fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024

Dagur B. Eggertsson segir aukna hörku í samskiptum – „Sífellt áreiti kallar á þrot“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 16. janúar 2021 07:41

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgarviðtal DV 8. jan. 2020 birtist hér í heild sinni.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er umdeildur að mörgu leyti og jafnvel er látið eins og allt sé honum að kenna. Hann er einbeittur og mjög greindur en um leið óútreiknanlegur. Læknirinn sem varð borgarstjóri.

Dagur er menntaður læknir, hefur skrifað ævisögu, leitt Samfylkinguna í borginni og á fjögur börn með eiginkonu sinni, líknarlækninum Örnu Dögg Einarsdóttur. Háar raddir hafa hermt að hann fari nú að snúa sér að öðrum verkefnum en stjórnmálum enda hefur hann sjálfur ítrekað sagt að hann hafi alltaf hugsað pólitík sem tímabundið starf.

Völva DV og reyndar fleiri miðlar segja að þú sért að hætta?
„Þær hafa nú reyndar sagt það í fimm eða sex ár svo það verður að endingu rétt,“ segir Dagur og hlær.
„Ég er hvorki búinn að ákveða að hætta né ekki hætta,“ segir Dagur sem hefur verið borgarstjóri frá sumrinu 2014. Borgarstjórnar-kosningar fara næst fram í maí 2022 – sama ár og Dagur verður fimmtugur en hann segist ekki vera tilbúinn til að ákveða svo langt fram í tímann hvort hann gefi kost á sér aftur.

Ertu með einhver spennandi plön eða lista – eitthvað sem þú verður að gera áður en þú verður fimmtugur? Eignast mótorhjól og leðurjakka?
„Nei, enginn listi en þetta eru fínar hugmyndir,“ segir hann og hlær. Borgarstjórinn lítur vel út og ekki er á honum að sjá að hann hafi verið illa farinn af fylgigigt sem skerti hreyfi-getu hans og olli miklum kvölum fyrir rúmum tveimur árum. Sterk lyf halda honum gangandi og árangurinn er betri en margir þorðu að vona.Læknir á kvöldin Dagur er elstur þriggja systkina.
„Ég á bróður, Gauta, sem er tveimur árum yngri en ég. Við ólumst upp í IKEA-kojum í Árbænum. Við vorum framan af á sitt hvorri hæðinni.“

Á unglingsárunum lágu höfuðgaflarnir á rúmunum hvor upp að öðrum þegar kojunni hafði verið skipt upp. „Við sofnuðum spjallandi og vöknuðum spjallandi. Gauti bróðir hefur reyndar búið í Bandaríkjunum í áratugi en Valgerður systir, sem er níu árum yngri en ég, býr á Íslandi. Ég var sjálfur kominn hálfa leið að flytja til útlanda. Gámurinn kominn af stað með innbúinu og ég ætlaði að læra smitsjúkdómalækningar en þá bauðst mér að fara í framboð og ég ákvað að prófa,“ segir Dagur sem þó hafði verið viðloðandi stjórnmál frá því á unglingsárum þegar hann tók virkan þátt í stúdentapólitík.

Úr varð að Dagur hóf störf sem borgarfulltrúi í Reykjavík – utan flokka fyrir Reykjavíkurlistann. „Ég vinn þá á bráðamóttökunni framan af með fram borgarstjórninni á meðan við vorum enn þá barnlaus. Þetta var orðið þannig að ég vann í borgarstjórn á daginn og þau kvöld sem ég var ekki á bráðamóttökunni. Svo vann ég líka á bráðamóttökunni um helgar. Þegar börnin komu hætti ég að taka vaktir uppi á spítala en Arna vinnur þar enn.“

Þetta hljómar hræðilega!

