fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fókus

Tímavélin – Kvikmyndahúsin sem Íslendingar minnast enn með hlýju

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 11. júní 2023 11:00

Gestir Háskólabíós. Mynd/Spessi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í liðinni viku var tilkynnt að kvikmyndasýningum yrði hætt í Háskólabíó frá og með næstu mánaðamótum. Kvikmyndir hafa verið sýndar í húsinu síðan það var tekið í notkun árið 1961.

Af þessu tilefni hafa mörg minnst, með hlýju, kvikmyndasýninga úr Háskólabíó og ljóst er að þar hefur margt fólk hlotið sitt kvikmyndalega uppeldi. Mörg hver sem ólust upp í nágrenni Háskólabíós voru þar tíðir gestir.

Mörg kvikmyndahús hér á landi hafa farið sömu leið og Háskólabíó og endað á spjöldum sögunnar og eflaust má ætla að margir Íslendingar minnist stunda í þeim húsum með mikilli hlýju. Í flestum tilfellum hefur ný starfsemi tekið við í viðkomandi byggingum en í einhverjum hefur sú bygging sem hýsti kvikmyndahúsið verið rifin. Það er ekki úr vegi að minnast nokkurra kvikmyndahúsa sem voru eitt sinn starfandi. Hér verða því rifjuð upp lítil brot úr sögu þeirra. Vart þarf að taka fram að þessi listi er langt frá því tæmandi.

Borgarbíó

Borgarbíó á Akureyri var opnað að Hólabraut þar í bæ í byrjun árs 1956. Það var Góðtemplarareglan í bænum sem stóð upphaflega fyrir rekstrinum og allur ágóði rann til starfsemi hennar. Ætlun reglunnar var að bíóið myndi nýtast æsku bæjarins til að styrkja andlegan þroska sinn. Reglan hafði áður staðið fyrir kvikmyndasýningum í öðrum húsum í bænum, frá árinu 1946, og hét bíóið þá Skjaldborgarbíó. Fram kemur í umfjöllun Vísis frá 2022 að Borgarbíó hafi verið stækkað árið 1986 en við opnunina, 30 árum áður, voru þar sæti fyrir rúmlega 300 manns.

Sena tók við rekstrinum 2008 en 2022 var ákveðið að hætta kvikmyndasýningum í húsinu vegna samdráttar í aðsókn. Ætlunin var að rífa húsið en samkvæmt fréttum norðlenska vefmiðilsins Kaffið var í febrúar síðastliðnum opnaður leikjasalur í húsinu.

Þegar tilkynnt var að Borgarbíói yrði lokað spurði fréttastofa RÚV nokkra íbúa Akureyrar hvað þeim fyndist um það. Einn þeirra svaraði að honum litist mjög illa á það hann hefði verið gestur Borgarbíós í mörg ár og það væri missir fyrir bæinn af þeim sjarma sem það hefði.

Borgarbíó

Austurbæjarbíó – Bíóborgin

Austurbæjarbíó við Snorrabraut í Reykjavík var einnig kallað Austurbær. Húsið var opnað 1947 en nokkrir athafnamenn í Reykjavík höfðu staðið fyrir byggingu þess. Austurbær var lengst af í senn kvikmynda- og samkomuhús. Þegar ekki voru sýndar kvikmyndir þar voru haldnir tónleikar eða annars konar samkomur. Ein frægasta hljómsveitin sem hélt tónleika í húsinu var The Kinks frá Bretlandi.

Á árunum 1955-1975 var skemmtistaðurinn Silfurtunglið rekinn í húsinu. Þar tróðu m.a. upp hin ástsælu Ellý Vilhjálms og Raggi Bjarna.

Sambíóin tóku við rekstri kvikmyndahússins árið 1987 og breyttu nafni þess í Bíóborgin en enn var eitthvað um samkomuhald í húsinu.

