ungum piltum. Hefur hann sært marga án þess að það verði fært frekar í orð. Hann losnaði síðan í júní en það var í lok ágúst sem greint var frá því að hann væri laus og náðist mynd af honum á bílaþvottastöð. Þeim sem tók myndina brá að sjá hann lausan svo skömmu eftir að hann hafði verið dæmdur.

Sigurður segir að hann hafi ekki fengið sálfræðiaðstoð í fangelsinu frá Fangelsismálastofnun.
Sigurður var síðan látinn laus og sá sem tók hann í vinnu var, eins og áður segir, Dan Somers en þeir hafa þekkst í nokkurn tíma. Dan var í þjónustu Sigurðar og fylgdi honum meðal annars á fund allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis árið 2013 til að ræða aðgerðir FBI á Íslandi sumarið 2011 og seinna átti Dan svo eftir að taka Sigurð í samfélagsþjónustu sem lauk nú fyrir nokkrum dögum en Dan greinir frá því í samtali við DV að þeir hafi verið með skrifstofu á sama stað um tíma fyrir einhverjum árum. Dan er titlaður prestur og sálgæslumaður. Við nánari athugun má sjá að Dan hefur einnig staðið fyrir nokkuð vinsælum lífvarðarnámskeiðum hér á landi. Þá má sjá Dan á mynd frá árinu 2011 með Julian Assange en Pressan birti mynd af Sigga hakkara og Dan árið 2013..

„Þegar ég var inni var það að mínu frumkvæði að hitta Dan. Ég þarf ekki að hitta hann og engin skilyrði um slíkt. Ég bað um að fá að hitta geðlækni og það tók frekar langan tíma og ég fékk það á endanum og þurfti að borga fyrir það sjálfur og það var allt að mínu frumkvæði.“

Íslendingar eiga að fyrirgefa

Sigurður var myndaður við bílaþrif og vakti athygli að hann væri laus úr fangelsi.
Laus Sigurður var myndaður við bílaþrif og vakti athygli að hann væri laus úr fangelsi.

Dan Somers segir Íslendinga eiga erfitt með að fyrirgefa og geri það sjaldan í erfiðum málum.
„Íslendingar eiga að fyrirgefa Sigga hakkara og fyrirgefa öllum afbrotamönnum sem játa afbrot sín og gangast við þeim og afplána þær refsingar sem þeir fá. Ef fólki finnst að refsingin eigi að vera harðari þá á Alþingi að breyta því.“

Hefur hann verið í kringum börn eða unglinga í þinni umsjá?

„Hann á systur á unglingsaldri, nýfermda. Auðvitað er hann í kringum börn. Hann er laus úr fangelsi. Ég hef oft setið með honum þar sem hann hefur verið grátandi yfir því sem hann hefur gert og sagt; af hverju var ég ekki bara samkynhneigður, af hverju var ég ekki á bar sjötíu og sex eða kíki eða eitthvað? Það hefði verið miklu auðveldara, þá þyrfti ég ekki að vera hérna í fangelsi.“

Fyrir skömmu tjáðu foreldrar ungs pilts sig við DV. Sonur þeirra féll fyrir eigin hendi. Þar sögðu foreldrarnir frá því að sonur þeirra hefði svipt sig lífi vegna alvarlegs kynferðisbrots. Ekki var greint frá hver hafði beitt piltinn ofbeldi og vildu foreldrarnir ekki tjá sig um það við DV, heldur vakti fyrir þeim að vekja athygli á alvarleika kynferðisofbeldis. Á samfélagsmiðlum var fólk sem tengdi Sigurð við viðtalið. Aðspurður hvort Sigurður hafi séð viðtalið segir hann:

„Já, ég las það.“

Hvað fannst þér um það? Tekur þú það til þín?
„Þetta er mjög leiðinlegt mál, ég neita því ekki. Ég veit hvaða strákur þetta er. Þetta tók á mig. Ég frétti af þessu tveimur dögum eftir að það gerðist.“

Sumir kalla þig skrímsli, aðrir siðblindan, ég hef ekki allt eftir sem sagt hefur verið. Særir slíkt?
„Að sjálfsögðu gerir það.“
Ertu skrímsli?

„Ég er ekki skrímsli en mikið af því sem ég hef gert bendir til þess.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sara Lind telur ólíklegt að hún snúi aftur heim – „Mér finnst bara næstum því allt betra í Danmörku“

Sara Lind telur ólíklegt að hún snúi aftur heim – „Mér finnst bara næstum því allt betra í Danmörku“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bókaspjall: Merkilegar sannsögur og dýrlegt smásagnasafn

Bókaspjall: Merkilegar sannsögur og dýrlegt smásagnasafn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir tónlistarmanninn hafa boðið henni 1,6 milljarða fyrir að þegja um sambandið

Segir tónlistarmanninn hafa boðið henni 1,6 milljarða fyrir að þegja um sambandið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lana Björk svarar Línu Birgittu og birtir myndir – „Það er ótrúlega sárt að sjá rangfærslur frá jafn stórum áhrifavaldi“

Lana Björk svarar Línu Birgittu og birtir myndir – „Það er ótrúlega sárt að sjá rangfærslur frá jafn stórum áhrifavaldi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

19 ára stúlka dó í svefni eftir að hafa kvartað undan slæmum höfuðverk

19 ára stúlka dó í svefni eftir að hafa kvartað undan slæmum höfuðverk
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kynlífsjátning Heidi Klum um eiginmanninn

Kynlífsjátning Heidi Klum um eiginmanninn