„Já, en var að mörgu leyti dásamlegt. Kannski platar maður sjálfan sig alltaf aðeins. Ég var alltaf að halda mér við því ég hugsaði pólitíkina bara sem tímabundið verkefni og geri svolítið enn. Mér finnst enn þá góð tilhugsun að geta farið að vinna sem læknir.“

 

Ráðabrugg mágkonunnar

Dagur segist elska læknastarfið og það sé mjög nærandi að vissu leyti eins og pólitíkin og í raun sé furðu margt skylt með störfunum. „Stór hluti af því að vera læknir gengur út á samskipti og hlustun. Og svo er það vísindamaðurinn í manni. Maður ræktar hann líka hér,“ segir hann og bandar með höndunum út í loftið á skrifstofu sinni í Ráðhúsinu. „Að rýna í stöður og greina, að horfa á tölur og hvað er hægt að gera í ákveðnum aðstæðum.“

Aðspurður um hvort álagið og það að vera á vöktum á móti eiginkonu sinni svo þau sjáist ef til vill ekki nema í mýflugumynd dögum saman hafi ekki verið erfitt, svarar hann: „Það er bara eins og hjá öðru vaktavinnufólki. En á móti kemur að þegar við vorum að safna okkur fyrir brúðkaupinu okkar þá réðum við okkur á Ísafjörð eitt sumar og gátum deilt með okkur vöktum þar og áttum dásamlegan tíma. Það er líka praktískt að því leyti að við hefðum geta ráðið okkur út í heim með þessa alþjóðlegu menntun,“ segir hann.

Dagur og Arna kynntust fyrir rúmum tveimur áratugum, þegar systir Örnu sem stundaði nám í læknisfræði á sama ári og Dagur bauð honum og systur sinni, sem þá var búsett í Svíþjóð, til kvöldverðar. Ráðabrugg systurinnar virðist hafa gengið fullkomlega upp því eftir að Dagur lauk námi beið hann með kandídatsár sitt og flutti út til Örnu þar sem hann tók masterspróf í alþjóðamann-réttindalögum áður en þau fluttu saman aftur til Íslands.

Ekkert að vinna?

Þú varst álitinn vonarstjarna af samnemendum þínum í læknadeildinni. Þóttir jafnvel bera af. Hvað fannst fólki um að þú skyldir hætta sem læknir?

„Ég hlýt að vera betri í minningunni en ég var. Mér fannst ég aldrei standa mig nógu vel af því að ég var oft að atast í ýmsu öðru, en jú, fólki fannst það skrítið,“ segir Dagur og vísar í að hann var mikið í stúdentapólitík, tók eitt ár í heimspeki í Háskólanum samhliða læknisnámi og lærði einnig mannréttindalögfræði.

„Svo er það svo sniðugt að ef maður hittir gamla kollega þá er enn þá verið að spyrja mig: Ertu svo ekkert að vinna?“ segir hann og skellir upp úr. „Þeir telja þá ekki pólitíkina með. Læknisfræðin er þannig að hún gagntekur fólk. Það er líka eðlilegt að spyrja sjálfan sig hvað heldur manni. Og hvar kröftum þínum er best varið hverju sinni. Ég hef aldrei gefið neitt upp á bátinn varðandi læknisfræðina. Ég er klár á því að ef ég myndi ákveða að fara aftur í hana, þó það virki kannski óraunhæft svona löngu seinna, þó það yrði basl, þá hefur maður líka gott af því að breyta til og basla aðeins.“

Þú ert í pólitík. Þú hefur greinilega gaman af basli?

