fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Grannar munu berjast

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 25. maí 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í augum flestra er heimilið athvarf. Staður þar sem fjölskyldan á að geta verið í næði og verið áhyggjulaus. Góðir grannar eru lífsgæði, ekkert síðri en hreint vatn eða góð ljósleiðaratenging. Ef eitthvað fer úrskeiðis í samskiptum við nágrannana hefur það mikil áhrif á alla fjölskylduna og heimilið verður ekki sá sami griðastaður og áður.

Nágrannaerjur hefjast oft út af smávægilegum hlut, hlægilegum í stóra samhenginu. En vinda gjarnan upp á sig og ef ekki er gripið strax inn í geta þær farið úr böndunum. Getur slíkt ástand varað um margra ára skeið og upp geta komið atvik sem utanaðkomandi sjá sem algera sturlun, en þeir sem eru í orrahríðinni miðri upplifa sem eðlilegt framhald og stigmögnun. Margsinnis hafa slík mál endað fyrir dómstólum og stundum hefur ofbeldi fylgt.

 

Brennu-Njáls saga
Gunnar á Hlíðarenda og Hallgerður langbrók.

Húskarlavíg Bergþóru og Hallgerðar

Brennu-Njáls saga er frásögn af þekktustu nágrannaerjum Íslandssögunnar og frægð sögunnar nær langt út fyrir landsteinana. Vitaskuld ber að taka sögunni með fyrirvara, enda var hún rituð hundruðum ára eftir þann tíma sem hún á að hafa gerst.

Í sögunni er sagt frá vinunum Njáli Þorgeirssyni á Bergþórshvoli og Gunnari Hámundarsyni á Hlíðarenda. En deilan var á milli eiginkvenna þeirra, Bergþóru Skarphéðinsdóttur og Hallgerðar Höskuldsdóttur langbrók. Suðurlandið er sögusviðið.

Deilan á milli kvennanna byrjaði fyrir alvöru þegar Bergþóra skipaði Hallgerði að færa sig úr sæti í veislu á Bergþórshvoli. Vildi Bergþóra koma tengdadóttur sinni fyrir í betra sæti og Hallgerður móðgaðist og varð orðaskak á milli þeirra. Svo mikið að Hallgerður sendi Kol, húskarl sinn, til að drepa Svart, húskarl Bergþóru.

Á þessum tíma var hefnd hin eðlilega leið til þess að jafna mál og varð hún að vera hæfileg. Fæðardeilur var þetta kallað, hamið ofbeldi. Hlíðarendafólk þurfti að greiða bætur fyrir Svart en engu að síður hefndi Bergþóra sín og sendi Atla, austfirskan mann, til þess að drepa Kol. Gengu svo vígin fram og til baka á milli bæjanna og þeir Njáll og Gunnar réðu ekki neitt við neitt. Endaði þetta með dauða þeirra allra nema Hallgerðar, sem bjó í Laugarnesinu síðustu árin, og brennu Bergþórshvols.

 

Eggert Haukdal
Sjaldan lognmolla hjá þingmanninum.

Eggert Haukdal borinn út

Um þúsund árum síðar var Bergþórshvoll aftur orðið að ófriðarsvæði. Bjó þá Eggert Haukdal, bóndi og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, á jörðinni.

Í október árið 1990 greindi DV frá því að sveitungar í Landeyjum hefðu fengið nafnlaust dreifibréf sem sagt var vera frá Eggerti. „Svo sem kunnugt er barði og hrakti séra Páll barn Guðrúnar fyrir nokkrum árum grátandi frá sínum bæ og fyrirskipaði því að koma þangað aldrei framar,“ var meðal þess sem stóð í bréfinu sem skapaði mikla úlfúð í sveitinni.