Flestar kvikmyndasýningar og aðrir viðburðir í Austurbæ vöktu, að minnsta kosti sæmilega mikla, gleði hjá fólki en ekki í öllum tilfellum. Um miðjan október 1970 var hin umdeilda kvikmynd Grænhúfurnar (e. The Green Berets) tekin til sýninga. Myndin var í leikstjórn John Wayne og lofsamaði mjög stríðsrekstur Bandaríkjanna í Víetnam. Samkvæmt fréttum dagblaðsins Vísis reyndu mótmælendur úr Víetnamhreyfingunni að stöðva sýningu myndarinnar og hefta för bíógesta. Einhver skemmdarverk voru unnin og til átaka kom þegar lögregla fjarlægði mótmælendur.

Kvikmyndasýningum var hætt í Bíóborginni árið 2002 og var nafnið Austurbær formlega tekið upp aftur. Var þessi breyting m.a. skýrð með því að viðhald hefði reynst vandasamt. Austurbær varð fyrst og fremst tónlistar- og leikhús. Um tíma var þar rekin ferðamannasýning en í dag er Austurbær leigður út fyrir viðburði af ýmsu tagi og þar er einnig rekinn pílukaststaður.

Frá tónleikum bresku hljómsveitarinnar The Swinging Blue Jeans í Austurbæjarbíó 1965/Skjáskot af timarit.is

Félagsbíó

Árið 1955 hófust kvikmyndasýningar í samkomuhúsi við Túngötu  í Keflavík sem var í eigu Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis. Fékk húsið þá nafnið Félagsbíó. Sérstakt hlutafélag sá um reksturinn en Verkalýðsfélagið átti meirihluta hlutafjár. Tímaritið Faxi sagði frá þessum tímamótum í menningarlífi bæjarins. Þar kom fram að öllum ágóða sem kynni að verða af rekstrinum yrði varið til menningarmála. Samhliða upphafi kvikmyndasýninga var leiksvið hússins lagfært fyrir leiksýningar.

Félagsbíó varð aðsetur Leikfélags Keflavíkur og var næstu áratugi því í senn kvikmyndahús, leikhús og tónleikahús en var einnig nýtt undir annars konar samkomur t.d. baráttufundi Verkalýðsfélagsins. Eftir stækkun, sem lokið var 1961, voru sæti fyrir tæplega 400 manns í Félagsbíó. Meðal eftirminnilegra leiksýninga Leikfélagsins í Félagsbíó eru hinar svokölluðu Keflavíkurrevíur en í þeim var varpað gamansömu ljósi á bæjarlífið. Revíurnar voru yfirleitt sýndar mörgum sinnum fyrir fullu húsi.

Þegar komið var fram á tíunda áratug síðustu aldar fór kvikmyndasýningum fækkandi í Félagsbíó. Eftir að Sambíóin eignuðust hitt kvikmyndahúsið í Keflavík, Nýjabíó við Hafnargötu, og gerðu á því gagngerar endurbætur, árið 1998, þótti ekki lengur grundvöllur fyrir rekstri Félagsbíós. Einnig höfðu breytingar almennt á rekstri kvikmynda- og samkomuhúsa þar áhrif. Leikfélag Keflavíkur hafði fært sig, árið 1997, yfir í húsnæði við Vesturbraut sem fékk nafnið Frumleikhúsið.

Félagsbíó var selt 1999 og hefur síðan einkum verið nýtt til verslunarreksturs en í dag er þar ein af verslunum Bónus. Víst er að margir Keflvíkingar sem minnast gleðistunda í Félagsbíó harma að það hafi ekki verið áfram nýtt til einhvers konar menningarstarfsemi.

Félagsbíó/Skjáskot timarit.is

Hafnarbíó

Hafnarbíó í Reykjavík var staðsett í bragga á horni Barónsstígs og Skúlagötu. Það tók til starfa á annan í jólum 1948 og það var samnefnt hlutafélag sem stóð fyrir rekstrinum. Í frétt Morgunblaðsins frá þessum tíma kemur fram að Nýja-bíó hafi áður haft aðsetur í bragganum en áður en Hafnarbíó tók við honum hafi hann verið lagfærður mikið og þar hafi verið sæti fyrir 463 manns.