„Það má segja það.“

Dagur B Eggertsson

Dagur Jónsdóttir

Dagur segist ekki hafa verið alinn upp í flokkapólitík. „Það var talað um málefnin frekar en flokka. Mamma var mikill femínisti og pabbi líka. Það var mikið jafnræði á heimilinu og rík réttlætiskennd. Það fann sig enginn í flokki framan af.“

Aðspurður hvort það sé hin femíníska tenging sem geri það að verkum að hann sé einn af þeim fyrstu til að taka upp eiginnafn móður sinnar sem B-ið stendur fyrir – Dagur Bergþóruson Eggertsson.
„Já og nei, það er dálítið skrítin sagan af því.“

Dagur er fæddur í Noregi árið 1972 á þeim tíma er gerður var töluverður greinarmunur á því hvort börn voru fædd innan eða utan hjónabands. „Þegar mamma og pabbi mæta á spítalann á ekki að hleypa pabba með inn til að vera viðstaddur fæðinguna því þau voru ekki gift. Þetta kom þeim verulega á óvart og mamma hysjaði upp um sig og fór á næsta spítala. Þar fékk pabbi að vera með en þó þetta sjúkrahús væri eitthvað frjálslyndara þá mátti ekki skrá mig Eggertsson vegna þess að foreldrar mínir voru ekki giftir. Mamma var ekki sátt við að ég væri skráð Jónsdóttir sem var hennar eftirnafn þannig að eftir jaml, japl og fuður hefur hún það í gegn að ég er skráður Bergþóruson. Svo er ekki talin nein þörf á að breyta því síðar meir þó við flytjum heim og þá er bætt við pabba nafni.“

Svo þú hefðir getað heitið Dagur Jónsdóttir?
„Já, ætli það ekki. Það væri reyndar mjög sérstakt líka. En svo tóku systkini mín líka upp móðurnafnið. Foreldrar mínir giftu sig svo ári seinna og eru enn þá gift.“

 

Átak gegn ofbeldi

Dagur segir starf borgarstjóra vera það skemmtilegasta sem hann hefur sinnt á lífsleiðinni. „Ég elska Reykjavík. Borgir eru svo mikið framfaraafl. Bæði við að skapa lífsgæði og velsæld og verða líka staðir þar sem umburðarlyndi er meira og fjölbreytileiki þrífst frekar og verða þannig gluggi út í heim. Í okkar sögu og bók­menntum er borgin oft tengd ólifnaði og leti, sollurinn, mölin, borg óttans, þegar sannleikurinn er sá að það er kannski hið gagnstæða. Þétt­býlismyndun verður hvergi hraðari en hér á Íslandi og hér vex velmegun. Kvenfrelsi og borgarmyndun eru að mörgu leyti hornsteinar þess góða samfélags sem við búum í. Þá á ég við þessa miklu at­vinnuþátttöku beggja kynja sem þarf til þess að halda uppi þessu samfélagi í þessu fámenni.“

Með stærri borgum safnast líka oft saman aukin vanda­mál og of beldi eykst?

„Í einhverjum skilningi. Ég ólst upp í Reykjavík sem einkenndist af miklu meira ofbeldi, af slagsmálum um helgar og rúðubrotum. Bæði í miðbænum og almennt. Ég held að þessi aukna umræða um ofbeldi sé líka endur­speglun á að við höfnum því á mikið meira afgerandi hátt en áður. Áður var varla haldið sveitaball án þess að það væri slegist. Ef einhver er sleginn núna er það fréttamatur. Ég held því fram að samfélagið sé að þróast í miklu betri átt. Við sjáum það líka, við eigum núna afbrotatölfræði mörg ár aftur í tímann og þar er staðan batnandi í lang­flestum brotaflokkum. Þau brot sem við sjáum aukningu í eru kannski brot sem eru ekki ný en eru að koma upp upp á yfirborðið, eins og kyn­ferðisbrot. Ég er sérstaklega stoltur af átaki borgarinnar og lögreglunnar gegn heim­ilisofbeldi undanfarin ár. Sá vandi hefur allt of lengi verið falinn. Við erum að verða betra og betra samfélag. Það er auðvitað erfitt að fullyrða svona en ég held að við höfum mjög mikla tilhneigingu til þess að líta þannig á að heim­urinn sé að fara versnandi en ef við horfum á tölurnar þá á hið gagnstæða mjög oft við.“

 