Í bréfinu var hreppstjórinn, Eiríkur Ágústsson, sakaður um að hafa brotist inn í Njálsbúð og sagt að hann hefði skuldað í mötuneytisreikning grunnskólans. Hafnaði Eiríkur því alfarið. Aðrir hreppsnefndarmenn og fleiri sveitungar fengu einnig að finna fyrir því í bréfinu, sem var 21 blaðsíða að lengd. Einn af þeim, Haraldur Júlíusson, síðar hreppstjóri, átti eftir að kæra Eggert sjö árum síðar fyrir afglöp við stjórn hreppsins. Gengu kærurnar svo á víxl eins og húskarlavígin forðum. „Ég á nú ekkert von á því að menn fari að sækja að mér með eldi og vopnum,“ sagði Eggert í samtali við DV.

Páll þessi, sem nefndur var í bréfinu, var séra Páll Pálsson, sóknarprestur á Bergþórshvoli, og var stirt á milli þeirra Eggerts. Árið 1984 kom til átaka á sóknarnefndarfundi eftir messu þegar Eggert kom til að kjósa. Séra Páll hafði stytt messuna til að reyna að snúa á Eggert en hinn síðarnefndi sá við honum og fékk sinn mann kosinn í nefndina. Voru deilurnar í sókninni svo harðvítugar að fimm stuðningskonur séra Páls sögðu sig úr kvenfélaginu í Landeyjum því þær gátu ekki hugsað sér að starfa með stuðningskonum Eggerts. Prestur kærði eitt sóknarbarna sinna til ríkissaksóknara fyrir að hafa ætla að keyra á sig. Það sóknarbarn las upp kæruna í Akureyrarkirkju.

Lengi var ófriðlegt í kringum Eggert, sem lést árið 2016. Árið 2006 seldi hann bróðurdóttur sinni og manni hennar jörðina gegn því að hann fengi að búa þar þar til yfir lyki. Sú sambúð gekk hins vegar erfiðlega og kvörtuðu kaupendurnir yfir stöðugu áreiti Eggerts. Fór svo að Eggert var borinn út með dómsúrskurði og komið fyrir í séríbúð.

Bergþórshvoll og Káragerði
Veginum lokað með traktor.

Vegi lokað með dráttarvél

Við segjum ekki skilið við Bergþórshvol strax. Eftir að Eggert lést lentu frænka hans og eiginmaður hennar, Benedikta Haukdal, og Runólfur Maack, í erjum við hjónin Viðar Halldórsson og Rögnu Bogadóttur á bænum Káragerði. Aðeins eru um 400 metrar á milli bæjanna og eitt sinn var þetta sameiginleg jörð.

Harðvítugar deilur komu upp á milli heimilisfólks sumarið 2017 og greindi DV frá þeim. Snerust þær um aðkeyrslu að Káragerði. Tvær leiðir eru að bænum, önnur fram hjá Bergþórshvoli og önnur illfær. Hvorki sjúkrabílar né slökkviliðsbílar komast þann slóða. Vildi heimilisfólk á Bergþórshvoli að Káragerðisfólk kæmi sér upp eigin heimkeyrslu og lögðu dráttarvél þannig að ekki var hægt að keyra veginn að Káragerði.

„Þetta er náttúrulega bara héraðsvegur,“ sagði Viðar í samtali við DV á sínum tíma en jafnframt að hann vildi koma upp eigin heimkeyrslu og losna við að keyra fram hjá Bergþórshvoli. „Þetta hafa verið leiðindasamskipti þarna á milli og það koma upp svona árekstrar. Við viljum hafa sem minnst samskipti við þau en alltaf þegar kemur eitthvað upp á, er það frá þeim.“

Viðar nefndi til dæmis að Runólfur hefði mokað möl upp úr veginum og sturtað yfir á land Káragerðis. Einnig að Benedikta hefði hellt sér yfir barnabarn þeirra á Facebook.

Kuldinn á milli fólksins átti sér eldri rætur og báðar húsfreyjur tengdust Eggerti Haukdal. Ragna í Káragerði var systir sambýliskonu Eggerts. Borgþórshvoll 1 var kirkjujörð og bæði býlin buðu í hana þegar kirkjan seldi. Var boði Runólfs og Benediktu tekið.

Viðar sagði deiluna þó fyrst og fremst snúast um hlunnindi, til dæmis malartöku og veiðirétt úr Affallinu, og sagði að fólkið á Bergþórshvoli vildi ekki viðurkenna þau. Hafi Viðar til dæmis ekki verið boðaður á fund hjá veiðifélaginu þar sem Runólfur er formaður.