Ýmis önnur menningarstarfsemi fór fram í Hafnarbíó. Þar voru haldnir tónleikar ekki síst af pönk- og rokkhljómsveitum. Á vefsíðunni glatkistan.com segir að hlutur pönkhljómsveitarinnar Sjálfsfróun í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík hafi verið tekinn upp í Hafnarbíó. Atriði sveitarinnar í myndinni er einna frægast fyrir að í lok þess eyðlilagði söngvarinn og bassaleikarinn Bjarni Þórir Þórðarson (sem var kallaður Bjarni móhíkani) bassa. Um tíma hafði Alþýðuleikhúsið aðsetur í húsinu.

Ein umdeildasta kvikmyndin sem sýnd var í Hafnarbíó var sænska kynfræðslumyndin Táknmál ástarinnar. Hún var sýnd árið 1970 og vakti miklar deilur. Deilt var um myndina og gildi hennar næstu vikurnar á síðum dagblaðanna. Hafnarbíó var nokkuð þekkt fyrir að sýna kvikmyndir sem þóttu í djarfari kantinum.

Þegar komið var fram á níunda áratug síðustu aldar fór kvikmyndasýningum fækkandi í Hafnarbíó en það var enn nýtt til tónleikahalds og leiksýninga.

Bragginn þótti hins vegar orðinn barn síns tíma og var rifinn vorið 1983 til að rýma fyrir íbúðarhúsnæði.

Hafnarbíó/Skjáskot Facebook

Tónabíó

Tónabíó við Skipholt í Reykjavík tók til starfa í apríl 1962. Húsið var í eigu Tónlistarfélags Reykjavíkur en auk kvikimyndasýninga var Tónlistarskóli Reykjavíkur til húsa í Tónabíó og það var einnig hugsað fyrir smærri tónleika. Samkvæmt frétt Alþýðublaðsins um opnun Tónabíós voru þar 482 sæti. Fyrsta kvikmyndin sem sýnd var í Tónabíó var hin hugljúfa gamanmynd Enginn er fullkominn (e. Some Like It Hot) með helstu kvikmyndastjörnu þessara ára, Marilyn Monroe, í aðalhlutverki.

Tónabíó var lengi vel heimili James Bond á Íslandi en það var með umboð hér á landi fyrir fyrirtækið United Artists sem var framleiðandi kvikmyndanna um þennan frægasta njósnara veraldar.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um sögu Tónabíós, frá 2008, kemur fram að á mektarárum þess hafi ekki verið óalgengt að uppselt hafi verið á sýningar og að sætanýtingin hafi verið ein sú besta í kvikmyndahúsum Reykjavíkur. Tónabíó þótti almennt sýna sérstaklega vandaðar kvikmyndir en það var vissulega smekksatriði og sumar myndirnar sem sýndar voru þóttu vera langt frá því að rata á lista yfir bestu kvikmyndir sögunnar.

Hugmyndir um að stækka Tónabíó voru ræddar í byrjun níunda áratugarins þegar fjölsala kvikmyndahús komu til sögunnar. Ekkert varð hins vegar af því.

Tónabíó var selt 1986 félagi í eigu nokkurra kvikmyndahúsa í Reykjavík. Kvikmyndasýningum var haldið áfram en félagið þraut örendið árið eftir. Tónabíó var selt og kvikmyndasýningum hætt. Í staðinn var húsið einkum nýtt fyrir bingó, þar til á síðasta ári.

Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson og Erlingur Björnsson á Íslandsfrumsýningu bítlamyndarinnar A Hard Day´s Night í Tónabíó árið 1964/Skjáskot timarit.is

Stjörnubíó

Stjörnubíó við Laugaveg í Reykjavík hóf starfsemi haustið 1949 eftir að tafir höfðu orðið á byggingu þess vegna skorts á byggingarefni. Tók það 500 manns í sæti.

Stjörnubíó var lengst af fjölskyldufyrirtæki. Hjalti Lýðsson stýrði rekstrinum frá upphafi til dauðadags árið 1976. Hann og fjölskylda hans hafði þá eignast bíóið alfarið og eftir fráfall Hjalta hélt fjölskyldan rekstrinum áfram.

