fbpx
Laugardagur 28.desember 2024

Silkivegurinn – Hvernig Ísland hjálpaði Bandaríkjunum að uppræta stóran svartan markað á myrkranetinu

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 12. janúar 2020 09:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2011 stofnaði ungur Bandaríkjamaður, Ross Ulbricht, vefsíðu í dimmum afkima internetsins, svokölluðu myrkraneti. Síðan nefndist Silk Road og varð á næstu árum að risastórum svörtum markaði þar sem alls kyns ólögleg sala átti sér stað. Vopn, fölsuð persónuskilríki, eiturlyf og fleiri ólöglegar vörur gengu þar kaupum og sölu og hirti Ulbricht fyrir vikið ríflegar söluþóknanir. Málið var eitt það stærsta sinnar tegundar sem bandaríska alríkislögreglan hefur tekist á við. Eftirmálar málsins urðu miklir og hafa ekki enn verið útkljáðir í dag. Ísland kom við sögu í málinu og átti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóran þátt í að ljóstra upp um málið.

Myrkranetið

Hið sýnilega internet sem við þekkjum flest og notum mikið í okkar daglega lífi er aðeins toppurinn á internetísjakanum. Handan þess sýnilega er gífurlega umfangsmikið myrkranet sem fæstir menn munu nokkurn tímann í lífi sínu sjá. Síður á myrkranetinu birtast ekki á leitarsíðum á borð við Google og þó svo ógjörningur sé að kveða á með fullvissu um umfang myrkranetsins þá hafa sérfræðingar haldið því fram að það sé að minnsta kosti hundrað sinnum stærra en hið sýnilega net. Til þess að fá aðgang að myrkranetinu þarf vissa lagni og viss tól, þar á meðal netvafrann Tor. Tor var framleiddur af bandaríska hernum og tryggir vafrinn einkennislaus samskipti á netinu.

Ross Ulbricht

Ross Ulbricht var handtekinn árið 2013 vegna aðkomu sinnar að Silk Road. Hann var þá aðeins 29 ára gamall en þá þegar, aðeins tveimur árum eftir að Silk Road fór í loftið, orðinn margfaldur milljarðamæringur.

Hann fæddist í Texas í Bandaríkjunum og nam eðlisfræði og verkfræði í háskóla. Hann mætti kalla öfga frjálshyggjumann. Þrátt fyrir mikla greind og góða menntun hugnaðist honum ekki að verða vísindamaður. Frumkvöðlastarfsemi heillaði hann og hann reyndi fyrir sér í stofnun þónokkurra sprotafyrirtækja, en án árangurs. Hann vantreysti yfirvaldi og ríkisstjórn og taldi stríðið gegn fíkniefnum tapaðan bardaga. Honum datt því í hug að koma á laggirnar vefsvæði sem væri yfir lög og reglur hafið. Viðskiptavinir síðunnar átti að vera í sjálfsvald sett hvaða efni þeir settu í líkama sína, án þess að eiga á hættu að lenda upp á kant við glæpagengi eða yfirvöld. Viðskiptalíkan síðunnar var ekki ósvipað því sem við þekkjum frá síðum á borð við eBay eða Ali Express. Síðan tengdi saman seljendur og kaupendur og gátu viðskiptavinir gefið seljendum einkunn.

Samskipti í gegnum síðuna áttu að vera með öllu nafnlaus og auðkennalaus. Sala gat aðeins átt sér stað með rafræna gjaldmiðlinum Bitcoin sem að mestu er órekjanlegur.

Ulbricht heimilaði þó aðeins glæpastarfsemi sem hann taldi skaðlausa öðrum en notendunum. Efni á borð við barnaklám, kjarnorkuvopn, þýfi og leigumorð voru bönnuð og er talið að um 70 prósent af þeim viðskiptum sem áttu sér stað í gegnum Silk Road hafi verið fíkniefnaviðskipti.

Talið er að heildarvelta síðunnar, á þeim tveimur árum sem hún var starfrækt, hafi samsvarað um 125 milljörðum íslenskra króna. Þegar Ulbricht var handtekinn var netvirði hans ríflega þrír milljarðar.