Að lifa með óvissunni

Talið berst að sóttvörnum og heimsfaraldrinum. „Sótt varna­yfirvöld og þríeykið eiga hrós skilið. Við brugðumst hratt við, höfum unnið sem ein heild og staðið okkur vel. Í ljós hefur komið að við höfum líka byggt upp sterka innviði sem hafa nýst á óvæntan hátt. Þegar líkamsræktarstöðvar loka eru hér hjóla­ og göngustígar um allt. Og við sjáum að þeir fyllast. Við erum líklega ein tengdasta borg heims með ljós­leiðara inn á öll heimili og mik­illi bandvídd, sem gerir það að verkum að það var ekki mikið um tæknileg vandræði við að sitja fjarfundi eða vinna að heiman. Svo er það plássið, það eru ekki þvögur alls staðar.“

En þó að Ísland hafi staðið sig vel í heimsfaraldrinum er mikið verk fyrir höndum. Dagur segir kreppuna sem nú þrengir að vera ójafnaðar­kreppu í mörgum skilningi. „Hún leggst mjög ójafnt á fólk og ójafnt á atvinnugreinar. Í eftirleiknum verður þetta einnig ójafnaðarkreppa. Stóra verkefnið 2021 verður atvinnu­leysið. Það þarf að horfa til þess að skapa atvinnutæki­færi um leið og tekist er á við vandamál sem steðja að og vinna þannig á fleiri málum samhliða.“

Dagur segir að nú reyni á að læra að lifa með ákveðinni óvissu. „Mér finnst þríeykið hafa kennt okkur af svo mik­illi auðmýkt og yfirvegun lexíu í því hvernig við tökum ákvarðanir og bregðumst við þrátt fyrir óvissu. Það er verið að nota bestu gögnin á hverjum tíma, gögnin eru ekki fullkomin en þau eru að leggja til ákvarðanir og taka ákvarð­anir um leið og þau upplýsa um forsendur ákvarðananna. Og stundum eru svörin „við skulum vona það“ eða „ég veit það ekki“ og það er allt í lagi. Það er plagsiður í pólitíkinni að stjórnmálamönnum – og ég er þar ekki undanskilinn – finnist þeir þurfa að birtast eins og þeir hafi öll svörin og fela veikleikana í framsetn­ingunni eða því sem er verið að gera. Við þurfum að vera opin og auðmjúk en ekki hætta að þora að gera það sem er rétt og taka ákvarðanir, þrátt fyrir óvissu.“

 

Bloomberg og hrósið

Mikið hefur verið rætt um læknismenntun þína í sam­hengi við faraldurinn eftir frægt viðtal við þig hjá Mich­ael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York. Fólk var misánægt með það.„Bloomberg varð það á að hrósa mér óhóflega fyrir smekk Moggans og einhverra fleiri. Í mínum huga var hann að gera mjög fallegan hlut. Hann var að lyfta árangri Ís­lands og Reykjavíkur. Mér leið alveg vandræðalega orðið yfir því að hann skyldi nota mjög stór orð yfir mig persónulega en ég leit þannig á að ég væri að taka við hrósi fyrir hönd rosalega fjölmenns hóps sem hefur lagt nótt við nýtan dag til að tryggja sóttvarnir.“

Dagur segist halda að fólk hafi nú almennt verið ánægt með að Mike Bloomberg væri að vekja athygli á árangri Reykjavíkur og Íslands. „Ástæða viðtalsins var að ég hef setið alþjóðlega borgar­stjórafundi í gegnum fjar­fundabúnað sem hann hefur staðið fyrir í gegnum farald­urinn. Þar hafa verið sér­fræðingar Harvard og John Hopkins-spítalans og þekktir gestir eins og Obama og aðrir fyrrverandi forsetar, smitsjúkdómalæknirinn Fauci og fleiri. Ég hef vakið máls á því á þessum fundum hvað umfangsmikil sýnataka, smitrakning og fljót viðbrögð sóttvarnalæknis og almannavarnakerfisins á Íslandi hefur gefið okkur góða yfirsýn og stuðlað að góðum árangri í baráttunni við veiruna. Þríeykið hefur líka verið frábært í hvað þau hafa verið opin og auðmjúk í miðlun upplýsinga. Og heilbrigðiskerfið, sveitarfélögin og borgin hafa sannarlega staðið sína vakt. Á meðan hafa bandarískir borgarstjórar sagst vera að fljúga blindflug í gegnum faraldurinn og árangurinn er eftir því. Um allt þetta var fjallað í viðtalinu við Bloomberg og sérstaklega afrek og framgöngu þríeykisins þótt klippan sem svo birtist hafi aðeins verið brot af lengra samtali og endurspeglað hvað þeim fannst áhugavert að ég væri læknir í embætti borgarstjóra í þessum faraldri.“

Erfitt að spá um barnafjölda

Kosningaloforðið sem ekki hefur verið uppfyllt og reglulega skapast heitar umræður um er loforðið um að öll börn 18 mánaða og eldri skuli komast að á leikskólum í Reykjavík. „Við lofuðum því að ná að brúa bilið [vísað er til þess bils sem myndast á milli þess er fæðingarorlofi lýkur og dagforeldrar eða ungbarnaleikskólar taka við, innsk. blm.] innan sex ára. Þau eru ekki liðin. Við höfum þegar sett milljarð í fjárfestinguna og erum búin að bæta starfsaðstæður á leikskólum til þess að laða að starfsfólk á leikskólana. Þetta erum við að reyna að gera jöfnum höndum og kalla eftir því að fæðingarorlofið sé lengt – sem nú er komið. En það sem hefur komið okkur á óvart er hversu erfitt er að spá fyrir um barnafjöldann og þá sérstaklega eftir hverfum.“

Dagur segir sum hverfi vera þaulsetin á meðan þó nokkuð er laust af plássum í Grafar-vogi sem dæmi. Hann segir verkefnið þó vera á býsna góðu skriði en enn sé nokkuð í land. Bætt hafi verið við 7-9 ungbarnadeildum á ári síðustu ár, verið sé að byggja nýja leikskóla og teikna viðbyggingar. „Það er líka verið að skoða það að bæta við inntöku í leikskóla og veita foreldrum betri yfirsýn yfir hvar pláss séu laus gegnum rafrænar umsóknir.“

Dagforeldrar hafa bent á að með því að lengja fæðingarorlof og hefja inntöku á leikskóla fyrr verði þörfin fyrir dagforeldra ekki lengur til staðar. „Ég held að það verði alltaf þörf fyrir dagforeldra og það séu alltaf foreldrar sem velji þann möguleika en við sjáum á okkar könnunum að flestir kjósa að komast inn með börnin sín yngri á leikskóla og ná samfellu þar. Þessvegna hefur það verið stefnan en við teljum að góðir faglegir dagforeldrar eigi sér framtíð.“

Bankarnir héldu of lengi í sér

Talið berst aftur að borginni sem virðist vera ein af stóru ástunum í lífi Dags á eftir fjölskyldunni. Honum er umhugað um að borgin sé eftirsóknarverður staður fyrir komandi kynslóðir og fjölbreyttur hópur fólks búi þar og starfi.
„Hlutverk borgarinnar er að tryggja að það byggist ekki upp ein tegund af húsnæði fyrir eina tegund af fólki. Bankarnir héldu svolítið að sér höndum síðastliðin tvö ár því þeir töldu að það væri á leiðinni offramboð inn á markaðinn. En reynslan hefur sýnt að eignir um alla borg hafi selst býsna vel og að bankarnir hafi haldið of lengi í sér. Sem betur fer er verkalýðshreyfingin á fullu að byggja og stúdentar á fullu að byggja og allir þessir samstarfsaðilar borgarinnar líka svo það er von á fjölbreyttu húsnæði.“