Eldur kom tvisvar upp í Stjörnubíó. Fyrst árið 1954 og í seinna skiptið í lok árs 1973. Svo miklar voru skemmdirnar í kjölfar síðari eldsvoðans að byggja þurfti bíóið upp nánast frá grunni. Sætum var þá fækkað eilítið en fjölgað á ný með tilkomu viðbótar sýningarsalar, í viðbyggingu, árið 1982.

Nokkuð var um að íslenskar kvikmyndir væru frumsýndar í Stjörnubíó. Þar á meðal var eina íslenska kvikmyndin sem tilnefnd hefur verið til Óskarsverðlaunanna, í flokknum besta erlenda kvikmyndin, Börn Náttúrunnar en hún var frumsýnd 1991. Eins og kunnugt er eru eldri borgarar aðalpersónur kvikmyndarinnar en það vakti sérstaka athygli í fréttum að óvenju hátt hlutfall gesta sem fóru að sjá hana voru eldri borgarar.

Þegar Börn Náttúrunnar hafði verið sýnd í Stjörnubíó og fleiri kvikmyndahúsum í heilt ár samfellt höfðu 35000 manns séð hana. Það þótti leikstjóranum Friðriki Þór Friðrikssyni viðunandi.

Fyrirtækið Skífan keypti rekstur Stjörnubíós um síðustu aldamót og komst að þeirri niðurstöðu að framtíð kvikmyndahúsa væri í verslanamiðstöðvum. Kvikmyndasýningum í húsnæðinu á Laugavegi var hætt 2002 og Stjörnubíó var flutt í Kópavog og fékk nafnið Smárabíó.  Húsnæðið var rifið og bílastæðahús byggt í staðinn en viðbyggingin stendur enn og var breytt í íbúðarhúsnæði.

Leikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson og aðalleikonan Sigríður Hagalín á frumsýningu á Börn Náttúrunnar í Stjörnubíó/Skjáskot timarit.is

Bæjarbíó

Í byrjun árs 1945 var nýtt ráðhús við Strandgötu í Hafnarfirði tekið í notkun. Í húsinu var meðal annars kvikmyndasalur sem rúmaði 325 manns. Í frétt Þjóðviljans um ráðhúsið kom fram að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði ákveðið að hagnaði af rekstri kvikmyndahússins yrði varið til byggingar og rekstur þess sem þá var kallað gamalmennahæli. Ákveðið var að nefna salinn Bæjarbíó.

Frá upphafi var Bæjarbíó einnig nýtt fyrir aðra menningarviðburði eins og t.d. tónleika og leiksýningar.

Í umfjöllun Reykjavíkur-Vikublaðs, frá 2015, um sögu Bæjarbíós kemur fram að upp úr 1950 hafi bíóið hafið sýningar á kvikmyndum sem voru fluttar inn til landsins sérstaklega til sýninga þar. Þessar kvikmyndir þóttu afar vandaðar og var mikið um að Reykvíkingar legðu á sig ferðir suður til Hafnarfjarðar til að heimsækja Bæjarbíó og önnur kvikmyndahús í bænum.

Margir Hafnfirðingar eiga ljúfar minningar úr Bæjarbíó. Einn þeirra er listamaðurinn síungi Þórhallur Sigurðsson, best þekktur sem Laddi. Hann var tíður gestur í Bæjarbíó á æskuárum sínum. Þegar hann var heiðraður, á síðasta ári, með svokölluðum hjartasteini sem var komið fyrir steinsnar frá aðaldyrum Bæjarbíós fór hann ekki í grafgötur með, í viðtölum við fjölmiðla, að bíóið væri honum kært.

Í viðtali við RÚV sagði Laddi meðal annars frá því að oft þegar sýningum kvikmynda í Bæjarbíó, sem hann var viðstaddur, lauk hefði hann, ásamt félögum sínum, hlaupið um nágrennið og leikið eftir atriðin úr myndunum. Því miður er þetta viðtal ekki lengur aðgengilegt á vef RÚV.