Íslenska lögreglan til bjargar

Bandarísk yfirvöld urðu meðvituð um tilvist síðunnar um tveimur mánuðum eftir að hún hóf starfsemi sína. Það tók þó tvö ár fyrir þau að komast að nafni Ulbricht. Það var einföld leit í gegnum Google sem að lokum opinberaði nafn hans. Ulbricht hafði ekki verið nægilega varkár. Hann notaðist við dulnefnið Dread Pirate Roberts en í árdaga síðunnar hafði notandi undir nafninu Altoid stundað það á spjallrásum að kynna síðuna. Í einum slíkum spjallþræði hafði Altoid gefið upp tölvupóstfang. Það tölvupóstfang innihélt fullt nafn Ulbricht.

Einnig tókst alríkislögrelgunni að hafa upp á IP-tölu Silk Road og gat þá fundið út hvar í heiminum síðan var hýst. Það var ekki í Bandaríkjunum heldur á lítilli eyju í Atlandshafi – Íslandi. Bandaríkin sendu þá réttarbeiðni til íslensku lögreglunnar þar sem óskað var eftir aðstoð. Þá hófst aðkoma Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á málinu og fylgdist hún með umferð hjá hýsingaraðila síðunnar hér á landi og aflaði gagna. Meðal þeirra gagna voru IP-tölur einstaklinga sem tengdust þeim vélbúnaði sem stjórnaði Silk Road.

Gögnin sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu komst yfir reyndust afar mikilvæg fyrir rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar og eftir handtöku Ulbricht var íslensku lögreglunni hrósað sérstaklega fyrir aðkomu hennar að málinu í yfirlýsingu sem alríkislögreglan gaf út.  Gögnin sem lögreglan á Íslandi aflaði vísuðu á stjórnendur Silk Road og alls konar samskipti sem þar höfðu átt sér stað. Mikilvægt þótti einnig hversu fljótt og vel lögreglan tók í réttarbeiðnina frá alríkislögreglunni, en samstarf löggæsluyfirvalda yfir landamæri getur oft verið hægfara og ekki var í gildi sérstakur milliríkjasamningur um lögreglusamstarf sem hefði geta torveldað málið enn frekar.

 

Handtaka Ulbricht

Í október árið 2013 var Ulbricht handtekinn á bókasafni í San Francisco þar sem hann bjó á þeim tíma.

Þá var hann með fartölvu þar sem hann var skráður inn sem stjórnandi á umsjónarkerfi Silk Road, á notandanafninu Dread Pirate Roberts. Það myndi því reynast erfitt fyrir hann að þræta fyrir aðkomu sína að síðunni.

Í fartölvunni fundust einnig milljarða virði af Bitcoin og enn fleiri fundust á USB-lyklum við húsleit á heimili Ulbricht. Ekki nóg með það heldur fannst á fartölvunni dagbók sem Ulbricht hafði haldið og innihélt mikið af gögnum um aðkomu hans að Silk Road.

Morðtilraun

Þegar Ulbricht var leiddur fyrir dómara reyndust ásakanirnar á hendur honum öllu alvarlegri en upphaflega var reiknað með. Þar voru sex ákæruliðir um tilraun til manndráps.

Við rannsókn alríkislögreglunnar var haft uppi á einum stjórnenda Silk Road, miðaldra tveggja barna föður sem kallaðist Curtis Green. Eftir að Green var handtekinn á Ulbricht að hafa óttast að Green gerðist uppljóstrari fyrir lögregluna til að hljóta vægari dóm fyrir brot sín. Ulbricht á þá að hafa haft samband við félaga sinn á Silk Road og beðið hann um að myrða Green. Þessi félagi reyndist þó vera fíkniefnalögreglumaður sem hafði farið huldu höfðu á Silk Road til að freista þess að hafa hendur í hári Ulbricht.

Til að koma sér enn frekar í mjúkinn hjá Ulbricht þá sviðsetti lögreglumaðurinn morðið á Green. Í málinu voru einnig lögð fram sönnunargögn sem sýndu að Ulbricht hafði áður reynt að ráða leigumorðingja til að losna við fjandmenn. Meðal annars átti hann að hafa fengið meðlim í mótorhjólasamtökunum Hells Angels til að drepa notanda á Silk Road sem reyndi að fjárkúga Ulbricht.

Morðákærurnar voru felldar niður áður en málið var tekið í dóm. Engu að síður þóttu brot Ulbricht alvarleg og hlaut hann tvöfaldan lífstíðardóm, auk fjörutíu ára og hefur hann ekki rétt til reynslulausnar.