Dagur segir það einnig lykilatriði að halda áfram að endurskipuleggja og fegra svæði sem hafa verið í niðurníðslu. „Hverfisgatan er gott dæmi. Það er nánast eins og að húsin hafi málað sig sjálf eftir að götunni var breytt. Svo hafa bæst við einar 500 íbúðir á Hverfisgötu frá Hlemmi niður að Hafnartorgi í tengslum við þróun borgarinnar þar og núna erum við að fara í niðurnídda hverfiskjarna í Breiðholti og erum búin að kaupa upp í Arnarbakka og Völvufelli kjarnana sem hafa verið þar í niðurníðslu í áratugi.“

Kjarnarnir verði annars vegar stúdentaíbúðir og hins vegar leikskóli. Allt þér að kenna?
Það er stundum talað eins og það sé allt þér að kenna sem er ábótavant í borginni.„Ef maður tekur það jákvæða út úr þessu þá endurspeglar það ákveðna trú á manni og aðgengileika. Þú getur sett nafnið mitt á Facebook eða Twitter og þá gerist eitthvað. Svo er það stundum eins og að borgin eigi að gera allt. Mér finnst til dæmis þessi fjöldahreyfing plokkara frábært dæmi um að fólk tekur málin í eigin hendur. Jón Gnarr sagði oft þegar hann var borgarstjóri: „Um leið og einhver labbar fram hjá hundakúk þá tekur hann hann ekki upp heldur tekur mynd og taggar mig.“
Það er hluti af því að búa í borg að við eigum hana saman. Ef maður sér einhverja óreiðu er það ekki alltaf mamma sem á að koma og taka til.“

Dagur segir að þegar kemur að samskiptamiðlum og þrýstingi á að fá svör á mínútunni þá snúi sá nýi veruleiki alls ekki aðeins að borgarstjóra eða fólki í stjórnmálum.
„Þegar ég tala við kennara á kennarastofum þá lýsa þeir mikilli breytingu í þessu á fáum árum. Við höfum tamið okkur ákveðna hörku í samskiptum og skilaboðum og þar eiga samfélagsmiðlar áreiðanlega hlut að máli. Það er mjög stuttur kveikiþráður og miklar kröfur um svör strax, jafnvel svör sem er ekki hægt að gefa fljótt. Harkan í samskiptum er oft ekki gagnleg fyrir það sem þeim er ætlað, eins og að búa barni gott námsumhverfi eða að ná fram betri þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Ef við förum of geyst inn í samskiptin þá fáum við kannski bara varnarviðbrögð hinum megin sem leiðir síður til einhvers sem er gott.“

Sífellt áreiti

Er fólk ekki bara komið að þolmörkum á mörgum af þessum stöðum? „Jú, og ef þú talar við hvaða kennara sem er eða heilbrigðisstarfsmann þá er það þessi nýi veruleiki, að vera stöðugt aðgengilegur, eða líða eins og þú eigir stöðugt að vera aðgengilegur í gegnum sms, tölvupóst eða Messenger allan sólarhringinn. Þú getur ekki bara gengið út klukkan fjögur. Eða fólki líður þannig. Við þurfum að ræða þetta. Fáum við betri kennara ef að við segjum að það sé vinnureglan að þeir eigi alls ekki að svara eftir klukkan fjögur? Ég er ekki með svörin en mér finnst svo margir vera að lýsa neikvæðri upplifun og einhvers konar þroti þessa sífellda áreitis sem við berum sameiginlega ábyrgð á.“

Hann segir þetta búa til álag á stóran hluta samfélagsins. „Fólk samþykkir kannski frekar að borgarstjórinn svari ekki öllum stundum en aðrir. Það er tilhneiging hjá mörgum að reyna að afgreiða allt strax til að það safnist ekki upp og verði að aukinni angist. Þetta á við um margar starfsstéttir að ég held. Þegar við erum að tala um kulnun, þrot, örmögnun, ofurpabbann og ofurmömmuna, þá er þetta leyndur partur af því og er í raun risastórt mál í hinum daglega veruleika.“