„Káragerði hefur verið í veiðifélaginu frá því það var stofnað og tekið þátt í allri uppbyggingu sem hefur þurft að leggja fjármagn í. Það fer ekkert á milli mála en þetta vill hann ekki viðurkenna.“

 

Hreggviður Hermannsson
Íbúi í Langholti í Árnessýslu.

Keyrt á Hreggvið

Suðurlandið er gósenland nágrannaerja og þá sérstaklega sveitirnar. Ein harðvítugasta deilan hefur nú geisað í Langholti í Árnessýslu í áratug. DV hefur ítarlega gert grein fyrir deilunni á milli Hreggviðs Hermannssonar í Langholti 1b og nágranna hans, Ragnars Vals Björgvinssonar og Fríðar Sólveigar Hannesdóttur, í Langholti 2.

Mar á handlegg
Hreggviður sagði nágrannann hafa reynt að drepa sig.
Marinn leggur
Hamagangurinn náðist á myndband.

„Hann reyndi að drepa mig,“ sagði Hreggviður í samtali við DV í janúar árið 2018 um meinta árás frá 21. desember árið áður. Höfðu báðir aðilar þá kært hvor annan til lögreglu. Ragnar og Fríður vildu þó ekki ræða við fjölmiðla.

Hreggviður sagði að þennan dag hefði hann séð hjónin í Langholti 2 rífa niður vírgirðingu sem aðskildi landareignirnar. Hann hafi þá ætlað að stöðva þetta. Hreggviður sagði:

„Ég var á eftir henni og var að reyna að stíga á vírspottann. Ragnar reyndi þá að keyra í veg fyrir mig en ég komst fram fyrir hann. Hann (Ragnar) reyndi að keyra mig niður en ég stökk þá upp á húddið til að bjarga mér. Ég reyndi að halda mér þar með annarri hendi en á meðan keyrði Ragnar hring á lóðinni og meðal annars í gegnum limgerði.“

Myndband og lögregluskýrsla virtist staðfesta þetta og var Ragnar ákærður um áramótin 2018/2019.

Sagðist Hreggviður hafa misst takið og fallið til jarðar og sakaði hann Ragnar um að hafa keyrt yfir fætur sína. Eftir það hafi Hreggviður staulast heim og loks liðið yfir hann við matarborðið.

Eins og svo oft í nágrannaerjum í sveitum landsins snerist deilan um hlunnindi og landamerki. Árið 2005 var uppi mál á milli bæjanna vegna veiðiréttinda í Hvítá. Vildi Hreggviður meina að Ragnar og Fríður væru að seilast inn á hans land. Hafa ótal kærur borist og lögreglan ítrekað þurft að skerast í leikinn. Í sama mánuði og frétt DV birtist greindi blaðið frá því að Hreggviður hefði hlotið 30 daga skilorðsbundinn dóm fyrir að stela girðingarstaurum og sófasetti, og einnig fyrir að hafa snúið upp á hönd Fríðar. Taldi hann lögreglu hafa misbeitt valdi sínu og nefndi að dóttir Fríðar væri yfirmaður hjá lögregluembættinu.

Guðni og hundarnir
Fúkyrði dags og nætur.

Fúkyrði um miðjar nætur

Erjur á milli parsins Heiðdísar Sesselju Guttormsdóttur og Eyþórs Guðmundssonar annars vegar og nágranna þeirra, Guðna, hins vegar rötuðu í fjölmiðla í nóvember árið 2018. Bjuggu þau á sveitabæ, skammt frá Dalvík. DV greindi frá því að erjurnar væru komnar inn á samfélagsmiðla og að parið hefði birt tugi myndskeiða af samskiptum sínum við Guðna.

Heiðdís
Hún og kærastinn Eyþór birtu myndbönd af erjunum.