Farsakenndar vendingar

Fíkniefnalögreglumaðurinn sem sviðsetti morðið til að leiða Ulbricht í gildru heitir Carl Force. Force sankaði að sér yfirgripsmiklum upplýsingum um notandanafn Ulbricht, Dread Pirate Roberts, sem hann síðan notaði til að beita Ulbricht fjárkúgun í skiptum fyrir upplýsingar um framvindu rannsóknarinnar. Force auðgaðist svo enn frekar á málinu með því að selja sögu sína til framleiðenda í kvikmyndaparadísinni Hollywood.

Annar lögreglumaður bandarísku leyniþjónustunnar, Shaun Brigdges, notaði auðkenni Green til að stela peningum Silk Road. Hann stal allt í allt ríflega 100 milljónum af mismunandi reikningum Silk Road.

Eftirmálar

Ulbricht hefur ítrekað reynt að áfrýja fangelsisdómi sínum en án árangurs. Hann hefur í áfrýjunarbeiðnum sínum vísað til spilltu lögreglumannanna tveggja sem greint er frá hér að framan, en þeir voru báðir sakfelldir fyrir brot sín. Ulbricht hefur einnig haldið því fram að lögregla hafi aflað sönnunargagna í málinu með ólögmætum hætti.

Bandaríkin greiddu Íslandi í október um 355 milljónir króna fyrir aðstoð við rannsókn málsins. Fjárhæðin var lögð inn á sérstakan löggæslusjóð á forræði dómsmálaráðherra. Um ráðstöfun fjárhæðarinnar var fjallað á vef stjórnarráðsins í desember og þar sagði meðal annars: „Aðstoð íslenskra löggæsluyfirvalda í máli sem kennt hefur verið við Silk Road reyndist lykilþáttur í að klára málið og lagði lögreglan fram umtalsverða aðstoð í málinu sem skilaði sér í að uppræta ólögmæta starfsemi. Umtalsvert fé var gert upptækt í formi sýndargjaldmiðilsins Bitcoin. Ríkissjóður fékk 15% heildarávinnings eða rúmlega 355 milljónir króna og hefur nú verið lögfest að þeir fjármunir renni í sérstakan löggæslusjóð. Fjármununum er ætlað að efla tækjabúnað lögreglu til að hún sé sem best í stakk búin og búi yfir nauðsynlegum búnaði til að takast á við skipulagða brotastarfsemi.“

Margir hafa verið handteknir og sakfelldir vegna viðskipta og aðkomu að Silk Road. Meðal annars hafa menn verið handteknir í Svíþjóð, Bretlandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi og samkvæmt heimildum DV er enn verið að fara yfir gögn, rannsaka og saksækja einstaklinga vegna málsins. Ulbricht ætlar ekki að una sínum dóm og sækist enn eftir að fá að áfrýja málinu. Fjölskylda hans hefur staðið fyrir söfnun fyrir lögfræðikostnaði og heldur úti síðu á netinu. Þau mótmæla því hversu þungur dómur Ulbricht er, en brot hans voru ekki ofbeldisfull.

Aðkoma Íslands að málinu er dæmi um farsælt samstarf lögregluyfirvalda þvert á landamæri, en slíkt samstarf, sérstaklega með þeim hraða sem þarna átti sér stað, er ekki sjálfgefið.

Curtis Green
Ross Ulbricht

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Hákon spilaði sinn fyrsta leik í úrvalsdeild

Hákon spilaði sinn fyrsta leik í úrvalsdeild
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Reyndi að skila bók á bókasafnið hálfri öld of seint – Safnar nú fyrir „sektinni“

Reyndi að skila bók á bókasafnið hálfri öld of seint – Safnar nú fyrir „sektinni“
Pressan
Fyrir 13 klukkutímum

Höfðu ekki verið dag án hvors annars í 35 ár – Svo kom stormurinn sem ástin gat ekki veðrað

Höfðu ekki verið dag án hvors annars í 35 ár – Svo kom stormurinn sem ástin gat ekki veðrað
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Snúin staða á norðurslóðum – Getur Ísland orðið að fylki í Bandaríkjunum?

Snúin staða á norðurslóðum – Getur Ísland orðið að fylki í Bandaríkjunum?
Eyjan
Fyrir 18 klukkutímum

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Gæti strax verið á förum frá Liverpool

Gæti strax verið á förum frá Liverpool
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Rooney sagður á barmi þess að vera rekinn

Rooney sagður á barmi þess að vera rekinn