fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Ólíkar kenningar um morðingjann

Lögreglumenn og héraðssaksóknari spá í Ófærð: Enginn útilokaður á þessu stigi

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. febrúar 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þáttaröðin Ófærð sem framleidd er af RVK studios hefur fangað athygli þjóðarinnar og áhorf er mikið. Tvöfaldur lokaþáttur verður á sunnudag og ýmsar kenningar eru á kreiki um hver morðinginn er. DV ákvað að leita til nokkurra rannsakenda sakamála á Íslandi og kanna hvort þeir hefðu séð í gegnum plottið.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari hefur fylgst með öllum þáttunum. Hann er ekki tilbúinn að nefna einhvern einn sem líklegan morðingja en vitnar í Shakespeare. Nánar tiltekið Hamlet. „Eitthvað er rotið í Danaveldi.“ Ólafur segir að við lok áttunda þáttar hafi böndin beinst mjög sterklega að fyrrverandi tengdaföður Andra lögreglustjóra. „Ef ég væri með þessa rannsókn væri næsta verkefni að kalla á tengdapabbann og spyrja hann nokkurra mjög erfiðra spurninga.“ Ólafur Hauksson, sem í dag er titlaður héraðssaksóknari, hefur stýrt nokkrum af umfangsmestu rannsóknum sem lögregla á Íslandi hefur framkvæmt. Hann treystir sér ekki til að útiloka nokkurn mann á þessu stigi. „Það er marrandi tvist í þessu, en óneitanlega beinast böndin núna að tengdapabbanum.“

Ólafur nefnir líka að hóteleigandinn hafi verið gerður mjög tortryggilegur í síðasta þætti. „Hann var staðinn að því að ljúga. Það boðar ekki gott.“

Ég útiloka engan

Hvað sýnist þér með lögreglumanninn sem Ingvar E. Sigurðsson leikur? Getum við útilokað hann?
„Nei.“ Ólafur er ekki til í að útiloka neinn á þessu stigi máls. „Það er einhver undirsláttur í þessu. Í tilviki lögreglumannsins sem Ingvar leikur þá er ljóst að hann er uppalinn í bænum og ætti að þekkja hann og bæjarbúa inn og út. Ég ítreka bara að á þessum stað í seríunni útiloka ég engan.“

Hann ætlar að horfa á tvöfalda lokaþáttinn á sunnudag og mun tryggja, eins og hann orðar það, „…að ég verði óskiptur í því verkefni“.

Hann viðurkennir að hann hafi ekki náð að tengja saman stúlkuna sem brann inni, í fyrsta þættinum, við aflimaða líkið og brunann á Hrafni bæjarstjóra. „Ég hef bara ekki náð að mynda tengingu þar á milli.“
Ólafur Hauksson segir að ljóst sé að halda verði málinu algjörlega opnu fram á sunnudag að niðurstaða fæst í það.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur fylgst með þáttunum frá upphafi. „Þetta er risamál,“ segir hann skellihlæjandi þegar leitað er til hans með spurninguna; Hver er morðinginn?
„Er það ekki yfirleitt, í svona þáttum, sá sem er ólíklegastur?“ Hann beinir sjónum sínum að lögreglumanninum sem Ingvar E. Sigurðsson leikur. „Þessi ágiskun er ekki byggð á neinu sem bendir til sektar, miklu frekar því að Ingvar er stórleikari og er þarna í aukahlutverki en ekki í aðalhlutverki. Hann hlýtur að eiga eitthvað inni í síðustu tveimur þáttunum.“

Ingvar gæti verið að hefna sín

Hvað finnst þér um framferði lögreglunnar og þeirra vinnubrögð?
„Sumt er ámælisvert í þessu. Til dæmis er yfirheyrslutæknin sem beitt er ekki í samræmi við lög og reglur og yrði ekki liðin hér.“
En nærðu að njóta þáttanna eða fer þetta í taugarnar á þér?
Skellihlær. „Nei. Þetta fer ekki í taugarnar á mér, ég horfi bara á þetta sem afþreyingu og hef gaman af.“
Hvað segir þú um kenninguna að Andri lögreglustjóri sé morðinginn?
„Hann sjálfur?“
Já, að hann hafi verið beittur einhvers konar ofbeldi í æsku þegar hann dvaldi þarna sem barn. Er núna í kjörstöðu til að hefna sín á bæjarbúum?
„Það er nú það sem ég tel að eigi frekar við um persónuna sem Ingvar leikur. Hann er í þeirri stöðu að geta hefnt sín. En sjáum hvað setur. Maður má víst hafa rangt fyrir sér í þessum vangaveltum.“
Hann ætlar að horfa á þáttinn með fjölskyldunni á sunnudagskvöld.

Inger L. Jónsdóttir er lögreglustjóri á Austurlandi. Hún var ekki við þegar blaðamaður hafði samband. Skilaboðin til hennar voru eftirfarandi: Vinsamlegast hringja í DV. Tengist þreföldu morðmáli. Í ljós kom að Inger hafði verið mikið erlendis og misst af þáttunum.

Kona eða tengdapabbinn

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum var erlendis. Hrafnhildur Arnardóttir vinnur á skrifstofunni hjá embættinu.
„Mín kenning er að þetta sé kona. Helstu rökin eru: Af því að enginn heldur að þetta sé kona. Ég gæti trúað að það væri kona bæjarstjórans eða mamma Hjartar,“ sagði Hrafnhildur í samtali við DV.
Svo klykkti hún út með þessu: „Ég skal segja þér, Eggert, að þetta er kona.“

Guðrún Ýr Skúladóttir er lögreglumaður á Suðurnesjum. Hennar kenning er einföld. „Það er tengdapabbinn sem er morðinginn. Lykillinn sem fannst er mjög ákveðið sönnunargagn.“
Guðrún Ýr sagði aðspurð um starfshætti lögreglunnar í þáttunum að margt mætti út á vinnubrögðin setja en sagðist horfa í gegnum fingur sér með það og hún gæti alveg notið þáttanna þrátt fyrir það.
„Já. Auðvitað mun ég fylgjast með lokaþáttunum,“ sagði hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“