Sökuðu þau Guðna meðal annars um að halda fyrir þeim vöku með hundum og hann ysi yfir þau fúkyrðum. Þegar DV ræddi við Heiðdísi hafði hún gefist upp á að hafa samband við lögregluna út af Guðna. Guðni sakaði þau hins vegar um að neyta fíkniefna. Hundarnir eru aðaldeiluefnið og í myndböndunum má sjá þá ráðast á nautgripi.

Orðaskakið og hrópin gengu á milli bæjanna. Í einu myndbandinu, sem tekið var upp klukkan fimm um nótt, mátti heyra ljótan munnsöfnuð nágrannanna en jafnframt svolítið spaugilegan. Eyþór sagði til að mynda: „Þú ert hommi,“ og Guðni svaraði: „Farðu að kúka og skilaðu tíund af því sem Rebbi refur segir.“

 

Píanó
Baldvin Atlason lenti í hávaðakeppni við Kristján, nágranna sinn.

Kærður fyrir píanóleik

Í þéttbýlinu eru nágrannerjur oft af öðrum ástæðum en í sveitum. Snúast þær oft um minni hluti en milljóna króna hlunnindi, en geta verið jafn harðar engu að síður. Á tíunda áratug 20. aldarinnar og fram á næstu öld stóð yfir styr á milli íbúa í Smáíbúðahverfinu. Vegna nokkurra trjáa.

Deilan var á milli Kristjáns Guðmundssonar skipstjóra, og Baldvins Atlasonar, húsvarðar í Þjóðarbókhlöðunni, sem bjuggu í Rauðagerði 39. Árið 1994 keypti Baldvin íbúð sína af Kristjáni og fyrst um sinn gekk sambúðin vel.

En allt fór í háaloft þegar Baldvin sagaði niður nokkur tré í garðinum. Kristján kærði Baldvin en tapaði því máli, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

„Ég fer í sturtu í vinnunni,“ sagði Baldvin við Fréttablaðið sem greindi frá málinu í febrúar árið 2003. Kristján hafði þá skrúfað fyrir hitann þannig að ofnarnir voru kaldir og ekki kom heitur dropi úr sturtunni. Kristján sagði að Baldvin greiddi ekki hitareikningana en Baldvin sagðist hafa reynt það með aðstoð lögreglu en Kristján ekki viljað taka við greiðslu.

Kristján kærði Baldvin einnig fyrir að spila á píanó í tíma og ótíma en það fór á sömu leið og hin kæran í héraði.

„Að sjálfsögðu má ég leika á píanó heima hjá mér. Það er bara verst að þegar ég reyni að leika þá byrjar Kristján að spila á hljómflutningstæki í kapp við mig,“ sagði Baldvin.

 

Hænur
Pólsku hjónin, Marzena og Wieslaw, urðu ekki vinsæl í húsinu.

Hænur í fjölbýlishúsi

Dýr valda oft nágrannaerjum. Í sveitum búfénaður og fjárhundar en í þéttbýli eru kettir algengir sökudólgar. Sjaldgæfara er að húsdýr valdi usla í þéttbýli en það gerðist síðasta haust á Ísafirði.

DV greindi frá því í september að íbúar í fjölbýlishúsinu við Sólgötu 8 væru orðnir langþreyttir á hænsnarækt nágranna sinna á efri hæð hússins. Þar voru hjónin Marzena og Wieslaw Nesteruk, frá Póllandi, með tíu hænur í haganlega uppsettu rými.

Gaggið í hænunum og lyktin var mikil að sögn nágrannanna, en þrjár íbúðir eru í húsinu. En að sögn héraðsdýralæknis þurfti ekki sérstakt leyfi fyrir færri en 250 fugla.

„Það er með ólíkindum að þetta sé leyfilegt. Hænur eiga ekki heima í fjölbýlishúsum,“ sagði einn nágranni við DV. Fólk í nærliggjandi húsum varð einnig fyrir ónæði vegna fuglanna. Haft var samband við Heilbrigðiseftirlitið og Matvælastofnun en engin úttekt gerð á húsinu. Elísabet Fjóludóttir héraðsdýralæknir rannsakaði hins vegar íbúðina og sagði aðbúnað dýranna til fyrirmyndar.

„Sá sem heldur fuglana kann greinilega sitt fag,“ sagði hún.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“