Undanfarin misseri hefur verið rætt töluvert hér á landi um vaxandi ofbeldi og agaleysi meðal barna og ungmenna. Alvarleg ofbeldisverk sem framin hafa verið af ungmennum hafa verið til umfjöllunar í fréttum. Börn og ungmenni eru sögð aldrei hafa verið jafn agalaus og ástandið í þeirra málum sagt fara hríðversnandi. Þetta er þó alls ekki í fyrsta sinn sem fjallað hefur verið og rætt um ástand af þesssum toga. Ágæt heimild um það er ítarleg fréttaskýring Kristínar Marju Baldursdóttir sem birt var í Morgunblaðinu í nóvember árið 1994 en Kristín gat sér síðar gott orð fyrir ritun skáldverka.
Umfjöllunin ber yfirskriftina Rofin tengsl. Kristín ræddi við fjölda sérfræðinga og foreldra og helstu niðurstöðurnar úr þeim umræðum voru þær að vanda og bágborna stöðu margra íslenskra barna og unglinga mætti helst rekja til rofinna tilfinningatengsla við uppalendur þeirra, vegna aðallega vinnuálags, lífsgæðakapphlaups og skilnaða.
Þetta eru ekki alveg ókunnar skýringar nú 30 árum síðar þegar önnur kynslóð barna og ungmenna er komin fram á sjónarsviðið og glímir við einmitt sams konar vanda.
Í upphafi umfjöllunar Kristínar er vísað til þess að áhrif ofbeldisfulls kvikmynda- og sjónvarpsefnis hafi stuðlað að auknu ofbeldi meðal barna og ungmenna og að rannsóknir styðji þá niðurstöðu. Í dag eru hins vegar áhrif samfélagsmiðla og óæskileg myndefnis sem þar er dreift og víðar í netheimum sögð ýta undir ofbeldið.
Fram kemur einnig í umfjölluninni að auk ofbeldis séu uppi áhyggjur af lauslæti, ölvun, agavandamálum og hárri slysatíðni.
Unglingadrykkja hefur verið sögð hafa minnkað síðan þessi umfjöllun birtist og dregið hefur úr barneignum meðal unglinga en áhyggjur eru enn uppi af hárri tíðni kynsjúkdóma meðal unglinga og eftir sem áður eru agavandamálin sögð alvarleg og útbreidd.
Á þessum árum var mikið rætt um óæskilega hópamyndun meðal unglinga, sérstaklega í miðborg Reykjavíkur um helgar, en í umfjöllun Kristínar kemur fram að fjöldi unglinga þar um helgar hafi oft verið hátt í 5.000.
Enn í dag er einmitt verið að ræða og vinna gegn hópamyndun unglinga á höfuðborgarsvæðinu en hópamyndun í þeim mikla mæli sem tíðkaðist á 10. áratug síðustu aldar virðist vera liðin tíð. Hin óæskilega hópamyndun virðist nú eiga sér einkum stað í Breiðholti, a.m.k. ber mest á umræðu um hana þar, en ekki miðborginni eins og var á þessum tíma.
Í umfjölluninni frá 1994 er greint frá því að lögreglan í Reykjavík hafi þurft að handtaka 1.000 unglinga á ári í miðbænum vegna ölvunar, slagsmála, líkamsárása og skemmdarverka. Á árunum 1992 og 1993 hafi börn og unglingar undir 18 ára aldri verið grunuð um eða kærð fyrir 1.670 afbrot. Þar hafi verið um að ræða meðal annars hnupl, ölvun á almannafæri, eignaspjöll, þjófnaði, innbrot, líkamsárásir og fíkniefnamál.
Eins og áður segir hefur verið rætt undanfarin misseri um að ofbeldi sem börn og ungmenni fremja sé að verða sífellt alvarlegra og eins og kunnugt er varð unglingsdrengur unglingsstúlku að bana á síðasta ári í Reykjavík. Það má því segja að miðað við það sé ofbeldið í dag alvarlegra en það var fyrir 30 árum þegar umfjöllun Kristínar birtist. Árið áður, 1993, hafði þó til að mynda unglingsstúlka orðið fyrir alvarlegri árás tveggja annarra stúlkna, í miðborg Reykjavíkur, með þeim afleiðingum að hún hlaut varanlegan skaða af. Vakti árásin mikinn óhug á þessum tíma.
Í umfjöllun Kristínar má lesa setningu sem gæti allt eins hafa verið skrifuð í dag:
„Ofbeldisverkum hefur fjölgað og þau verða sífellt alvarlegri.“
Þar er einnig málsgrein sem ætti að hljóma nokkuð kunnuglega nú 30 árum síðar:
„Þótt engar tölur séu til um öll þau agavandamál barna og unglinga sem eru á heimilum og í skólum landsins, er þjóðinni líklega fullkunnugt um flest þeirra. Agaleysið kemur ekki eingöngu fram í ofbeldi og einelti, heldur líka í framkomu íslenskra barna sem oft er lýst sem frekju, yfirgangi og vankunnáttu hvað smertir almenna mannasiði.“
Kristín spyr síðan spurningar sem margir eru að spyrja í dag:
„Hver er skýringin á þessari stöðu íslenskra barna og unglinga? Hvað er að gerast á íslenskum heimilum?“
Með þessari upprifjun á umræddri umfjöllun sem Morgunblaðið birti árið 1994 er ekki verið að gera tilraun til að bera saman ofbeldi, agavandamál og annað slíkt meðal barna og unglinga þá og hvernig þessum málum er háttað í dag. Umfjöllunin er hins vegar ágæt heimild um að umræðan og áhyggjurnar af ofbeldinu, agaleysinu og öðrum vandamálum þessa þjóðfélagshóps, sem ber svo mikið á í dag, voru ekki á ósvipuðu stigi fyrir 30 árum.