Það hlýtur eitthvað ofur að vera í gangi heima hjá þér. Stór störf og fjögur börn?
„Ég grínast stundum með það við Örnu að ég muni lítið eftir því þegar börnin voru yngri. Við vorum alltaf svo þreytt. Það yngsta er núna níu ára og elsta 16 ára svo þau eru orðin mikið sjálfbjarga. Það væri örugglega áskorun að vera gift mér ef ég væri að vinna sem læknir en það er örugglega oft hræðilegt að vera gift borgarstjóra. Ef það er eitthvað ofur á okkar heimili þá er það Ofur-Arna. Veruleikinn reynir á hjá okkur eins og öðrum og við eins og aðrir foreldrar viljum gera það besta fyrir börnin okkar. Þannig viljum við hafa það en það býr líka til mikið álag hjá mörgum. Ég hef hitt fleiri en einn og fleiri en tvo sem hafa laumað því út úr sér að mikið hafi þetta verið notaleg aðventa. Ekki full dagskrá. Þetta heyrir maður sérstaklega hjá barnafólki. Kannski er þetta eitt af því sem við eigum að ræða sem lærdóm af Covid. Það er rosaleg keyrsla á lífinu hjá ótrúlega mörgum,“ segir Dagur og bætir við að það sé spurning hvort við getum þetta til lengdar.

En hvað með álagið á Dag sjálfan?„Ég er á sterkum gigtarlyfjum og þarf að passa mig. Einn dagur í viku er lyfjadagur. Þá fæ ég nokkurs konar flensueinkenni og hálfgert slen eftir sprauturnar. En það er svo merkilegt hvað maður aðlagast öllu. Í upphafi gat enginn svarað því hvernig myndi ganga að samhæfa starf borgarstjóra og þessi veikindi. Ég er í grunninn mjög þakklátur fyrir þann stað sem ég er á í dag. Ég get ekki beðið um meira. Einhverja daga fyrir tveimur árum hefði ég vonaðist til þess að vera laus við lyfin á þessum tímapunkti en þó að það hafi ekki gengið eftir þá virka þau vel og það er það sem skiptir máli,“ segir borgarstjórinn í Reykjavík bjartsýnn á framhaldið.

Dagur B Eggertsson – mynd: Stefán K
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Roy Keane urðar yfir Garnacho – „Fáðu þér aðra vinnu“

Roy Keane urðar yfir Garnacho – „Fáðu þér aðra vinnu“
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Uppfært: Konan er fundin heil á húfi

Uppfært: Konan er fundin heil á húfi
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Ný könnun: Viðreisn komin við hlið Samfylkingar – Miðflokkurinn að kólna

Ný könnun: Viðreisn komin við hlið Samfylkingar – Miðflokkurinn að kólna
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Björn ráðinn aðstoðarþjálfari Víkings

Björn ráðinn aðstoðarþjálfari Víkings
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

27 faldur hagnaður á einbýlishúsi unga öryrkjans – „Eitt skýrasta dæmi óréttlætis sem hægt er að hugsa sér“

27 faldur hagnaður á einbýlishúsi unga öryrkjans – „Eitt skýrasta dæmi óréttlætis sem hægt er að hugsa sér“
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Kim Kardashian segist sjá „alveg ein“ um uppeldi barnanna

Kim Kardashian segist sjá „alveg ein“ um uppeldi barnanna
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Orðið á götunni: Trúverðugleikinn horfinn – spilling og kvenfyrirlitning – eru einhverjar afleiðingar?

Orðið á götunni: Trúverðugleikinn horfinn – spilling og kvenfyrirlitning – eru einhverjar afleiðingar?