Þegar sjónvarpið kom til sögunnar og möguleikum til afþreyingar fór fjölgandi fór aðsókn að kvikmyndasýningum í Bæjarbíó minnkandi. Leikfélag Hafnarfjarðar nýtti aðstöðuna talsvert og á áttunda áratugnum tók Laugarásbíó við kvikmyndasýningunum í nokkur ár. Á síðustu tveimur áratugum 20. aldar var hins vegar lítil starfsemi í Bæjarbíó þar til að Kvikmyndasafn Íslands fór að nýta það um tíma til sýninga á eldri kvikmyndum.

Á undanförnum árum hefur Bæjarbíó hins vegar gengið í endurnýjun lífdaga sem menningarhús. Það er ekki nýtt sem kvikmyndahús lengur en nú fara þar reglulega fram ýmis konar viðburðir eins og til dæmis tónleikar og uppistandssýningar.

Bæjarbíó þegar það var opnað 1945/Skjáskot timarit.is

Kópavogsbíó

Árið 1959 var reist Félagsheimili Kópavogs að Fannborg. Bæjarstjórn ákvað að reka kvikmyndahús í nýja félagsheimilinu en margs konar félags- og menningarstarf, af öðru tagi, fór þar einnig fram. Í fréttum dagblaða af opnun Kópavogsbíós kemur ekki fram hvert markmiðið var með rekstri kvikmyndahússins en væntanlega hefur menningarlegt gildi haft eitthvað að segja. Í umfjöllun DV, frá 2004, kemur fram að sæti hafi verið fyrir 285 manns í húsinu.

Fyrsta myndin sem sýnd var í Kópavogsbíó var franska gamanmyndin Frou-Frou sem bar á íslensku titilinn Úr lífi Parísarstúlkunnar. Hún var sögð létt og skemmtileg en bönnuð börnum innan 16 ára.

Það var ekki óalgengt að sjá mætti vandaðar kvikmyndir í Kópavogsbíó sem ekki voru í boði í kvikmyndahúsum í Reykjavík. Leikfélag Kópavogs nýtti húsið einnig sem leikhús og setti upp leiksýningar sem oft var gerður góður rómur að.

Kópavogsbíó var einnig mikið nýtt til tónleikahalds og var um tíma vagga íslenskrar pönktónlistar. Pönksveitin Fræbbblarnir spilaði í fyrsta sinn opinberlega í Kópavogsbíó og þar voru haldnir fjölmargir pönktónleikar, einkum á árunum 1979-1982. Utangarðsmenn frumfluttu lagið Rækjureggí (Ég er löggiltur hálfviti) á tónleikum í Kópavogsbíó.

Eftir rekstrarerfiðleika var árið 1975 tekin ákvörðun um að hætta reglulegum kvikmyndasýningum í Kópavogsbíó. Húsið var eftir sem áður nýtt fyrir leikfélagið, tónleika og aðra menningarstarfsemi. Hugmyndir voru uppi um að einkaaðilar myndu taka að sér kvikmyndasýningarnar en ekkert varð af því.

Menningarstarfsemi hélt áfram í húsinu fram til 2007. Kópavogsbær hafði einnig boðið upp á veitingaþjónustu í húsinu sem bar sig ekki fjárhagslega. Leikfélagi Kópavogs var útvegað nýtt húsnæði og félagsheimilinu var breytt í skrifstofuhúsnæði fyrir Kópavogsbæ. Þær skrifstofur voru færðar annað árið 2017. Síðustu fregnir herma að til standi að rífa húsnæðið en ástand þess ku ekki vera gott. Það var þó um tíma nýtt sem brágðabirgðahúsnæði fyrir Kópavogsskóla eftir að koma þurfti nemendum hans fyrir annars staðar vegna mygluvandamála.

Frá uppsetningu Leikfélags Kópavogs á leikritinu Ungfrú Éttansjálfur í Kópavogsbíó árið 1968/Skjáskot timarit.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram