Segir þetta hafa verið ekkert annað en einelti – „Hefðir átt að sýna mér smá virðingu og vinsemd“ – Segir að hann eigi að skammast sín
Þórunn Antonía Magnúsdóttir segist hafa fyrirgefið Bubba Morthens, sem hún segir að hafi lagt sig í einelti á meðan þau voru dómarar í sjónvarpsþættinum Ísland Got Talent. Þórunn segist þó enn bíða eftir „alvöru afsökunarbeiðni.“
Þetta segir Þórunn Antonía í færslu sem hún birti á Facebook fyrir skemmstu.
Þórunn Antonía sagði í viðtali við Fréttablaðið að samstarfsmaður hennar á Stöð 2 hefði lagt sig í einelti á meðan tökur á fyrstu þáttaröð Ísland Got Talent fóru fram. Þórunn sagði að sá hefði meðal annars kallað hana óhæfa móður og lýst yfir að hann vildi losna við hana úr dómnefndinni, eftir að hún varð ólétt.
Sjá einnig: Þórunn Antonía stígur fram: Lögð í einelti í Ísland Got Talent
Bubbi Morthens steig svo fram í morgun og sagðist vera umræddur samstarfsmaður. Bubbi baðst afsökunar á framferði sínu en fullyrti að hann hefði ekki lagt Þórunni í einelti.
Sjá einnig: Bubbi biður Þórunni afsökunar: Telur sig ekki hafa lagt hana í einelti
Í færslu Þórunnar frá því í dag, sem birt var á Nútímanum, segir hún að Bubbi sé að fela sig á bakvið vægast sagt óviðeigandi húmor og að hann ætti að skammast sín.
„Þegar einhver heldur áfram að stríða eftir að maður hefur sett mörk og ég sagði í einlægni að mér sárnaði þessi hegðun, það er ekkert annað en einelti,“ segir Þórunn Antonía og bætir við:
„Þú stendur uppi á sviði og syngur um jafnrétti umvafinn konum sem er flott. En kannski hefðir þú átt að sýna mér, konunni sem leit upp til þín og taldi þig vin, smá virðingu og vinsemd. Ég fyrirgef þér en þetta eru allt orð sem þú sagðir en ekki ég og mér sárnaði. Lengi hef ég beðið eftir alvöru afsökunarbeiðni frá þér, kæri gullsmiður orða.“